Mun Gordon Brown flýta kosningum í Bretlandi?

Gordon Brown50 dagar eru liðnir frá því að Gordon Brown tók við völdum í Bretlandi eftir þrettán ára langa og napra bið. Deilt hafði verið um það lengi innan Verkamannaflokksins áður en að valdaskiptum kom hvernig forsætisráðherra hann myndi verða og hvort hann gæti notið lýðhylli, hvort að hann hefði einfaldlega ekki beðið of lengi eftir húsbóndavaldi í Downingstræti 10. Þegar að hveitibrauðsdagar Skotans eru hálfnaðir deilir enginn um hversu sterk staða hans er.

Verkamannaflokkurinn hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga við völdin eftir erfiða tíma undir lok forsætisráðherraferils Tony Blair, sem var orðinn verulega skaddaður síðustu misserin og allt að því hataður innan flokks sem utan vegna fjölda mála. Nýr forsætisráðherra hefur tryggt flokknum raunhæfa möguleika á að halda völdum í næstu þingkosningum og slá Íhaldsflokkinn fjórða skiptið í röð út af laginu. Það er nú rætt um það hvort kosningum verði hreinlega flýtt og Brown muni reyna að fá afgerandi umboð í eigin nafni. Staðan er allavega vænleg fyrir Gordon Brown.

Meira að segja heimsókn Browns til George W. Bush í Camp David í kastljósi heimspressunnar hefur engu breytt um persónulegar vinsældir hans heima fyrir. Breskir stjórnmálaskýrendur höfðu dregið í efa að heimsókn af þessu tagi svo snemma á hveitibrauðsdögunum væri skynsamleg og margir töldu ferðina feigðarflan fyrir mann sem væri á gullnu brautinni. Með ferðinni staðfesti Brown sterk bönd við Bandaríkjastjórn og gaf gagnrýnendum langt nef með því að vera kammó og hress við Bush forseta. Ferðin reyndist ekki feigðarflanið sem spáð var. Forsætisráðherrann þýtur enn upp vinsældalistann og mælist vinsælli sem aldrei fyrr í könnunum helgarinnar.

En hlutirnir geta verið fljótir að breytast. Það hefur David Cameron sannreynt að undanförnu. Margir töldu kosningasigur í sjónmáli fyrir hann og íhaldsmenn eftir tíu ára napra pólitíska eyðimerkurgöngu Íhaldsflokksins. Munurinn á flokkunum fór mest í um tíu prósentustig. Nú hefur þetta snúist við. Verkamannaflokkurinn hefur samkvæmt YouGov-könnun dagsins tíu prósent umfram íhaldsmenn. Örvænting er í innstu herbúðum Camerons og hann hefur höktað til að undanförnu, er að reyna að finna rétta taktinn. Fyrir hann er upp á allt að spila í næstu kosningum. Tap þýðir að enn verður leitað að nýjum leiðtoga. Það blasir við.

Gordon Brown hefur alla tíð verið úthugsandi pólitískur klækjarefur. Það sást best í valdaátökum hans við Tony Blair bakvið tjöldin árum saman. Hann vann þann slag á sálfræðinni og tók helstu andstæðingana á taugum. Svo fór að hann fékk pólitískt ríkidæmi Tony Blair á silfurfati. Helstu Blair-istarnir lögðu niður skottið og sættu sig við orðinn hlut. Pólitísk velgengni hans frá valdaskiptunum þann 27. júní sl. hefur reynst mun meira afgerandi en jafnvel helstu samherjar Skotans þorðu að vona. Sigur er í nánd ef hann spilar taflið rétt. Það segja kannanir.

En pólitísk gæfa getur verið fallvölt. Það sem snýr upp í dag getur fallið niður á morgun. Það eru því spennandi tímar pólitískt í Bretlandi. Um þrjú ár eru eftir af kjörtímabilinu en við öllum blasir að það styttist mjög í kosningar haldi hveitibrauðsmælingar forsætisráðherrans áfram með þessum hætti. Pólitískur klækjarefur sem hefur tök á stöðunni veit að hann hefur allt í hendi sér í svona andrúmslofti. En nú reynir á Brown, sem hefur tekist að verða mun öflugri og vinsælli en mörgum óraði fyrir. Sögulegir sigrar gætu verið framundan spili hann rétt.


mbl.is Bretland: Verkamannaflokkurinn með gott forskot á Íhaldsflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband