Innihaldsríkt blogg vekur alltaf mesta lukku

Bloggið hefur slegið í gegn um allan heim. Það er í tísku í dag að fólk tjái sig með sínum hætti um menn og málefni samtímans. Sumir skrifa um prívatlífið sitt, aðrir vilja tala um eitthvað annað. Sumir finna millibil í þessu tvennu og flétta saman í úrvalsgott blogg. Það er jafnan svo að bloggið manns verður karaktereinkenni á það hvernig penni fólk sé eða hvað það er að hugsa um. Sumir hafa þann stíl að skrifa undir nafnleynd, þó að mun fleiri leggi nafn sitt við skrifin. Sjálfum finnst mér nafnlaust blogg ekkert spes, enda er mesti sjarminn við blogg að heyra skoðanir þeirra sem tala hreint út og gera það heiðarlega með nafninu sínu.

Fannst þessi frétt mjög athyglisverð. Fjallar um bloggheimana í innsta kjarna, vinsælustu blogg heimsins hvorki meira né minna. Kemur varla að óvörum að þau séu staðsett í Kína. Xu Jingley hefur fengið hvorki meira né minna en 100 milljón heimsóknir á 600 dögum. Það er þó engin ástarvella sem þar fer fram með rósrauðu yfirbragði heldur ítarleg og góð skrif sýnist mér. Það er að ég held alltaf svo að þau blogg sem mest halda velli og halda dampi í gegnum allt eru bloggin sem eru með sterkasta grunninn, mannlífsspegill í bland við sterkar skoðanir á því sem er að gerast. Þau halda lengst og best velli, þó rósrauð blogg fái einhvern damp.

Ég hef bloggað í fimm ár, finnst það stundum styttra. Það eru ekkert svo margir enn virkir í bloggheimum sem eru eftir frá því fyrir þann tíma. Hef alla tíð haft rosalega gaman af þessu. Fyrst var þetta bara prívatblogg, eða mér fannst það, svo vatt þetta upp á sig. Ég skrifa alltaf þannig að þar kemur fram sem er í hausnum á mér. Það er heilladrýgst, enda sést fljótt hvort að fólk skrifar af innlifun og áhuga um mál eða er að gera það að skyldurækni á öðrum forsendum en af áhuga. Fyrst fannst mér svolítið fjarstæðukennt að blogga, en ég fann minn takt og er sáttur við hann. Þetta er fyrir löngu orðinn veigamikill partur daglega lífsins.

Ég hef lesið ótrúlega mörg blogg um dagana, rúnturinn í gegnum daginn er alltaf langur. Mislangur samt, stundum sér maður ekkert sérstök blogg, sumir vekja þó alltaf meiri athygli. Ég hef aldrei litið á mig sem í samkeppni við einn né neinn. Ég segi bara það sem mér finnst mikilvægt að tjá mig um, það er alltaf gott að fá málefnaleg komment og skemmtilegt spjall út úr því. Þetta er mannlífstjáning dagsins í dag. Ég er fyrir löngu hættur að skrifa greinar í blöð, hef miklu meira gaman af þessu.

En þessi frétt segir okkur kannski mikið um hvernig blogg eru sígildust og halda best velli í gegnum allt flóðið. Það er segin saga að innihaldsríkustu bloggin halda mest velli, þau sem eru skrifuð af sönnum áhuga og krafti. Það er bara mjög einfalt mál.


mbl.is Vinsælust án kynlífs og kjaftasagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég hef nú samt oft furðað mig á því hvaða blogg eru vinsæl og hvernig sum blogg sem eru afbragðsgóð og djúp speki eru alveg óþekkt nema af litlum hópi. Oft held ég að það hafi eitthvað með vettvanginn að gera og tengist eitthvað persónunni sem skrifar og hvaða status viðkomandi hefur í sínu samfélagi. Þannig eru lesið með áfergju blogg af fjölmiðlafólki og frá þotuliði en þó miklu meiri speki komi frá öðrum óþekktari þá vekur það enga eftirtekt.

Varðandi kínverska bloggara þá kynntist ég sumum í gegnum wikipedia ráðstefnur, einn sem ég hef hitt heitir Isaacc Mao og hann hefur barist fyrir tjáningarfrelsi í Kína, blogginu hans hefur verið lokað oftar en einu sinni af stjórnvöldum þar. Hér er t.d. ein bloggfærsla frá honum http://www.isaacmao.com/meta/2007/06/flickrs-almost-banned-in-china.html

hann skrifar nú mest á kínversku á blogg svo ég get ekki lesið það. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.7.2007 kl. 16:57

2 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Salvör, ég tek undir orð þín. En dugnaður er fyrsta boðorð vinsæls bloggara eins og Stefáns Friðriks sem er reyndar líka málefnalegur. Hins vegar virðist það vera tilviljun, duttlungar sem ráða hvort bloggið verði "vinsælt" eða ekki í mörgum tilvikum. 

Það eru margar mjög áhugaverðar, fróðlegar og skemmtilegar síður sem ekki njóta "vinsælda" en maður man frekar eftir  tablot-blogginu, og fyrir forvitnissakir fer maður inna á það  aftur og jafnvel aftur en ekki til eilífðarnóns. Ef bloggið á að endast verður það að vera málefnalegt og vel skrifað eins og hjá Stefáni.  

Benedikt Halldórsson, 19.7.2007 kl. 17:22

3 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég get tekið undir flesta ef ekki alla punkta hér. Það eina sem skyggir á þennan annars skemmtilega tjámiðil er níð sem af og til dúkkar upp. Það eru þeir sem ekki geta tjáð sig á málefnalegan hátt og falla í þá gryfju að vera með skítkast og persónulegar blammeringar í garð annarra bloggara.
Engin mál ættu að þurfa að kalla á slík viðbrögð. En eins og ég segi þá er þetta alger undantekning. Skemmtilegast finnst mér þegar margir koma með sín sjónarmið og rökstyðja þau með sannfærandi hætti. Þegar málum er velt fram og til baka og nýjir vinklar birtast. Þá er blogg virkilega gefandi og fræðandi. 

Kolbrún Baldursdóttir, 19.7.2007 kl. 18:07

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin og góð orð. Virkilega gaman að lesa þessar pælingar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.7.2007 kl. 18:29

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir góðan pistil Stebbi. Ég er sammála flestu framansögðu, mér finnst rosa gaman að fara hringinn á blogginu á kvöldin og kíkja á "vini mína" hef valið að hafa lítinn en góðan kjarna, annars gæti ég misst mig í hið óendanlega.  Nú fer ég suður á morgun með góðar minningar úr ferðinni norður og vonandi batnar heilsan þegar líður á.  Kær kveðja.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.7.2007 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband