Brad og Gwyneth sameinast á ný

Brad Pitt og Gwyneth PaltrowSú var tíðin að Brad Pitt og Gwyneth Paltrow voru heitasta parið í Hollywood og voru saman skothelt tvíeyki í sviðsljósinu. Síðan eru liðin mörg ár; bæði hafa gifst og átt börn, Gwyneth unnið óskarinn og bæði leikið í fjölda áhugaverðra kvikmynda. Hápunkti sambandsins var náð þegar að þau léku saman í hinni frábæru mynd leikstjórans David Fincher, Se7en, árið 1995 ásamt Morgan Freeman og Kevin Spacey. Þar voru þau par og sýndu flotta takta. Hið svipmikla lokaatriði myndarinnar er eftirminnilegt, en þar var Gwyneth miðpunktur, þó án þess að sjást.

Nú ætla Gwyneth og Brad að eiga sér endurkomu. Þau ætla þó ekki að skilja við Chris Martin og Angelinu Jolie og taka saman á ný, heldur munu þau birtast aftur saman á hvíta tjaldinu. Það er að verða áratugur síðan að þau hættu saman. Það voru sambandsslit í kastljósi fjölmiðla um allan heim, sambandsslit sem vöktu mikla athygli. Þau hafa verið í miðpunkti umfjöllunar allan þann tíma og verið mjög áberandi í kvikmyndaheiminum en ekki verið sýnileg saman. Nú mun kvikmyndin Dirty Tricks, sem er í vinnslu, marka endurkomu þeirra saman. Það verður athyglisvert comeback fyrir einhverja að upplifa þau saman á hvíta tjaldinu.

Ég hef aldrei verið mjög hrifinn af Gwyneth Paltrow sem leikkonu. Hún hefur þó átt sínar björtu stundir á hvíta tjaldinu. Það eru orðin átta ár síðan að hún vann óskarinn fyrir Shakespeare in Love. Hún vakti athygli á sviðinu er hún tók við verðlaununum úr hendi Jack Nicholson fyrir að gráta sáran í bleika kjólnum sínum. Þakkarræða hennar er ein sú eftirminnilegasta í sögu kvikmyndaakademíunnar. Sjálf hefur Gwyneth viðurkennt síðar að það hafi ekki verið sín bjartasta stund. Flestir hafa talið hana ofmetna og sjálf viðurkenndi Gwyneth að hún hefði sótt í smiðju Grace Kelly með lúkkinu þetta eftirminnilega kvöld á ferli sínum.

Brad Pitt hefur átt góða spretti á hvíta tjaldinu undanfarin ár og ekki verið eins klökkur yfir björtu stundunum eins og Gwyneth. Hann var frábær í Babel, fyrir nokkrum mánuðum, og það var eiginlega til skammar að hann skyldi ekki fá óskarsverðlaunatilnefningu fyrir túlkun sína á Richard. Auk þess hefur hann átt gullnar stundir í Fight Club, Spy Game, Ocean´s Eleven og Twelve. Ennfremur má ekki gleyma Mr. and Mrs. Smith, sem kannski er ekki bjartasta stund hans og Angelinu Jolie, en hennar verður þó alla tíð minnst fyrir að vera myndin sem færði þau saman.

En það verður fróðlegt að sjá Dirty Tricks, myndina sem færir þetta forna gullpar Hollywood á tíunda áratugnum aftur saman. Ég ætla þó að vona að Gwyneth fái ekki eins grimmileg örlög þar og í Se7en.


PS: Eitt fyndnasta móment á ferli Gwyneth fannst mér annars þegar að hún afhenti Kevin Spacey óskarinn fyrir American Beauty árið 2000. Allir sem séð hafa Se7en og vita um tengslin á milli karakteranna þeirra þar sjá húmorinn í því.


mbl.is Brad Pitt og Gwyneth Paltrow hneyksla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband