Karl Rove kveður pólitíska tilveru George W. Bush

George W. Bush og Karl Rove Brotthvarf Karl Rove úr lykilstarfsliði George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, sem tilkynnt var um í dag eru stórtíðindi í bandarískum stjórnmálum. Rove hefur verið lykilmaður í starfsliði forsetans í áraraðir og er einn helsti hugsuðurinn á bakvið pólitískt veldi hans, bæði í Washington og áður í Austin. Hann hélt um alla þræði í báðum forsetakosningunum sem Bush sigraði og var óvæginn og afgerandi alla tíð í verkum fyrir forsetann, var hinn sanni spunameistari sem sjaldan klikkaði á mikilvægum stundum.

Þau tíðindi að Rove yfirgefi sviðið nú koma varla svosem að óvörum. Pólitískum ferli Bush forseta er að ljúka. Það styttist óðum í vaktaskipti í Hvíta húsinu. Það var komið að leiðarlokum í samstarfi þeirra hvernig sem var. Það er innan við eitt og hálft ár þar til að Bush heldur alfarinn til Crawford og fer að njóta sveitasælunnar á eftirlaunum. Það eru engar kosningar framundan og lykilverkefnum á stjórnmálaferli George W. Bush er lokið, eða í það minnsta styttist í endalokin. Bush var framan af forsetaferlinum sigursæll forseti. Hann tók við völdum með mjög naumu umboði, hafði þingið með sér lengi vel, vann eftirminnilega þingsigra árið 2002 og 2004 og hlaut endurkjör í Hvíta húsinu með nokkuð afgerandi hætti árið 2004.

Það hefur syrt í álinn fyrir þá fóstbræður Bush og Rove að undanförnu. Forsetinn hefur upplifað sögulegar fylgislægðir að undanförnu. Segja má að erfitt hafi verið fyrir hann síðasta árið, og væntanlega náðu vandræðin hámarki í nóvember 2006 þegar að repúblikanar töpuðu báðum þingdeildum. Síðan hefur valdabarátta þingdemókrata og forsetans verið háð á opinberum vettvangi og er sennilega rétt að hefjast. Hún mun standa allt þar til að yfir lýkur hjá Bush og hann yfirgefur Washington við lok forsetaferilsins í janúar 2009. Það stefnir í breytta tíma hjá repúblikönum. Ekki er víst hver hreppir hnossið um að berjast af hálfu flokksins um Hvíta húsið en breytingar verða með einum hætti eða öðrum. Það blasir við öllum.

Hlutverki Karls Rove í lykilstöðu er lokið. Hann hefur verið forsetanum mikilvægasti maðurinn á langri vegferð valdanna. Rove spilaði lykilrullu í sigri forsetans á Ann Richards í ríkisstjórakosningunum í Texas í nóvember 1994, þar sem hann lagði járnkonuna miklu sem flestir töldu að væri ósigrandi. Rove byggði upp kosningabaráttuna og lagði meginlínurnar í átökunum við Richards. Sigur vannst og forsetasonurinn, sem fram að því hafði verið talinn nokkuð misheppnaður eftir ýmislegt gloppótt og misheppnaðan stjórnmálaferil fram að því komst á pólitíska landakortið í Bandaríkjunum. Hann varð fyrsti ríkisstjórinn í sögu Texas til að vinna endurkjör til fjögurra ára árið 1998, enn og aftur með fulltyngi Rove, sem var lykilmaður í þeim afgerandi sigri (hlaut 70%) sem þá náðist.

George W. Bush ákvað að feta í fótspor föður síns árið 1999 og gaf kost á sér til embættis forseta Bandaríkjanna þegar að litríkum forsetaferli Bill Clinton var að ljúka. Hann náði útnefningu repúblikana eftir harðan slag framan af við John McCain, sem tókst að vinna í New Hampshire. Kosningabaráttu Bush var stýrt, sem fyrr, af lykilráðgjöfum hans í gegnum ríkisstjóraferilinn í Texas: þeim Karl Rove, Karen Hughes og John Allbaugh. Rove var allt í öllu sem fyrr og markaði grunnlínur kosningaslagsins og beitti öllum brögðum eins og ávallt áður í að tryggja vænlega stöðu Bush. Kosningaslagurinn við Al Gore varð gríðarlega harður og náði nýjum hæðum í kvikindislegum skotum milli herbúða aðalkandidatanna.

Strax varð ljóst að kvöldi kjördags að naumt yrði á munum og vakti öll heimsbyggðin alla kosninganóttina eftir að landið skýrðist í baráttunni. Það varð vandræðalegt áfall fyrir allar lykilsjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna er þær breyttu spá sinni í Flórída-fylki um miðja kosningavökuna. Þar hafði Al Gore áður verið spáð sigri og var Bush spáð sigrinum eftir miklar sviptingar. Að lokum fór það svo að Flórída réði úrslitum í kosningunum - sigurvegari fylkisins varð forseti. Undir morgun lýstu sjónvarpsstöðvarnar yfir naumum sigri Bush er Flórída varð hans. Gore ákvað að véfengja þau úrslit er ljóst varð að innan við 1000 atkvæði skildu þá að. Fór hann fyrir dómstóla með mál sitt.

Eftir lagaströggl og deilur í tæpa 40 daga viðurkenndi Gore loks ósigur sinn þann 13. desember 2000 eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafði fellt þann úrskurð sinn að Bush hefði unnið Flórída og ekki yrði um frekari endurtalningar að ræða. Dómurinn var þó ekki einróma í því mati og skiptist eftir frægum sögulegum fylkingum í forsetatíð William H. Rehnquist í réttinum árin 1986-2005, það tímabil sem hann leiddi réttinn. Bush sagði af sér ríkisstjóraembættinu í Texas síðla desembermánaðar 2000 og tók Rick Perry, vararíkisstjóri, við embættinu. Bush sór embættiseið sinn þann 20. janúar 2001. Með því urðu Bush-feðgarnir aðrir feðgarnir í sögu landsins til að gegna forsetaembættinu en John Adams og John Quincy Adams voru þeir fyrri.

Karl Rove fylgdi George W. Bush til Washington. Hann hreiðraði um sig í Hvíta húsinu og varð lykilmaður alls sem gerðist hjá forsetanum. Hann hélt á öllum lykiltaugum kosningabaráttunnar 2004 þar sem Bush barðist fyrir endurkjöri. Svo fór að Bush náði sigri eftir erfiða stöðu um skeið og lagði John Kerry, þrátt fyrir að Michael Moore framleiddi heimsfræga mynd til höfuðs forsetanum á kosningaári. Sögusagnir herma að sá sem hafi brosað breiðast þegar að Kerry viðurkenndi tapið í Ohio og þarmeð í kosningunum hafi verið Rove, sem hefði sagt eftir símtal Kerrys við Bush: "Well then it´s four years to go George" með bros á vör.

Síðustu árin hafa verið mörkuð af hneykslismálum og erfiðleikum. Rove flæktist í frægt hneykslismál þar sem honum var gert að sök að hafa gerst brotlegur við lög vegna uppljóstrana um starfsmann leyniþjónustunnar, CIA. Svo fór að hann var ekki ákærður en hann skaddaðist mjög í stöðu sinni við svo búið. Þau vandræði komu ofan á önnur sem þyngdu stöðu forsetans, t.d. er Harriet Ellan Miers, valkostur Bush sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, náði ekki stuðningi þingrepúblikana til setu í réttinum og strandaði í því markmiði sínu að verða þriðja konan á dómarastóli í Hæstarétti.

Forsetaferill George W. Bush hefur verið stormasamur, einkennst bæði af miklum hæðum og lægðum á langri vegferð. Í gegnum öll verkefnin og alla sigrana á langri leið hefur Karl Rove verið lykilmaður og leitt allt starf hans, smátt sem stórt. Hann hefur verið nefndur maðurinn sem gerði George W. Bush að forseta og fræg bók James Moore og Wayne Slater nefndi hann Bush´s Brain. Nú kveður Karl Rove pólitíska tilveru forsetans eftir langt verk. Það styttist í pólitísk endalok Bush en áður en að því kemur yfirgefur sjálfur handritshöfundur allra sigra Bush og helstu verka hans skipið.

Það styttist nú mjög í sögulok í handritinu. Rove hefur yfirgefið sviðið og einn valdamesti maður heims þarf að halda áfram án fixersins, sem heldur nú aftur heim til Texas nokkru á undan húsbónda sínum. Stóra spurning dagsins er: hvernig mun Bush ganga að feta síðustu metrana úr embættinu og heim í heiðardalinn í Texas? Það verður giska fróðlegt að sjá tel ég.

Tengdir pistlar SFS
George W. Bush sextugur (6. júlí 2006)

mbl.is Rove kvaddi Bush með stolt í hjarta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Snildar grein/þakka greinargóða sögu eins lakasta Forseta Bandrikjana að minu mati/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 14.8.2007 kl. 00:01

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir góð orð Halli um greinina.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.8.2007 kl. 00:18

3 Smámynd: Jón Agnar Ólason

George W. var fyrsti forsetinn í sögu USA til að notast eingöngu við utanáliggjandi heila. Sá heitir Karl Rove. Þar eð limirnir dansa eftir höfðinu er ekki gott að segja hvað blessaður bjáninn hann Bush gerir núna. Kannski fer hann aftur til TX að grilla sakamenn - honum leiddist aldeilis ekki sú iðja þegar hann var ríkisstjóri í þeim miðaldarassi.

Jón Agnar Ólason, 14.8.2007 kl. 00:20

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, Bush væri laglega glataður hefði Karl Rove ekki spunnið klæði valdanna utan á hann. Það er algjörlega morgunljóst.

Vil þakka þér annars góðar kveðjur til mín í gestabókina um daginn Jón Agnar. Met þær mjög mikils.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.8.2007 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband