16 mánuðir til stefnu í USA - spennan magnast

Bill Clinton og Hillary Rodham Clinton Það eru nákvæmlega sextán mánuðir þar til að 44. forseti Bandaríkjanna, eftirmaður George W. Bush, verður kjörinn. Það er jafnan heil eilífð í pólitískri baráttu. En baráttan um Hvíta húsið er þegar hafin af krafti og það fyrir löngu. George W. Bush virðist nær algjörlega búinn að vera sem öflugur stjórnmálamaður, maður sem hefur alvöru völd og sterka stöðu á stjórnmálasviðinu. Hann mælist svipað óvinsæll og Richard M. Nixon á Watergate-tímanum. Örlög hans seinasta sprett valdaferilsins urðu vel ljós með tapi þingdeildanna beggja í nóvember.

Þessar óvinsældir kristallast mjög afgerandi í upphafi kosningabaráttunnar svo snemma. Það hefur ekki gerst fyrr að í upphafi ársins fyrir forsetakosningar séu flestir komnir á fullt og meira að segja kappræður flokkanna hafnar, en þær hófust í apríl. Fyrstu forkosningarnar verða ekki fyrr en í janúar 2008. Þegar hafa fjöldi forsetaframbjóðenda demókrata og repúblikana hist tvisvar í hörðum og líflegum kappræðum. Það er hörð barátta um útnefningu beggja flokka. Eftir tvo ósigra í forsetakosningum munu demókratar berjast af krafti fyrir því að öðlast völd í Hvíta húsinu samhliða völdum í báðum þingdeildum. Þar er leitað að sigurvegara og kröfur flokksmanna eðlilega mjög miklar.

Í vikunni var þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna, 4. júlí, haldinn hátíðlegur vestra, eins og eðlilegt var. Þessi dagur markaðist af kosningahasar frambjóðendanna sem allir berjast um að vekja á sér sem mesta athygli. Frambjóðendur demókrata fjölmenntu til Iowa til að sýna sig og sjá aðra. Af hverju Iowa spyr sennilega einhver. Jú, þar verða fyrstu forkosningar flokksins í janúar. Þar skiptir máli að sigra, þeir sem tapa og jafnvel stórt fara fljótt eftir það að hellast úr lestinni. Það sást vel fyrir þrem árum að John Kerry náði sinni stöðu á sterkum sigrum í upphafi og þeir skiptu hann lykilmáli þegar að yfir lauk. Fyrir frambjóðendur demókrata skiptir því gott upphaf máli. Það að ná góðri stöðu í Iowa er þeim lykilmál.

Hillary Rodham Clinton skartaði öllu sem til var. Með henni í för til Iowa var eiginmaður hennar, Bill Clinton, 42. forseti Bandaríkjanna. Þau vöktu mikla athygli og var fagnað þar sem þau fóru. Mikla hrifningu meðal fólksins vakti heimsókn þeirra í ísbúð og er þau spjölluðu notalega við íbúa þar á götunum daginn fyrir þjóðhátíðardaginn og á sjálfum stóra deginum. Clinton-hjónin eru auðvitað fjölmiðlastjörnur. Þau eru öllum þekkt og njóta virðingar sem fyrrum forsetahjón Bandaríkjanna. Stærsti kostur Hillary er eiginmaðurinn rétt eins og hún var hans stærsti kostur þegar að hann fór fram fyrir fimmtán árum og vann ógleymanlegan sigur á George H. W. Bush. Þetta vita þau bæði og þau nota það vel.

Það vita reyndar allir sem þekkja pólitíska loftið vestanhafs að stjörnur Demókrataflokksins eru Clinton-hjónin. Fyrir löngu var talið að Hillary myndi rúlla þessu upp án fyrirhafnar. Framboð Barack Obama setti strik í reikninginn. Hann virðist vera sá eini sem getur fellt hana. Hann er auðvitað blökkumaður og hefur tekið talsvert fylgi frá Hillary, tekur frá hópum sem áður fylktu sér um Clinton-hjónin. Það er alveg ljóst að tapi Hillary mun ekki aðeins hún veikjast verulega á þessari áhættu sem fylgdi framboðinu heldur líka Bill Clinton. Því verður barist af krafti. Maskína þeirra er gríðarlega öflug og þar hefur ekki verið slegin feilnóta áratugum saman. Það telja flestir að þau muni ná þessu er á hólminn kemur.

Það stefnir í spennandi forsetaslag repúblikana. Rudolph Giuliani hefur leitt slaginn frá upphafi að því er virðist. Staða John McCain, öldungadeildarþingmanns, sem flestir töldu einn sterkasta valkostinn lengi vel og vænlegan til árangurs, versnar sífellt. Hann virðist vera að hellast með áberandi hætti úr lestinni og er kominn í veruleg fjárhagsleg vandræði þar sem hann hefur engan veginn náð að safna eins miklum peningum eins og Giuliani og Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóri í Massachusetts, sem mörgum að óvörum virðist eiga raunhæfa möguleika á útnefningunni. Bráðlega má búast við framboði Fred Thompson, sem er þekktastur fyrir þingsetu og leikferil sinn til fjölda ára. Hann virðist eiga góðan séns.

Barátta repúblikana um útnefningu flokksins er galopin, enda getur Bush forseti ekki gefið kost á sér til endurkjörs og varaforsetinn Dick Cheney hefur aldrei haft áhuga á forsetaembættinu. Mikil barátta er hafin milli frambjóðenda flokksins, mjög harðskeytt og með þeim kuldalegustu í áraraðir. Reyndar var mikill kuldi í kapphlaupi George W. Bush og John McCain árið 2000. Frá sigri Ronalds Reagans árið 1980 hefur þetta verið frekar rólegt hjá repúblikunum fyrir utan slaginn árið 2000 þar sem baráttutækni Karl Rove skein í gegnum er Bush sló út McCain með grimmilega beittum auglýsingum sem seint gleymast. Ógæfan virðist enn elta McCain sem horfir á seinasta sénsinn gufa upp.

Forsetaefnin eru komin á fullt. Þó enn séu rúmir sex mánuðir í fyrstu forkosningar og sextán mánuðir í kjördaginn sjálfan er hasarinn jafnmikill og forkosningar væru í næsta mánuði. Það verður fróðlegt hverjir ná að halda dampi í gegnum þetta gríðarlega langa skeið - til þess þarf hafsjó af dollaraseðlum og væna sjóði atorku í bland við auðæfin. Þegar er búið að ráða allt kosningastarfsfólk og maskínan er á full swing. Bush á enn eftir rúmlega eitt og hálft ár í Hvíta húsinu en bæði flokksfélagar hans og andstæðingarnir hafa löngu startað - stórt merki þess hversu áhrif forsetans fara sífellt þverrandi, sérstaklega innan eigin flokks.

Þetta verða líflegir sextán mánuðir. Það verður áhugavert að sjá hverjir hafa mesta þrekið og komast alla leið inn í lokasprett forkosninganna og fá farmiða flokka sinna inn í tvísýnasta og harðvítugasta forsetaslag í sögu Bandaríkjanna. Þetta verður massífur pakki!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ætli BNA hefði ekki bara gott af því að fá kvenforseta. Held það bara.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.7.2007 kl. 15:00

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Jú það myndi stokka stöðuna mikið upp. Verður gaman að sjá hvað verður. Hillary er allavega gríðarlega sterkur kandidat og hefur vænlega stöðu og ekki skaðar makinn, sem hefur gríðarlega víðtæka pólitíska reynslu. Þetta er mjög sterkt par í framboði, klárlega.

Vona að þú hafir haft gaman af pistlinum. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.7.2007 kl. 15:06

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Rudolph Giuliani tekur þetta hjá rep en persónulega hefði ég viljað J. Bush en aðalatriðið er að rep. verði áfram í Hvíta Húsinu.

Óðinn Þórisson, 7.7.2007 kl. 16:07

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, ég held að Giuliani nái þessu repúblikanamegin. Það vilja margir þar breytingar og sennilega er Giuliani sterkasti boðberi þeirra. Spurning þó með Fred Thompson og Mitt Romney. Þeir eru þeir einu sem geta ógnað Giuliani.

Það væri virkilega flott ef þetta yrði slagur á milli Giuliani og Clinton, sami slagur og allt stefndi í fyrir sjö árum í öldungadeildarþingkosningunum í New York en varð þá ekki vegna veikinda Giulianis.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.7.2007 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband