24.7.2007 | 20:55
Vísitasía ISG - tveir mánuðir frá stjórnarskiptum
Það eru tveir mánuðir í dag liðnir frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, varð utanríkisráðherra. Hún fór yfir ráðherraferil sinn og verkefnin í utanríkisráðuneytinu í Kastljósi í kvöld. Sitt sýnist hverjum um för Ingibjargar Sólrúnar til Mið-Austurlanda og hún hefur verið umdeild.
Vef-Þjóðviljinn hefur sannarlega haft gaman af að skrifa um ferð Ingibjargar Sólrúnar og sagði orðrétt af sinni stöku snilld í frábærum pistli í gær: "Jæja, þá er Ingibjörg Sólrún komin til Jórdaníu. Þaðan mun leið hennar svo liggja til Íslands þar sem hún mun dvelja í nokkra daga og eiga stuttar viðræður við ráðamenn áður en hún heldur að nýju af landi brott, brýnna erinda. Þetta verður fyrsta opinbera heimsókn Ingibjargar hingað til lands." Ferð Ingibjargar Sólrúnar hefur fyrst og fremst markast af kosningabaráttu fyrir sæti í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, gamalgrónu pólitísku gæluverkefni Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra.
Það hefur verið undarlegt að fylgjast með vinstri grænum reyna að finna höggstað á ferðinni í ljósi þess að Ingibjörg Sólrún hitti Mahmoud Abbas, forseta, og Salam Fayyad, forsætisráðherra. Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, hefur gert mikið veður út af því að ráðherrann hitti "aðeins" þessa tvo ráðamenn að hans sögn. Vildi hann að Ingibjörg Sólrún færi á fund fulltrúa Hamas-samtakanna. Eru það kostuleg ummæli í ljósi stöðunnar í Palestínu, þar sem borgarastyrjöld hefur geisað. Auðvitað er það hið eina í stöðunni fyrir ráðherrann að hitta réttkjörinn forseta sem fer með samningsumboð en blanda sér ekki í borgarastyrjöld í landinu.
Er undarlegt að VG gerist málpípur þess að íslenskir ráðherrar fari að funda með fulltrúum Hamas í ljósi stöðunnar, sem markast af harðvítugri valdabaráttu Hamas og Fatah um stjórn landsins. Ég tel að Ingibjörg Sólrún hafi gert hið eina í stöðunni. Hinsvegar er ljóst að margir fulltrúar VG eru fúlir yfir því að ráðherrann hafi hitt Tzipi Livni og Shimon Peres, en það var auðvitað eðlilegt, enda er hún utanríkisráðherra og hann forseti landsins og auk þess var Livni starfandi forsætisráðherra dagana sem Ingibjörg Sólrún var þar stödd. Ég tel að utanríkisráðherra Íslands hafi spilað þennan þátt mjög vel og hún hitti alla lykilmenn, sem eru í samningsaðstöðu.
Hinsvegar finnst mér hún ansi háleit hugmynd utanríkisráðherrans að Ísland leiki eitthvað stórt hlutverk í friðarviðræðum. Eitt er að bjóða landið sem fundarstað en annað er að vera partur af viðræðunum með Íslending sem sáttasemjara. Tel það óraunhæft og að í raun að við höfum ekki þá lykilstöðu í alþjóðastjórnmálum til að leiða slíkar viðræður. Það er eitt að viðra slíkar hugmyndir en annað að koma með það sem valkost. Enda er raunveruleikinn sem við lifum í allt annar en gengur og gerist á þessu svæði og þungi okkar í pólitísku tilveru heimsins ekki mikill, satt að segja agnarsmár. Það er hið augljósa staða málsins.
Það sem helst mæddi á ráðherranum í viðtalinu var að svara fyrir umræðu um ráðningar inn í ráðuneytið. Þar hafa tvær konur verið ráðnar; önnur sem stjórnsýsluráðgjafi (Helgi mundi ekki starfsheitið í viðtalinu merkilegt nokk) og hin (fyrrum pólitískur aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar á borgarstjórastóli og trúnaðarvinkona hennar) sem umsjónarmaður með framboði í öryggisráðið í fæðingarorlofi Sigríðar Á. Snævarr. Ráðgjafastaðan er ný, eftir því sem best er vitað. Það hefur líka reynst vandræðalegt fyrir Samfylkinguna að fylgja í fótspor annarra flokka með flokkspólitískum bitlingaskipunum (sem fulltrúar hans nefndu svo áður), t.d. í stjórn flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Ríkisstjórnin fer vel af stað að mínu mati. Staða hennar er sterk, flokkarnir fengu mjög öflugan þingmeirihluta og stjórnin mælist með metstuðning í skoðanakönnunum eftir þingkosningarnar fyrir rúmum tveim mánuðum. Það er því öllum ljóst að ekkert hættuástand er yfir stjórnmálunum hér heima. Hinsvegar hefur skoðanamunur ráðherra og þingmanna komið mun betur fram en var í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í tólf ár. Það helgast af hinum rúma meirihluta. Lánleysi stjórnarandstöðunnar virðist um leið algjört og mikið ráðleysi vofir þar yfir. Enda ekki öfundsvert að takast á við svo öfluga ríkisstjórn.
Ingibjörg Sólrún er að stíga sín fyrstu skref á ráðherrastóli. Hún á að baki langan stjórnmálaferil og hefur að mati flestra fúnkerað best í valdastöðu. Það hafa verið skiptar skoðanir um gengi hennar fram að þessu og fróðlegt að sjá hvernig að henni muni ganga á næstunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:03 | Facebook
Athugasemdir
Eins og alltaf er hægt að ganga að því vísu að þú skrifir málefnalega pistla um pólitíkina, allavega er ég alltaf vel með á nótunum ef ég les þín skrif. Takk fyrir og kær kveðja norður.
Ásdís Sigurðardóttir, 24.7.2007 kl. 22:05
Takk kærlega fyrir góð orð Ásdís mín. Met þau mjög mikils. Gott að vita að þú sért ánægð með vefinn.
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 24.7.2007 kl. 22:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.