Líflegt ástarlíf litríkrar kvikmyndaleikkonu

Drew Barrymore Það virðist vera fjörlegt ástarlífið hjá leikkonunni Drew Barrymore. Ef marka má fréttirnar á hún í ástarsambandi samtímis við bæði leikstjórann Spike Jonze, sem gerði tímamótamyndina Being John Malkovich árið 1999 og var giftur leikstjóranum Sofiu Coppola - sem gerði Lost in Translation- dóttur leikstjórans Francis Ford Coppola, og leikarann Zach Braff, sem þekktastur er hérlendis fyrir að leika J.D. Dorian í gamanþáttunum Scrubs.

Drew Barrymore hefur alltaf átt sér litríka ævi og verið í sviðsljósinu síðan að hún var krakki. Hún er í þekktri leikarafjölskyldu. Afi hennar, John Barrymore, var þekktur leikari og var bróðir hinna þekktu leikara gullaldartíma Hollywood, Lionel og Ethel Barrymore, sem bæði hlutu óskarinn og heimsfrægð á löngum leikferli. Faðir Drew, John yngri, var líka þekktur en var mun brokkgengari í bransanum og átti litríka ævi, sem einkenndist af mikilli óreglu og villtu líferni umfram allt annað.

Drew Barrymore varð ung stjarna og fetaði í fótspor forfeðra sinna. Drew var ekki nema sex ára gömul þegar að Steven Spielberg ákvað að velja hana í hið þýðingarmikla hlutverk Gertie í kvikmyndinni E.T. - the Extra Terrestrial, sem varð ein vinsælasta síns tíma. Hún átti ekki langan feril að baki þá en varð stjarna á einni nóttu. Samleikur hennar og hins skringilega E.T. varð gullið á hvíta tjaldinu. E.T. var reyndar fyrsta bíómyndin sem ég sá í bíó, mjög sællar minningar. En frægðin getur verið fallvölt. Sú varð reyndin hjá Drew sem eftir barnastjörnutilveruna lenti í óreglu eins og faðir hennar og var næstum orðin henni að bráð.

Eftir að hún reisti sig við aftur hefur hún átt fjöldann allan af eftirminnilegum hlutverkum. Nægir þar að nefna Ivy í Poison Ivy, Casey í Mad Love, Sugar í Batman Forever, Skylar í Woody Allen-söngvamyndinni litríku Everyone Says I Love You (þar sem hún ein leikhópsins fékkst ekki til að syngja - Allen sjálfur, Edward Norton og Goldie Hawn sungu þar með bravúr), Casey Becker í hinu nöturlega upphafsatriði Scream, Julia í hinni nostalgísku The Wedding Singer, Josie í Never Been Kissed, Dylan í Charlie´s Angels, Nancy í hinni sprenghlægilegu Duplex, Lindsey í Fever Pitch og Sophie í Music and Lyrics.

Drew hefur aldrei verið feimin í að stuða. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þessir rómansar hennar fari. Varla eru þeir Braff og Jonze þó glaðir við að deila sæng með hinni frægu leikkonu saman mikið lengur eftir þessar neyðarlegu fréttir. Annars hefur ástarlíf Drew aldrei verið slétt og fellt. Nægir þar að nefna hið fræga (og ótrúlega langlífa) samband hennar við grínistann Tom Green, sem þótti ekki beinlínis draumur allra tengdamæðra.

mbl.is Ástarþríhyrningur Barrymore
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband