Páll Hreinsson skipaður hæstaréttardómari

Páll Hreinsson Páll Hreinsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, hefur verið skipaður hæstaréttardómari af Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra. Líst mér mjög vel á þetta val Björns, tel það rétt og óumdeilt, enda er Páll Hreinsson í senn mjög hæfur valkostur til setu í Hæstarétti og hefur langan feril að baki og er virtur fyrir sín störf. Óska ég Páli til hamingju.

Páll verður yngsti dómarinn í Hæstarétti, enda er hann aðeins 44 ára gamall. Hann er tveim árum yngri en Ólafur Börkur Þorvaldsson sem skipaður var í réttinn fyrir fjórum árum. Páll sótti um dómarastöðu við Hæstarétt fyrir ári, er Guðrún Erlendsdóttir hætti eftir tveggja áratuga dómaraferil, en þá var Hjördís Björk Hákonardóttir valin í hennar stað.

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu undanfarna daga um skipan í Hæstarétt Íslands og vinnuferli í þeim efnum. Það er jákvætt og eðlilegt að mínu mati. Það er nauðsynlegt að taka það ferli til mikillar umræðu. Þessi umræða hefur nú að mínu mati sýnt vel hversu margir vilja einhverskonar uppstokkun á valinu með einum eða öðrum hætti, hvort sem snýr að því að skera úr um hæfi umsækjenda eða því hvernig dómarinn er skipaður.

Mér finnst sífellt fleiri vera komnir á þá skoðun að það sé afleitt að sitjandi dómarar við Hæstarétt, þar á meðal sá sem lætur af embætti, skeri úr um hæfi umsækjenda og eða raði þeim upp í sérstaka hæfnisröð, sem hefur verið mjög umdeild. Heilt yfir finnst mér fleiri tala fyrir breytingum á dómstólalögum og annað fyrirkomulag tekið upp. Margir hafa t.d. rætt um að nefnd sérfræðinga fari yfir hæfi umsækjenda svipað og gert er varðandi héraðsdómara.

Mér finnst t.d. mjög ákjósanlegt að stokka upp valið sem slíkt. Ráðherrans er auðvitað að koma með tillögu að skipan en það væri ekki úr vegi að stokka það upp með þeim hætti að þingið verði að staðfesta valið. Yrði það raunin finndist mér eðlilegast að þar yrði styðst við aukinn meirihluta þingmanna, 2/3 þeirra.

Þessar hugmyndir og fleiri hafa verið ræddar og eru gott innlegg í þarfa umræðu. En enginn vafi er á því að það er dómsmálaráðherrans að koma með tillögu og nú liggur valið fyrir. Páll verður eftirmaður Hrafns Bragasonar. Þetta er gott val og ég tel að það verði ekki hægt að gagnrýna það, enda er Páll mjög hæfur til verka.

mbl.is Páll Hreinsson skipaður dómari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband