Leiksnillingurinn með fjöldamörgu andlitin

Peter Sellers Leikarinn Peter Sellers var einstakur gamanleikari, sá allra besti í kvikmyndasögunni að mínu mati. Túlkun hans á gamansömum karakterum eru enn í dag gulls ígildi. Enginn var betri en hann í að skipta á milli persóna með undraverðum hraða, svo allt rann ljúflega og meistaralega saman. Ég gleymdi mér gjörsamlega í kvöld þegar að ég fann þriggja áratuga gamalt viðtal við Sellers hjá breska spjallþáttakónginum Michael Parkinson á YouTube. Sannkölluð snilld.

Þetta voru fjórir tíu mínútna hlutar. Um leið og ég hafði fundið þann fyrsta varð ég skoða allan pakkann. Það olli svo sannarlega ekki vonbrigðum. Virkilega gott viðtal og áhugavert. Þar koma svo sannarlega vel fram frábærir taktar Sellers í persónusköpun. Hann fór mjög hratt yfir góðar sögur og fór á milli persóna í túlkun með snilldarbrag. Var bæði fyndið og skemmtilegt að sjá þennan pakka. Allan þann tíma sem ég hef verið kvikmyndaáhugamaður hef ég metið mjög mikils gamansama túlkun Peter Sellers. Hann var meistari gamanleiksins eins og hann gerðist bestur.

Kvikmyndirnar um Bleika pardusinn eru sennilega helst tengd við Sellers í dag. Það er ekki furða, enda er það frábær gamanmyndapakki og ber mjög vel vitni snilldinni sem fólst í gamanleik Peter Sellers. Jacques Clouseau varð hans þekktasti karakter og heldur nafni hans helst á lofti. Það er ávallt yndislegt að horfa á þessar myndir. Algjörlega frábær gleðigjafi. Hef ég upplifað þá snilld vel og innilega eftir að ég keypti pakkann með myndunum öllum fyrir nokkrum árum. Um helgina horfði ég svo á annað meistaraverkið með honum, The Party - kvikmynd Blake Edwards. Það er að mínu mati ein besta gamanmynd kvikmyndasögunnar.

Fyrir utan þessar myndir er Dr. Strangelove hans besta stund í leiktúlkun. Þar er Sellers hreint ógleymanlegur í þremur hlutverkum - sem breskur yfirmaður í NATO, forseti Bandaríkjanna og síðast en ekki síst gamli nasistinn, sprengjusmiðurinn. Hlaut óskarsverðlaunatilnefningu fyrir og skal engan undra. Sellers er hjarta og sál þessarar yndislegu myndar. Vilji menn sjá tæra snilld er þetta myndin sem velja skal. Mjög mikil satíra en öflugur pakki. Sellers var þó ekki alltaf bara gamanleikarinn. Við blálok litríks leikferils túlkaði hann garðyrkjumanninn Chance í Being There og hlaut þar aðra óskarstilnefningu. Þar var húmorinn fjarri. Myndin er mörgum óskiljanleg en ég hef alltaf haldið mikið upp á hana.

Það sem mér fannst merkilegast við að sjá fyrrnefnt viðtal er að Peter Sellers lætur mjög vel að vera allt annað en Peter Sellers. Hann var nær aldrei í eigin karakter en lék mörg hlutverk í gegnum ferilinn. Það hefur oft verið sagt bæði í gamni sem alvöru að það hafi verið honum erfiðast að leika sjálfan sig. Sá karakter hafi aldrei verið opinber. Það er margt til í því. Þetta sést mjög vel í sjónvarpsmyndinni The Life and Death of Peter Sellers fyrir nokkrum árum þar sem einkalíf leikarans margflókna var nær alveg opnað upp á gátt. Myndin er að mörgu leyti gloppótt en mögnuð túlkun Geoffrey Rush á Sellers opnaði nýjar hliðar á karakternum sem gat túlkað fjölda persóna, allar aðrar en sjálfan sig.

Ég held að um margt muni sagan dæma helst Peter Sellers fyrir að vera leiksnillingurinn með fjöldamörgu andlitin en hafi í raun upplifað sinn helsta ósigur í hlutverki sjálfs sín. Ævi hans varð enginn dans á rauðum rósum. En það er oft sagt um helstu grínleikara sögunnar að þeir hafi verið leiðinlegastir í eigin karakter og þess vegna falið hann sem mest þeir máttu. Það gildir því miður einna best um Peter Sellers. En mikið innilega var gaman að finna þetta frábæra viðtal.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Einarsson

Peter Sellers var snillingur.

Sævar Einarsson, 23.7.2007 kl. 07:50

2 Smámynd: HAKMO

Hann var algert æði :)

HAKMO, 23.7.2007 kl. 08:17

3 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Peter Sellers er algjör snilld.

Er núna að orfa í 100 skipti á Bleika Pardus myndirnar og eru þær í einu orði sagt frábærar.  Party er síðan önnur mynd sem ég hef horft á svipað oft "Birdy nammnamm"

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 23.7.2007 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband