Alberto Gonzales segir af sér - Chertoff tilnefndur

Alberto GonzalesAlberto Gonzales, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt af sér embætti og orðrómur er um að Michael Chertoff, heimavarnarráðherra, verið tilnefndur í hans stað. Afsögn Gonzales kemur engum að óvörum, enda hefur hann verið miðpunktur hneykslismála um nokkuð skeið og mál hans verið til umfjöllunar hjá Bandaríkjaþingi. Hafði hann misst t.d. stuðning fjöldamargra repúblikana á þingi og hafði verið valtur í sessi um langt skeið en hafði stuðning Bush og Cheney ótrúlega lengi í þeim þrengingum.

Gonzales var 80. dómsmálaráðherrann í bandarískri stjórnmálasögu og tók við embættinu af hinum umdeilda John Ashcroft, sem sat sem dómsmálaráðherra fyrra kjörtímabil Bush forseta. Hann varð fyrsti dómsmálaráðherra Bandaríkjanna af hispönskum ættum og valdamesti stjórnmálamaður Bandaríkjanna til þessa úr þeirra röðum. Deilur urðu strax vegna tilnefningar hans í nóvember 2004 en öldungadeildin staðfesti þó skipan hans í embættið. Var Gonzales þó samþykktur með 60 atkvæðum að mig minnir. Það var með lélegri kosningu sem dómsmálaráðherra Bandaríkjanna hafði fengið fyrir þinginu.

Alberto Gonzales var á þeim tíma er hann var tilnefndur í ráðuneytið einn af lykilmönnum George W. Bush og fylgt honum með einum eða öðrum hætti allan stjórnmálaferil hans. Hann hafði verið dómari við hæstarétt Texas fylkis og einn af helstu lagaspekingum í málum fylkisins á ríkisstjóraferli Bush 1995-2000. Hann varð helsti lögfræðiráðgjafi Bush í Hvíta húsinu fyrra kjörtímabilið. Til marks um sterka stöðu Gonzales framan af ráðherraferlinum var að hann kom til greina sem eftirmaður William H. Rehnquist sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna sumarið 2005 og munaði litlu að hann yrði tilnefndur. Síðar ákvað Bush að tilnefna John G. Roberts.

Það hafði blasað við um nokkuð skeið að hann væri mjög skaddaður pólitískt en verndarhjúpur forsetans yfir honum hélt mjög lengi. Undir lokin var hann orðinn það skaddaður að embættið var orðið skotspónn pólitískra átaka og honum var ekki sætt lengur, en enn eru um eitt og hálft ár í forsetaskipti. Orðrómur um val Bush á tilnefndum eftirmanni Gonzales, Michael Chertoff, kemur ekki að óvörum og nær öruggt að hann verði tilnefndur, þar sem hann gæti verið studdur af báðum flokkum og hefur ekki þá löngu sögu væringa að baki og margir lykilmanna Bush.

Chertoff hefur langan feril að baki og gæti orðið til að lægja öldur eftir átakatíma tengda Gonzales. Hann hefur verið dómari við áfrýjunardómstól Bandaríkjanna og aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna í valdatíð Bush eldri. Hann var tilnefndur heimavarnarráðherra árið 2005 eftir að Bernard Kerik datt úr skaftinu vegna hneykslismála og fékk öll greidd atkvæði í þingkosningu á sínum tíma.


mbl.is Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband