Simon Cowell slekkur á stjörnuglampa ungstirnis

Simon CowellAllt frá því að ég sá fyrst American Idol fyrir eitthvað um fimm árum síðan hef ég átt erfitt með að þola Simon Cowell. Skapköst hans hafa verið umtöluð og annaðhvort dýrkar fólk karakterinn eða gjörsamlega hatar hann út af lífinu, held ég. Hef oft spáð í hvernig að meðdómurum hans, Paulu Abdul og Randy Jackson, gangi að umbera hann. Simon er talin ein helsta stjarna þáttanna og fær fúlgur fjár fyrir dómarastörfin þar og í öðrum útgáfum ýmissa söngkeppna.

Fyrir nokkrum vikum bræddi hin sex ára Connie Talbot hug og hjörtu sjónvarpsáhorfenda í Bretlandi og víðar um heim þegar að hún söng undurljúft hið gamalkunna úrvalslag Somewhere Over the Rainbow, sem Judy Garland gerði ódauðlegt í hinni einstöku The Wizard of Oz, fyrir um sjötíu árum og hlaut óskarinn sem besta kvikmyndalagið á óskarsverðlaunahátíðinni árið 1940. Lagið varð lykillag á litríkum ferli Judy og markaði feril hennar. Connie sló í gegn með laginu en tókst þó ekki að vinna Britain´s Got Talent og tapaði fyrir Paul Potts sem söng Nessun Dorma með bravúr.

Nú hefur Simon eftir því sem fréttir herma svikið ungstirnið um stjörnuframann sem hann hafði lofað henni. Þetta er frétt sem víða hefur farið um helgina og í dag. Þessi frétt getur varla talist til frægðarauka fyrir Bretann skapmikla. Þó svo að Connie hafi ekki tekist að vinna keppnina stóð hún að mörgu leyti upp sem sigurvegari, ekki síður en Paul Potts og heillaði fólk með frammistöðu sinni. Þessi frétt um að Simon hafi slökkt á glampanum sem hann lofaði stelpunni er með hreinum ólíkindum að flestra mati. Eins og fram kemur í fréttinni eiga foreldrar stelpunnar eftir að segja henni stöðu mála. Varla verður það auðvelt.

Það verður fróðlegt að sjá hversu lengi American Idol og þessir helstu þættir sem þeim fylgja munu halda áfram frægðargöngu sinni. Hér heima vorum við með Idol um skeið á Stöð 2 en í fyrra voru X-Factor þættirnir settir á í staðinn. Þeir verða ekki í vetur í því formi sem var á síðasta ári og mér skilst að ekki verði söngkeppni með sama brag hér heima lengur, þ.e.a.s. að farið verði um landið og nýjir talentar uppgötvaðir. Formúlan virðist ganga betur úti, enn sem komið er.

Vil annars minna á að Over the Rainbow, í flutningi Judy Garland, og Nessun Dorma, í flutningi tenóranna þriggja; Domingo, Carreras og Pavarotti, eru hér í tónlistarspilaranum.


mbl.is Simon Cowell sveik sex ára gamla stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Ég sá keppnina og mér finnst út í hött að svo ungt barn sé að taka þátt í svo strangri keppni sem þessi er.  Að sjá litlu stúlkuna standa eina og óstudda á sviðinu þegar hún beið eftir ummælum dómaranna lét mig fá sting í hjartað. Þetta var bara ekki í lagi.

Halla Rut , 13.8.2007 kl. 22:19

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, kannski er það feigðarflan fyrir svo ungt barn að halda í svona þungan öldudal. En foreldrarnir greinilega voru lykilaðilar í þessu show-i og stelpan virtist njóta alls í botn. En glamúrinn er aldrei heill í gegn. Það er löngu sannað.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.8.2007 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband