Deilt um ábyrgð á ferjuklúðri - hjólað í ráðherra

Árni M. Mathiesen Það vakti mikla athygli í vikunni þegar að Ríkisendurskoðun hjólaði í Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og gaf út hvassorða yfirlýsingu vegna ummæla hans um það mikla klúður sem opinberast hefur vegna Grímseyjarferjunnar. Ég man satt best að segja ekki eftir að Rendi hafi hjólað svo harkalega í ráðherra áður, það er þá allavega orðið óralangt síðan. Það var bara gefið trukkinn í þrusubotn. Það leikur enginn vafi á því að þetta er hitamál og það er eins og ég hef áður sagt mikilvægt að einhver taki á því fulla ábyrgð.

Það er auðvitað ekki hægt annað en að líta til fjármála- og samgönguráðherra þessa tíma. Mér finnst það óhugsandi annað en að einhver vitneskja hafi verið í ráðuneytunum með hversu alvarleg staða þessa máls var. Mér finnst það ekki trúverðugt að svo massív framúrkeyrsla og klúður hafi farið framhjá ráðherrum sem eiga að vera starfi sínu vaxnir. Eftir því sem ég heyrði um daginn er talað um að kostnaður við ferjuna fari yfir 600 milljónir og heildarkostnaður því orðinn meiri en ef keypt hefði verið ný ferja handa Grímseyingum. Svo að ekki verður litið framhjá því að um stórhneyksli er að ræða.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis og fyrrum samgönguráðherra, er í því erfiða hlutverki að Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi og því á hann erfitt um vik að mörgu leyti með að tjá sig. Hann sendi þó frá sér yfirlýsingu um daginn sem ég gat ekki túlkað öðruvísi en sem óskiljanlega að mörgu leyti. Það var margt sem kallaði á enn frekari spurningar eftir hana. Það er vísað í margar áttir í þessu máli. Hlægilegast fannst mér þegar að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, vísaði boltanum í upphafi til skipaverkfræðingsins eins og hann ætti að vera einhver fallkandídat í þessu máli. Endemis klúður - það var fyrsta hugsun mín þegar að það heyrðist frá ráðherranum sem var fjarri því sannfærandi.

Það þarf engan sérfræðing til að sjá að staða ráðherranna tveggja á þessum tíma er erfið. Staða Sturlu er sérstaklega erfið. Ekki aðeins heyrir Ríkisendurskoðun undir þingið heldur líka fjárveitingavaldið, sem gengið var framhjá með áberandi hætti í þessu máli. Svo að þunginn á honum er síst minni nú en áður í ljósi þess að hann er hættur sem ráðherra málaflokksins. Heilt yfir finnst mér að það verði einhver að taka ábyrgð vegna málsins. Það þarf að leiða alla þætti málsins í ljós. Hversvegna þetta tiltekna skip var keypt og svona mætti lengi telja. Spurningarnar eru eiginlega óteljandi margar við fyrstu sýn.

Sagan mun eflaust dæma málefni nýju Grímseyjarferjunnar sem mjög stórt pólitískt hneykslismál. Það verður fróðlegt að sjá hvort að það verði líka þekkt sem mál sem leiddi til þess að pólitískt kjörnir fulltrúar tóku fulla ábyrgð á klúðrinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jóhannesson

Þetta er leiðindamál fyrir alla. En hverjar eru líkurnar á því að einhver ráðherra eða embættismaður muni hafa frumkvæði að því að axla ábyrgð?

Páll Jóhannesson, 24.8.2007 kl. 18:37

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta vel skrifað og allt sannleikur,og við verðum að taka þetta alvarlega/þetta klúður okkar Manna ,Ábyrgðin er þeirra/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 24.8.2007 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband