Þingmaður stjórnar spjallþætti í sumarafleysingum

682-200 Það er ekki oft sem ég hlusta á Útvarp Sögu en það kemur þó fyrir. Í dag stillti ég þar inn á síðdegisþátt, sem væri svosem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að stjórnandi þáttarins var Grétar Mar Jónsson, alþingismaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi. Hann virðist vera að leysa þar af í sumar. Verð ég að viðurkenna að ég kipptist aðeins við í að heyra í þingmanni stýra spjallþætti á útvarpsstöð í sumarafleysingum.

Þetta hafði einhvernveginn farið framhjá mér í gúrkutíðinni, en þetta vakti allavega athygli mína. Það er ekki mikið um það að þingmenn þurfi að taka sumarafleysingar meðfram þingstörfum, en það virðist greinilega allt geta gerst í þessum geira. Þetta er allavega merkileg flétta sem birtist með þessu vali á sumarafleysingamanni.

Það væri gaman að sjá umræðuna sem yrði ef að Ólöf Nordal og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, svo einhver nöfn nýrra þingmanna séu nefnd, myndu allt í einu verða sumarafleysingafólk á Morgunvaktinni á Rás 1, Síðdegisútvarpinu þar eða þættinum í bítið á Bylgjunni.

Það hefur lengi verið orðrómur um að Útvarp Saga sé sérleg málpípa Frjálslynda flokksins. Ekki deyja þær kjaftasögur með vali á sumarafleysingafólkinu þar, sérstaklega þeim sem situr vaktina í síðdegisspjallþættinum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Fordómar koma fram í ýmsum myndum , og þá alltaf frá sjálfstæðismönnum.
Grétar Mar þorir þó að taka símtöl fólks og ræða málin á obinberum vettvangi.

Halldór Sigurðsson, 23.7.2007 kl. 22:52

2 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Er þetta ekki bara misjafnlega áberandi? Stóð ekki Róbert Marshal upp úr fréttastjórastól á NFS og gekk beint inn á framboðslista hjá Samfó?

Kom ekki Ómar Ragnarsson út úr fréttastofu Sjónvarpsins og inn í formannstól Íslandshreyfingarinnar?

Hvað hafa margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins starfað sem blaðamenn og fjölmiðlamenn?

Var ekki Steingrímur J. hjá Rúv í denn?

og svo fr.

Vissulega sjaldgæfara að sjá þá fara hina leiðina, þ.e. af þingi og í loftið, en ekki stór munur á og jafnvel sanngjarnara í þessu tilfelli, það vita jú allir hvar hann stendur.

Júlíus Sigurþórsson, 23.7.2007 kl. 23:13

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta var bráðskemmtilegur þáttur hjá Grétari í dag. Hann talaði við Halldór Hermannsson og gamla skipstjórnann minn úr Grindavík, Ólaf R. Sigurðsson sem var lengi ein mesta aflakló landsins og hefur frá mörgu að segja. 

Sigurður Þórðarson, 23.7.2007 kl. 23:50

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Halldór: Þetta eru engir fordómar. Mér finnst það bara mjög skrítið að sitjandi þingmaður stýri þætti af þessu tagi. Það skiptir í sjálfu sér engu máli hvað sá þingmaður heitir. Það er bara þannig.

Júlíus: Grétar Mar er fínasti maður, þetta er ekki persónuleg árás á hann. Ég er að tjá þá skoðun mína að sitjandi þingmaður eigi ekki að vera í þessu hlutverki. Finnst það bara ekki viðeigandi. Það er eitthvað mjög bogið við að stjórnmálamaður í hita stjórnmálanna stýri svona þætti og það stimplar stöðina sem flokkspólitíska. Það er bara þannig, sama hversu vel viðkomandi þingmaður myndi standa sig. Ef þingmaður yrði þáttastjórnandi hjá RÚV yrði sú stofnun um leið ekki óháð.

Sigurður: Grétar Mar er hinn fínasti maður. Þetta er ekki árás á hann, heldur mitt mat á að þingmaður eigi ekki að vera í þessu hlutverki. Það er alltaf gaman af Halldóri. Hann er mjög skemmtilegur karakter, rétt eins og Sverrir bróðir hans.

Árni: Auðvitað er hann að gera þetta sjálfviljugur. Það er ekki málið. Það sem skiptir máli er heilt yfir hvort að þingmaður eigi að stjórna samfélagsþætti á stöð sem segist hlutlaus.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.7.2007 kl. 00:23

5 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Ég veit að þú varst ekki að ráðast á hann (frekar en að þú ráðist á aðra), það sem ég var að benda á að ekki nokkur sál, sem veit yfir höfuð að Grétar Mar sé þingmaður, heldur því fram að þáttur undir hans stjórn sé hlutlaus, ekki frekar en sjónvarpsþættir þar sem stjórmálamenn sitja einir í "drottningarviðtölum" eins og stundum sést.

Það er engin að segja heldur að áhrif hans nái inn í aðra þætti á stöðinni og ekkert sem segir að aðrir starfsmenn stöðvarinnar séu ekki að flytja hlutlausan málflutning.

Annars getur hundurinn Lúkas sagt þér allt um kjaftasögur...

Júlíus Sigurþórsson, 24.7.2007 kl. 00:46

6 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Ekkert að því að Grétar sé dagskrágerðarmaður líkt og flokksystir hans Ásgerður Jóna.  En um leið og Grétar (eða hvaða þingmaður sem er) fer í þetta hlutverk getur útvarpsstöðin ekki lengur kallað sig frjálsa, hlutlausa og óháða (eða hvernig sem þetta er nú orðað þarna á Sögu)

Hafrún Kristjánsdóttir, 24.7.2007 kl. 02:09

7 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stebbi mér finnst það litlu máli skipta svona almennt að hann sé þarna. Mér finnst samt merkilegra að hann telji sig ekkert þarfara að hafa að gera sem þingmaður að stjórna einhverjum spjallþætti á smástöð

Jón Ingi Cæsarsson, 24.7.2007 kl. 10:15

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Júlíus: Sú útvarpsstöð sem hefur þingmann sem þáttastjórnanda í samfélagsþætti er ekki hlutlaus. Mjög einfalt mál.

Hafrún: Tek undir þessi skrif, alveg sammála.

Ingi: Þetta snýst ekkert um hvort að Grétar Mar er skemmtilegur maður eða skemmtilegur útvarpsmaður jafnvel. Þetta er umræða um hvort að þingmaður eigi að stýra svona þætti. Mér finnst það ekki og finnst reyndar að stöð sem hefur þingmann í vinnu hjá sér sé ekki frjáls og óháð.

Jón Ingi: Nei kannski skiptir það ekki máli. En það vekur margar spurningar. Mér finnst það mjög undarlegt að þingmenn á fullum launum hjá mér og þér séu í sumarafleysingum á meðan og það á útvarpsstöð. Frekar kostulegt. En það hlýtur að felast í þessu að þingmennskan sé ekki fullt starf á sumrin.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.7.2007 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband