25.7.2007 | 11:28
Einars Odds minnst
Minningarathöfn um Einar Odd Kristjánsson, alþingismann Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, fer fram í Hallgrímskirkju eftir hádegið. Hans hefur verið minnst víða frá því er hann varð bráðkvaddur á Kaldbak fyrir tíu dögum. Það er skarð fyrir skildi innan Sjálfstæðisflokksins vegna fráfalls hans, enda var hann einn áhrifamesti þingmaður flokksins, var áberandi í þjóðmálaumræðunni og hikaði aldrei við að tjá skoðanir sínar, þó þær fylgdu ekki alltaf hinni gamalgrónu flokkslínu í einu og öllu.
Einar Oddur var mjög líflegur stjórnmálamaður og var áberandi í sínum verkum fyrir kjósendur sína, sem og landsmenn alla, til hinstu stundar. Það er dapurlegt að hann sé horfinn af hinu pólitíska sviði, með svo snöggum hætti, allt of snöggum, enda voru mörg verk enn óunninn. Einar Oddur var lykilmaður í mörgum málaflokkum og einn ötulasti talsmaður flokksins á þeim vettvangi. Hans verður sárt saknað.
Alla tíð var hann hrókur alls fagnaðar. Hann lá aldrei á skoðunum sínum og tjáði sig óhikað um málefnin sem voru í deiglunni. Það var hans stíll, það var hans karakter. Það getur enginn komið í staðinn fyrir Einar Odd Kristjánsson. Hann var að mínu mati sá þingmaður flokksins á seinni árum, að Halldóri Blöndal og Davíð Oddssyni undanskildum, sem var mesti og líflegasti karakterinn. Einar Oddur var þannig stjórnmálamaður að flokksmenn vildu allt af mörkum vinna til að tryggja sess hans. Hann var stjórnmálamaður af því tagi sem allir vildu allt fyrir gera. Hann hreif fólk með sér, talaði kjarnyrt mál sem náði til fólksins.
Þetta sást best í síðustu tveim alþingiskosningum er hann var ávallt í baráttusæti og hafði sigur, jafnvel eftir þrengingar eins og urðu innan flokksins þar í aðdraganda kosninganna vorið 2003. Þrátt fyrir að hann væri að mörgu leyti í enn verri stöðu í kosningunum í vor en áður, í ljósi þess að þingsæti hans sem níunda þingmanns Norðvesturkjördæmis var fært til Suðvesturkjördæmis, var hann nær öruggur um endurkjör. Einar Oddur talaði þannig alla kosningabaráttuna. Það fór enda svo. Kjör hans var tryggt og hann sat áfram á meðan að annar flokkur fann fyrir fækkun þingsæta. Fólk vildi tryggja stöðu Einars Odds. Hann var þeirra maður.
Það er mjög eftirminnilegt hversu öflugur Einar Oddur Kristjánsson var í tjáningu um mál sem lágu fyrir þinginu. Einar Oddur var sannur Vestfirðingur í framgöngu og tali. Hann hafði mjög sterka nærveru sem stjórnmálamaður. Hann var umfram allt skynsamur stjórnmálamaður, sem hafði sannar hugsjónir fram að færa, hvikaði aldrei frá þeim og var ötull málsvari skynseminnar á svo innilega mörgum sviðum. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að heyra hann tala um ríkisfjármál og stöðuna á vettvangi sjávarútvegs og málefni landsbyggðarinnar. Hann var sannur talsmaður landsbyggðarinnar, vann heill hennar sem mestan og var ötull talsmaður okkar hér.
Það er kaldhæðnislegt að síðasta þingræða Einars Odds Kristjánssonar hafi fjallað um andstöðu hans við tillögur frá ríkisstjórninni. Þar var hann, sem svo mörgum sinnum áður, rödd skynseminnar, hinnar einu sönnu. Hann leiftraði þá, sem ávallt áður, af mælsku og krafti. Það hvarflaði að engum á þeirri stund að þar væri svanasöngur hins öfluga Flateyrings í umræðum í þingsölum. Ég hef áður hér vikið að því þegar að hann tjáði sig óhikað og afgerandi um öryggisráðsumsóknina. Þá talaði hann af krafti, ekkert hik var að finna. Það var boðskapur sem ómaði skoðanir mjög margra innan Sjálfstæðisflokksins.
Ég viðurkenni fúslega að mér þótti innilega vænt um Einar Odd. Ég held að allir sem hafa kynnst honum hafi hugsað til hans með hlýju. Hann var þeirrar gerðar að hann var sannur lífskúnstner sem talaði mál fólksins, náði til þess og heillaði með framgöngu sinni. Það má vel vera að einhverjir hafi orðið ósammála honum á langri vegferð stjórnmálanna en það gleymdist allt þegar að rökræðum lauk. Hann átti streng í brjósti svo margra.
Það er mikill héraðsbrestur við fráfall Einars Odds Kristjánssonar. Hann var sá þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafði mest áhrif, utan ráðherranna, jafnvel oft á tíðum þó meiri áhrif en þeir, enda talaði hann óhikað og óþvingað þegar að hann tók til máls. Hann var vinsæll valkostur í umræðuþætti um stjórnmál. Þar naut hann sín að mínu mati best. Hann var fimur og snjall rökræðumaður, sagði sitt en svaraði með öflugum rökum og sterku tali.
Hans verður sárlega minnst við ótímabært fráfall sitt. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum mikið misst með Einari Oddi. Það kemur enginn í stað hans. Það er bara þannig. Það er svo sannarlega skarð fyrir skildi í liðsheild okkar. Einar Oddur er kvaddur með miklum söknuði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.6.2008 kl. 15:25 | Facebook
Athugasemdir
Ég sakna hans mjög, þar fór gegnheilt íhald af betsu gerð.
Vildi halda í það sem hald væri í og hikaði ekkert við, að segja mönnum innan Flokksins til syndanna.
Það er leitun að hans jafningja, hanns skarð verður seint fyllt, við lútum höfði í þökk fyrir framgöngu hanns og þeirri fyrirmynd, sem hann gaf mönnum, að vera ætíð sannur, segja alltaf satt, þó svo það væri ekki beint til stndarvinsælda fallið. Erfa ekkert við andstæðinga sína en sýna þeim sömu ljúfmennskuna og okkur hinum, samherjum hans.
Einari tokst að rækta ótrúlega margt gott í fari þeirra sem umgengust hann og svo kom það ekki heldur neitt á óvart, að hann var slyngur og ötull ræktunarmaður á groður, bæði tré og nytjaplöntur sem og skrautgróður. Um hann mætti segja, að allt gott lék í hendi hans.
Við vorum vinir og félagar, ekki bara í Flokknum, heldur annarstaðar líka. Allstaðar sem hann kom, setti hann sitt mark á samkomuna og skreytti hana með miklum sjarma og óvenjulega góðri nærveru.
Honum verður ríkulega launað
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 25.7.2007 kl. 12:02
Takk fyrir góð orð um Einar Odd, Bjarni. Það er mikill sjónarsviptir af honum. Það er enginn sem ég kem auga á í þessum þingflokki sem getur fyllt upp í skarðið hans Einars. Hann var einn af þeim sem kallast ómissandi. Það er sérstaklega sorglegt hversu snögglega ævi hans lauk. Það er skarð fyrir skildi.
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 25.7.2007 kl. 19:14
Minning um góðan dreng lifir.
Ásdís Sigurðardóttir, 25.7.2007 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.