19.8.2007 | 19:35
Stormasamt ár að baki hjá Framsóknarflokknum
Ár er í dag liðið frá því að Halldór Ásgrímsson lét af formennsku í Framsóknarflokknum og yfirgaf hið pólitíska svið eftir litríkan feril sem í raun lauk með sögulegri afsögn af forsætisráðherrastóli á dramatískum blaðamannafundi á Þingvöllum nokkrum vikum áður. Óhætt er að segja að þetta hafi verið stormasamt ár hjá Framsóknarflokknum, enda hafa þrír formenn leitt starf flokksins á þessum tíma.
Framsóknarflokkurinn hefur í áratugi verið þekktur sem flokkur valdanna, enda hafði hann setið í ríkisstjórn nær samfellt frá árinu 1971 er hann missti völdin eftir alþingiskosningarnar í vor. Framsókn var aðeins utan stjórnar tvisvar á þessu 36 ára tímabili, er minnihlutastjórn Benedikts Gröndals sat 1979-1980 og Viðeyjarstjórn Davíðs Oddssonar 1991-1995. Framsóknarflokkurinn hefur í raun staðið á krossgötum allt frá því að tólf ára formannsferli Halldórs Ásgrímssonar lauk og horfist nú í augu við stjórnarandstöðuvist og verulega uppstokkun þó að fornir fulltrúar flokksins frá valdaferli Halldórs og Steingríms Hermannssonar innan flokksins leiði nú starf hans eftir kosningarnar.
Jón Sigurðsson, samvinnumaður par excellance, fórnaði seðlabankastjórastöðu, öruggu embætti á þægilegum stað, fyrir óvissu stjórnmálanna sumarið 2006. Hann varð ráðherra við brotthvarf Halldórs og fór svo fram til formennsku í flokknum og sigraði Siv Friðleifsdóttur í kosningu á flokksþingi fyrir ári, upp á dag. Öllum varð ljóst að hann tæki við risavöxnu verkefni er hann varð bæði ráðherra og flokksformaður - það reyndist óvinnandi verkefni er yfir lauk. Ósigri flokksins sem spáð hafði verið oft á síðasta kjörtímabili og glitti í eftir sveitarstjórnarkosningarnar varð ekki umflúinn. Jóni tókst ekki að leiða flokkinn til þeirrar stöðu að verjast miklu fylgistapi. Flokkurinn missti tæplega helming þingflokks síns á kjördag 12. maí sl.
Jón, sem var ráðherra utan þings þann tíma sem hann var flokksformaður, náði sjálfur ekki kjöri í alþingiskosningunum í Reykjavík norður, því kjördæmi þar sem Halldór Ásgrímsson náði kjöri við annan mann árið 2003, þó hart væri barist. Flokkurinn varð fyrir mesta áfalli sínu á höfuðborgarsvæðinu. Eftir kosningarnar 2003 hafði flokkurinn fjögur þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum og Kraganum. Hann missti þrjú þeirra í kosningunum 12. maí sl. Aðeins þingsæti Sivjar Friðleifsdóttur í Kraganum var varið. Framsóknarflokkurinn þurrkaðist út í Reykjavík, þar sem hann hafði haft þingsæti frá kjördæmabreytingunni árið 1959.
Staða Jóns var vonlaus eftir kosningar eftir að ljóst varð að tólf ára sögulegu samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks væri lokið og Geir H. Haarde hóf viðræður við Samfylkinguna sem lauk með stjórnarmyndun. Jón stóð eftir sem formaður án pólitísks hlutverks út fyrir flokksstofnanir og án aðkomu að ræðustóli Alþingis. Hann sagði af sér formennsku daginn áður en hann lét af ráðherraembætti, 23. maí sl, og yfirgaf hið pólitíska svið eftir níu mánaða formannsferil, einn þann stysta í íslenskri stjórnmálasögu og svo sannarlega sögulega stuttan innan Framsóknarflokksins þar sem formenn hafa jafnan setið árum saman.
Eftir sat Guðni Ágústsson með pálmann í höndunum. Hann varð flokksformaður án kosningar, sem varaformaður við afsögn formanns, rétt eins og Halldór Ásgrímsson þegar að Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri árið 1994. En ólíkt var hlutskipti þeirra, þó báðir horfðu fram á stjórnarandstöðuvist. Halldór hafði verið krónprins formanns árum saman og horfði fram á að komast í ríkisstjórn skömmu síðar og aukningu fylgis. Guðni tók við formennsku við það að missa völdin og ráðherrastól og horfðist í augu við pólitíska eyðimerkurgöngu eftir niðurlægjandi kosningaósigur. Það er því erfið staða sem blasir við nýjum formanni.
Guðna var ekki treyst fyrir formennsku af Halldóri sumarið 2006 og lagði hann og hópur stuðningsmanna hans lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir kjör hans. Orðrétt sagði Guðni sjálfur í viðtali í vor, þar sem hann vék að pólitískum endalokum Halldórs og augljósum vinnubrögðum í þá átt að hann hætti með honum og þess sem tók við er hann ákvað að halda áfram: "Halldór taldi mig ekki þann réttborna arftaka sem Framsóknarflokkurinn ætti að fá. Ég veit ekki hvers vegna það var, hvort hann treysti mér ekki fyrir flokknum eða hvort andstaða mín við þessa Evrópusambandshugsun hans réði því."
Framsókn er enn einu sinni á krossgötum. Starf flokksins er leitt af Guðna og Valgerði Sverrisdóttur, sem kjörin var varaformaður í júnímánuði. Bæði hafa verið virk í forystu árum saman og hafa setið á þingi í tvo áratugi og voru ráðherrar í síðustu átta ár stjórnarsamstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn. Ef marka má skoðanakannanir birtir ekki yfir flokknum og staða hans er verulega slæm. Það sést af pirrelsi forystumanna hans að þau eiga erfitt með að horfa fram á veginn í þessari vondu stöðu.
Það verður áhugavert að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og forystu hans. Flestir horfa til þess hver muni taka við honum í fyllingu tímans. Það er öllum ljóst að brátt verður horft til næstu kynslóðar, þeirri sem líklegast er að geti fært flokknum nýtt líf, þ.e.a.s. ef hann þolir langa stjórnarandstöðuvist sem stefnir mjög í að verði hlutskipti flokksins næstu árin.
Framsóknarflokkurinn hefur í áratugi verið þekktur sem flokkur valdanna, enda hafði hann setið í ríkisstjórn nær samfellt frá árinu 1971 er hann missti völdin eftir alþingiskosningarnar í vor. Framsókn var aðeins utan stjórnar tvisvar á þessu 36 ára tímabili, er minnihlutastjórn Benedikts Gröndals sat 1979-1980 og Viðeyjarstjórn Davíðs Oddssonar 1991-1995. Framsóknarflokkurinn hefur í raun staðið á krossgötum allt frá því að tólf ára formannsferli Halldórs Ásgrímssonar lauk og horfist nú í augu við stjórnarandstöðuvist og verulega uppstokkun þó að fornir fulltrúar flokksins frá valdaferli Halldórs og Steingríms Hermannssonar innan flokksins leiði nú starf hans eftir kosningarnar.
Jón Sigurðsson, samvinnumaður par excellance, fórnaði seðlabankastjórastöðu, öruggu embætti á þægilegum stað, fyrir óvissu stjórnmálanna sumarið 2006. Hann varð ráðherra við brotthvarf Halldórs og fór svo fram til formennsku í flokknum og sigraði Siv Friðleifsdóttur í kosningu á flokksþingi fyrir ári, upp á dag. Öllum varð ljóst að hann tæki við risavöxnu verkefni er hann varð bæði ráðherra og flokksformaður - það reyndist óvinnandi verkefni er yfir lauk. Ósigri flokksins sem spáð hafði verið oft á síðasta kjörtímabili og glitti í eftir sveitarstjórnarkosningarnar varð ekki umflúinn. Jóni tókst ekki að leiða flokkinn til þeirrar stöðu að verjast miklu fylgistapi. Flokkurinn missti tæplega helming þingflokks síns á kjördag 12. maí sl.
Jón, sem var ráðherra utan þings þann tíma sem hann var flokksformaður, náði sjálfur ekki kjöri í alþingiskosningunum í Reykjavík norður, því kjördæmi þar sem Halldór Ásgrímsson náði kjöri við annan mann árið 2003, þó hart væri barist. Flokkurinn varð fyrir mesta áfalli sínu á höfuðborgarsvæðinu. Eftir kosningarnar 2003 hafði flokkurinn fjögur þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum og Kraganum. Hann missti þrjú þeirra í kosningunum 12. maí sl. Aðeins þingsæti Sivjar Friðleifsdóttur í Kraganum var varið. Framsóknarflokkurinn þurrkaðist út í Reykjavík, þar sem hann hafði haft þingsæti frá kjördæmabreytingunni árið 1959.
Staða Jóns var vonlaus eftir kosningar eftir að ljóst varð að tólf ára sögulegu samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks væri lokið og Geir H. Haarde hóf viðræður við Samfylkinguna sem lauk með stjórnarmyndun. Jón stóð eftir sem formaður án pólitísks hlutverks út fyrir flokksstofnanir og án aðkomu að ræðustóli Alþingis. Hann sagði af sér formennsku daginn áður en hann lét af ráðherraembætti, 23. maí sl, og yfirgaf hið pólitíska svið eftir níu mánaða formannsferil, einn þann stysta í íslenskri stjórnmálasögu og svo sannarlega sögulega stuttan innan Framsóknarflokksins þar sem formenn hafa jafnan setið árum saman.
Eftir sat Guðni Ágústsson með pálmann í höndunum. Hann varð flokksformaður án kosningar, sem varaformaður við afsögn formanns, rétt eins og Halldór Ásgrímsson þegar að Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri árið 1994. En ólíkt var hlutskipti þeirra, þó báðir horfðu fram á stjórnarandstöðuvist. Halldór hafði verið krónprins formanns árum saman og horfði fram á að komast í ríkisstjórn skömmu síðar og aukningu fylgis. Guðni tók við formennsku við það að missa völdin og ráðherrastól og horfðist í augu við pólitíska eyðimerkurgöngu eftir niðurlægjandi kosningaósigur. Það er því erfið staða sem blasir við nýjum formanni.
Guðna var ekki treyst fyrir formennsku af Halldóri sumarið 2006 og lagði hann og hópur stuðningsmanna hans lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir kjör hans. Orðrétt sagði Guðni sjálfur í viðtali í vor, þar sem hann vék að pólitískum endalokum Halldórs og augljósum vinnubrögðum í þá átt að hann hætti með honum og þess sem tók við er hann ákvað að halda áfram: "Halldór taldi mig ekki þann réttborna arftaka sem Framsóknarflokkurinn ætti að fá. Ég veit ekki hvers vegna það var, hvort hann treysti mér ekki fyrir flokknum eða hvort andstaða mín við þessa Evrópusambandshugsun hans réði því."
Framsókn er enn einu sinni á krossgötum. Starf flokksins er leitt af Guðna og Valgerði Sverrisdóttur, sem kjörin var varaformaður í júnímánuði. Bæði hafa verið virk í forystu árum saman og hafa setið á þingi í tvo áratugi og voru ráðherrar í síðustu átta ár stjórnarsamstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn. Ef marka má skoðanakannanir birtir ekki yfir flokknum og staða hans er verulega slæm. Það sést af pirrelsi forystumanna hans að þau eiga erfitt með að horfa fram á veginn í þessari vondu stöðu.
Það verður áhugavert að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og forystu hans. Flestir horfa til þess hver muni taka við honum í fyllingu tímans. Það er öllum ljóst að brátt verður horft til næstu kynslóðar, þeirri sem líklegast er að geti fært flokknum nýtt líf, þ.e.a.s. ef hann þolir langa stjórnarandstöðuvist sem stefnir mjög í að verði hlutskipti flokksins næstu árin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.