Spakmæli að vestan - varnaðarorð Einars Odds

Einar Oddur Kristjánsson Ég las í dag vikugamalt viðtal Bæjarins besta á Ísafirði við Einar Odd Kristjánsson, alþingismann. Það er mjög sérstakt að lesa viðtalið nú þegar að Einar Oddur er allur. Það færir því auðvitað aðra dýpt að þetta sé síðasta fjölmiðlaviðtalið við þennan öfluga þingmann sem talaði aldrei neina tæpitungu í fjölmiðlum og hikaði aldrei í sinni pólitík. Það gerði hann ekki heldur í þessu viðtali. Fyrirsögnin er enda: Borgríkið Ísland. Þar talar Einar Oddur af krafti um stöðu landsbyggðarinnar. Þar koma fram varnaðarorð yfir stöðunni frá honum.

Mér fannst Einar Oddur alltaf sannur og öflugur í sinni pólitík. Þar lá stærsti kostur hans, fyrir það verður hans alltaf minnst. Var mjög sammála mörgu sem fram kom í þessu viðtali. Það ber öll karaktereinkenni Einars Odds Kristjánssonar. Hann hikar ekkert að láta menn eða stofnanir heyra það og er mjög afdráttarlaus í dómum sínum yfir stöðunni. Enda er staðan svo sannarlega dökk eftir kvótaniðurskurðinn og margar byggðir horfa fram á dökkan vetur. Það er heldur ekki óeðlilegt að velta því fyrir sér hvort Ísland sé orðið borgríki.

Það munu margir sakna innleggs Einars Odds í stjórnmálaumræðuna. Ég á eftir að sakna hans, enda fannst mér hann einn fárra í þingflokki okkar sjálfstæðismanna sem töluðu afdráttarlaust, spurðu ekki að flokkslitnum og lét allt gossa sem hann var í raun að hugsa. Hann var ekki að elta eitt né neitt, var mjög afdráttarlaus og öflugur. Hann vissi sem var að við eigum aldrei að eyða meiru en aflað hefur verið. Það er ekki til neins að lofa öllu fögru þegar að vitað er að við stöndum ekki undir því. Þetta kom virkilega vel fram í hinni öflugu lokaræðu Einars Odds í þinginu í júníbyrjun.

Það var hressandi að lesa þetta viðtal. En það er mikill sjónarsviptir af Einari Oddi. Það er alveg ljóst og það verður fróðlegt að sjá hvernig blær verður yfir þingflokknum í vetur. Það er skarð fyrir skildi. Það er öllum ljóst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mikið er eg á sama máli með þennan góða dreng/við munum sakna hans mikið,sjalfstæðismenn og auðvitað fleiri/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 20.7.2007 kl. 00:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband