Hver mun verða skipaður í Hæstarétt Íslands?

Hæstiréttur Það kom ekki að óvörum að Hrafn Bragason, hæstaréttardómari, hefði ákveðið að víkja úr Hæstarétti. Hann verður sjötugur innan árs og því öllum ljóst að styttist í starfslok hans. Vangaveltur munu nú hefjast um það hverjir muni sækja um sæti Hrafns í Hæstarétti, en Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, mun skipa í réttinn, en hann sat hjá við tvær síðustu skipanir í kjölfar mála Hjördísar Bjarkar Hákonardóttur.

Þegar að Guðrún Erlendsdóttir lét af dómaraembætti vorið 2006 var Hjördís Björk Hákonardóttir skipuð í hennar stað, eftir að hafa ekki fengið dómaraembætti árin 2003 og 2004, þegar að Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson fengu skipun í réttinn. Páll Hreinsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, sótti þá um stöðuna en fékk ekki þrátt fyrir að margir töldu hann einn allra vænlegasta umsækjandann. Það kæmi ekki að óvörum þó að Páll myndi aftur sækja um núna og eflaust verður líka spáð í hvort að Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, muni verða í hópi umsækjenda, en margir framsóknarmenn, þar á meðal Halldór Ásgrímsson lýstu yfir óánægju sinni þegar að hann fékk ekki skipun í réttinn haustið 2004 er Jón Steinar var valinn.

Tvær konur sitja í Hæstarétti. Ingibjörg Benediktsdóttir var skipuð í réttinn af Sólveigu Pétursdóttur árið 2001 og eins og fyrr segir hefur Hjördís Björk Hákonardóttir verið hæstaréttardómari frá því að Guðrún Erlendsdóttir hætti á síðasta ári, en hún var skipuð í réttinn af Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Eflaust munu heyrast einhverjar raddir um það hvort að kona muni fá hnossið nú og eflaust munu einhverjar sækja um. Sigríður Ingvarsdóttir, héraðsdómari við héraðsdóm Reykjavíkur, sótti um embættið í fyrravor. Fróðlegt verður að sjá hvort hún verði nú í hópi umsækjenda.

Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari, hefur sótt nokkrum sinnum um embætti hæstaréttardómara og ekki fengið. Athyglisvert verður að sjá hvort hann reynir aftur og sama mætti eflaust segja um Eggert Óskarsson, héraðsdómara, og Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari við héraðsdóm Reykjaness, sem hafa reynt áður að komast í Hæstarétt.

Svo eru eflaust einhver ný nöfn fólks sem munu bætast við, fólk sem hefur víðtæka reynslu og hefur hug á embættinu. Það verður í það minnsta athyglisvert að sjá lista umsækjenda þegar að umsóknarfrestur hefur runnið út.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Dómsmálaráðherra finnur einhvern góðkunningja sinn úr Sjálfstæðisflokknum. Það eru einhverjir á lausu úr þeim geira.

Jón Ingi Cæsarsson, 3.7.2007 kl. 18:08

2 identicon

Umsækjendur eina fá

sem enginn stöðu varnar, 

með flúrað merki flokksins á

feitar rasskinnarnar

Már Högnason (IP-tala skráð) 3.7.2007 kl. 18:35

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Kemur í ljós. Maður vonar alltaf að verðleikar ráðu meiru en vinargreiði

Ásdís Sigurðardóttir, 3.7.2007 kl. 20:24

4 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Ég vil engan kynjakvóta heldur hæfasta umsækjandann

Aðalheiður Ámundadóttir, 3.7.2007 kl. 20:39

5 Smámynd: Guðjón Helmut Kerchner

Ætli hann skipi ekki einhvern góðan lögmann sem er viðriðinn Baugsmálið í Hæstarétt, svo hann fái nú "rétta" niðurstöðu úr dómskerfinu á næstuni.

Guðjón Helmut Kerchner, 3.7.2007 kl. 21:57

6 Smámynd: Anna Pála Sverrisdóttir

Ég held að Eiríkur Tómasson muni ekki sækja um meðan Björn Bjarnason er ennþá dómsmálaráðherra.

Anna Pála Sverrisdóttir, 3.7.2007 kl. 22:23

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin og pælingarnar við skrifin mín. Það verður fróðlegt að sjá hverjir sækja um allavega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.7.2007 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband