Easy Rider

Easy Rider Ég horfði í kvöld á mynd sem alltof langt er síðan ég hef séð. Fyrir valinu varð nefnilega Easy Rider. Þetta er auðvitað eðalmynd. Henni er sennilega best lýst sem sígildri og næstum sagnfræðilegri gullaldarheimild um hippaheimspeki sjöunda áratugarins. Þar segir af blómabörnunum Billy og Wyatt sem leggja uppí ferð til að skoða gervalla Ameríku. Sú verður þeirra síðasta.

Þeir verða að lokum fórnarlömb þess hugsunarháttar sem þeir börðust á móti. Á leiðinni kynnast þeir fjölmörgum skrýtnum landanum, þeirra á meðal er George Hanson, en hann er lögfróður drykkjurútur sem ákveður að slást í för með þeim félögum. Það verður mikill ævintýrarúntur, í senn örlagaríkur og líflegur.

Easy Rider er auðvitað hiklaust ein af mest stefnumótandi myndum sjöunda áratugarins og jafnvel kvikmyndasögunnar, enda eru eftirlíkingarnar af henni orðnar giska óteljandi. Hún kostaði smáaura en halaði inn milljónum dollara og varð ein af vinsælustu kvikmyndum sjöunda áratugarins og hefur unnið sér merkan sess í kvikmyndasögunni.

Dennis Hopper og Peter Fonda fara þar á kostum í hlutverkum ferðafélaganna Billy og Wyatt. Þeir voru eiginlega aldrei betri á ferli sínum en þar, þó að mér hafi alltaf fundist Hopper bestur í Speed í mögnuðu hlutverki Howard Payne og svo sem Frank í Blue Velvet. Fonda hefur átt gloppóttan feril en brilleraði í hlutverki Ulee í Ulee´s Gold.

Óskarsverðlaunaleikarinn Jack Nicholson fékk sitt fyrsta stórtækifæri á ferlinum í hlutverki George Hanson og átti stórleik, hreint út sagt. Leið hans varð bein og greið, en hann hefur þrisvar hlotið óskarinn en fyrir Easy Rider fékk hann sína fyrstu tilnefningu. Það er hrein unun að fylgjast með Nicholson í þessari mynd.

Lagið Ballad of Easy Rider setur sterkan svip á myndina, sérstaklega í hinu sviplega lokaatriði, sem enn í dag kemur sem rosalegt sjokk við sorgleg leiðarlok blómabarnanna. Ballad of Easy Rider með The Byrds er í tónlistarspilaranum hér á síðunni. Endilega hlustið á það - frábært lag.

En mikið innilega var gaman að sjá þessa mynd aftur. Hressandi og gott!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HAKMO

klassa mynd

HAKMO, 18.7.2007 kl. 23:16

2 Smámynd: Alvy Singer

...og ekki má gleyma lögunum í myndinni.

Alvy Singer, 18.7.2007 kl. 23:29

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Algjör klassi já, HAKMO.

Alvy: Nei, þessi mynd er auðvitað stútfull af frábærum lögum, allt frá upphafsatriðinu þar sem Born to be Wild hljómar til lokalagsins Ballad of Easy Rider. Flottur pakki í heildina svo sannarlega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.7.2007 kl. 23:37

4 Smámynd: Alvy Singer

Já Stefán þú fékkst mig til að setja diskinn í tækið... 

Alvy Singer, 18.7.2007 kl. 23:57

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Frábært að heyra. En já, Alvy Singer. Flott nafn. Þá ertu væntanlega mikill aðdáandi Annie Hall. Hvernig finnst þér annars Woody? Hvaða myndir með honum finnst þér bestar, gef mér annars að þú sért aðdáandi hans, maður með þetta notandanafn hehe. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.7.2007 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband