Fiskisúpustemmning í vinakeðju á Dalvík

Frá fiskidegi Ég var að koma heim frá Dalvík, en þar var mikil stemmning á fiskisúpukvöldi. Hafði áður ætlað mér að gista þar eins og í fyrra á fiskidagshelginni þá, en ýmislegt hefur gert það að verkum að svo verður ekki að þessu sinni. En ég mun að sjálfsögðu fara úteftir eftir hádegið á morgun og líta þá á hátíðarhöldin og fá mér grillaðan fisk og fiskborgara með öllu því góða meðlæti sem til staðar er.

Það var gaman að fara úteftir aðeins í kvöld þó að stutt hafi stoppið svosem verið. Það er virkilega notalegt að sjá hversu vel heimamönnum hefur tekist að byggja þennan dag upp með öllu því sem til þarf. Stemmningin er miklu meiri en fyrir ári og hátíðin heldur sífellt áfram að vaxa undir forystu Júlla Júll. Þar hefur verið unnið af krafti árum saman og öllum ljóst að hátíðin er rós í hnappagat bæjarbúa útfrá. Held að fáum sem störtuðu þessum hátíðarhöldum fyrir sex árum hafi í raun órað fyrir því að svo vel myndi ganga sem raun ber vitni.

Vináttukeðja var mynduð á Dalvík í kvöld og þar tók mikill fjöldi þátt. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrurm forseti, og Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, fluttu ræður í kirkjunni fyrir athöfnina við vinastundina úti. Það var ánægjulegt að sjá þennan merkilega atburð. Fyrr í dag var fyrsta skóflustungan tekin að menningarhúsi Dalvíkinga við Ráðhúsið. Eins og flestir vita ákvað Sparisjóður Svarfdæla að færa íbúum Dalvíkurbyggðar menningarhúsið að gjöf í febrúar. Við þá athöfn flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, ávarp. Missti ég af þeirri athöfn en það hefur væntanlega verið gleðileg stund.

Þetta var skemmtileg kvöldstund á Dalvík. Fiskidagurinn mikli hefur gert mikið fyrir Dalvík. Þetta er auðvitað öflug bæjarhátíð. Þar er allur matur og öll skemmtun að mestu ókeypis. Sannkölluð gleðistund. Það geta mörg sveitarfélög lært mikið af því sem Dalvíkingar hafa gert til góðs með þessari hátíð, sem er sannkallaður yndisauki í mannlífið hér í firðinum á hverju ári. Þar eru allir velkomnir og engin hlægileg aldurstakmörk. Þar gleðjast allar kynslóðir saman.

mbl.is Vináttukeðja og friðardúfur á Dalvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Samkvæmt fréttum á mbl rétt áðan þá hefur enginn ökumaður verið drukkinn né dópaður og enginn ekið of hratt. Þarna eru allir glaðir og undir áhrifum fiskusúpu magnaðrar.

Ragnheiður , 11.8.2007 kl. 00:31

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Verð með hugann á Dalvík í dag. Sólarkveðja norður og vona að veðrið sé frábært eins og áður á þessum degi.

Ásdís Sigurðardóttir, 11.8.2007 kl. 10:17

3 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Ég botna ekki alveg í þessari hátíð. Eru 10-20 þúsund manns að hrúgast til Dalvíkur til þess eins að ráfa á milli húsa og borða fiskisúpu? Ég var alltaf að bíða eftir að það yrðu einhver skemmtiatriði auglýst en það virðist ekki vera neitt svoleiðis, eða hvað?

Margrét Birna Auðunsdóttir, 12.8.2007 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband