Löng andvökunótt hjá aðdáendum Harry Potter

Aðdáandi les Aðdáendur ævintýrasagnanna um Harry Potter áttu andvökunótt við að lesa sjöunda og síðasta bindið um galdrastrákinn um allan heim. Margar sögusagnir hafa gengið um endalokin og er það nú í höndum lesenda að komast að því hvernig fer að lokum. Um allan heim, allt frá Íslandi til Nýja-Sjálands, biðu aðdáendur bókarinnar í röðum eftir að komast yfir eintak af bókinni, margir biðu í vel yfir 30 klukkustundir. Aðrir pöntuðu bókina fyrirfram og fá hana senda heim í pósti og slepptu langri bið.

Bækurnar um Harry Potter hafa komið út í tíu ár og hafa allar notið mikilla vinsælda. Langar biðraðir hafa myndast í hvert skipti eftir þeim. Fyrsta bókin, Harry Potter og viskusteinnin, er ein mest selda bók heims, sú níunda eða tíunda mest selda að mig minnir, naut allavega gríðarlegra vinsælda. Áhuginn fyrir bókunum hefur alltaf verið mikill og hefur æðið sem myndaðist utan um ævintýrabálkinn verið áberandi. Fá ævintýri hafa náð betur til fólks á öllum aldri og eitt er víst að lesendahópurinn er ekki bara börn eða unglingar. Bækurnar hafa enda verið fjölskyldulesning og áhuginn eftir því.

Bækurnar um Harry Potter hafa opnað magnaðan ævintýraheim. Sennilega er J.K. Rowling ekki besti rithöfundur sögunnar en henni tókst með ævintýralegum hætti að búa til heim sem lesendur gátu gleymt sér í og fangaði ævintýraþörf fólks. Þetta er ekki ósvipað og Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien. Flestir muna eftir tilhlökkuninni eftir myndunum þrem á hinum gömlu og góðu bókum, sem fæstir höfðu lesið áður en þeir sáu fyrstu myndina. Það varð visst spennufall hjá aðdáendum sagnanna þegar að þriðja og síðasta myndin varð opinber og sama mun eflaust gerast meðal aðdáenda Harry Potter nú, sem geta þó beðið eftir næstu tveim kvikmyndum.

Mér finnst merkilega lítið hafa heyrst um sögulokin. Eflaust vill hver og einn lesa bókina á sínum hraða. Sumir þjófstarta með því að líta fyrst á síðasta kaflann til að eyða óvissunni. Það er þó aldrei gaman að lesa bók sem vitað er hvernig endað, svo að sennilegast lesa flestir bókina á eðlilegum hraða. Það er þó svo með Harry Potter-bækur að það hleypur enginn á hundavaði í gegnum þær. Enda eru þær mjög þykkar og yfirgripsmiklar.

Harry Potter and the Deathly Hallows er 608 blaðsíður, svo að löng helgarlesning er framundan hjá þeim sem biðu sem lengst.

mbl.is Harry Potter allur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband