Hilary Swank leggur góðum málstað lið

Hilary Swank Það hefði fáum órað fyrir því fyrir rúmum áratug þegar að Hilary Swank lék lítt áberandi aukahlutverk í Beverly Hills 90210 að hún ætti eftir að verða áhrifamikil og margverðlaunuð kvikmyndaleikkona í Hollywood, en það fór nú svo. Hún hafði unnið tvenn óskarsverðlaun fyrir leik í aðalhlutverki aðeins þrítug, á fimm ára tímabili, og lék þar með eftir afrek Jodie Foster sem tókst hið sama fyrir The Accused og The Silence of the Lambs á aðeins þriggja ára tímabili áður en hún varð þrítug.

Það er alveg ljóst að stjörnuleikur Hilary í Boys don´t Cry kom henni á kortið. Fram að því hafði hún verið meðhöndluð sem léleg eða lítt eftirsótt leikkona. Það verður seint sagt að Boys don´t Cry sé skemmtileg mynd en hún er fyrst og fremst gríðarlega vel gerð. Hilary náði með myndinni að stimpla sig inn í bransann og hlaut flest kvikmyndaverðlaun árið 2000 og sló meira að segja við Annette Bening fyrir túlkun sína í American Beauty, en flestir töldu hana örugga um að hljóta óskarinn og hún hafði fyrir því að mæta á hátíðina kasólétt en fór tómhent heim. Hilary hlaut verðlaunin.

Hilary Swank var líka mjög góð í kvikmyndinni Insomnia í hlutverki Ellie, hinnar skörpu lögreglukonu, og náði að setja jafnsterkan svip á myndina og Al Pacino og Robin Williams sem fóru þar á kostum. Það er mynd sem heillaði mig gjörsamlega þegar að ég sá hana fyrst og hún klikkar aldrei. Hún er enska útgáfan á hinni frábæru Insomnia, norskri mynd sem var gerð undir lok síðustu aldar. Hafi menn séð ensku myndina er mikilvægt að sjá þá norsku sem er gríðarlega vel gerð og engu síðri, jafnvel betri. En samleikur Williams og Pacino í ensku útgáfunni er magnaður, en mér hefur alltaf fundist Al Pacino frábær leikari, einn þeirra bestu.

Túlkun Hilary á Maggie Fitzgerald í Million Dollar Baby árið 2004 er að mínu mati algjör snilld. Hún fór þar alveg á kostum og tókst að vinna óskarinn aftur. Þá tókst henni að sigra Annette Bening öðru sinni, sem þá var tilnefnd fyrir Being Julia. Þó að hún sé gríðarlega góð í Million Dollar Baby stendur samt túlkun hennar í Boys Don´t Cry upp úr af ferli hennar. Það er auðvitað mikið afrek að hafa þrítug náð að vinna aðalleikaraverðlaun á Óskarnum tvisvar. Jodie Foster tókst það líka eins og fyrr segir fyrir sínar frábæru leiktúlkanir. Leikur Swank í þessum tveim myndum var svo sannarlega það góður að verðskulda verðlaun.

Hilary Swank hefur ekki bara upplifað gullna daga í lífinu. Það tók hana langan tíma að ná frægð og frama og henni var ekki fært neitt á silfurfati. Þetta framlag Swank til góðgerðarsamtaka krabbameinssjúkra sýnir vel úr hverju hún er gerð. Hún hefur áður lagt sitt af mörkum til góðs málstaðar og sýnir vel hug sinn til þeirra sem þurfa aðstoðar með. Það er gott að vita að í Hollywood er ekki bara fjarlægt fólk glamúrsins, heldur líka fólk sem hefur tilfinningar og leggur stjörnuljóma sinn af mörkum til að vekja athygli á málstað þeirra sem þurfa aðstoðar við.

mbl.is Swank lætur allt fjúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband