Lúðvík Gizurarson verður Hermannsson

Lúðvík Gizurarson (Hermannsson)Það er nú ljóst, eftir DNA-rannsókn, að Lúðvík Gizurarson, lögmaður, er sonur Hermanns Jónassonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, og því um leið hálfbróðir Steingríms Hermannssonar, eins og mörgum hafði grunað. Lúðvík hefur barist fyrir því árum saman að fá skorið úr faðerni sínu og haldið því fram að Hermann væri faðir sinn. Eins og flestum er ljóst er mjög sterkur svipur með þeim.

Barátta hans hefur þó tekist langan tíma og verið erfið. Þurfti úrskurð Hæstaréttar til að úr faðerninu væri skorið og liggur niðurstaðan nú fyrir. Með þessu er auðvitað ljóst að Steingrímur er ekki einkasonur Hermanns. Það er þó ekki við því að búast að systkinin þrjú; Lúðvík, Steingrímur og Pálína Hermannsdóttir, fallist í faðma vegna niðurstöðunnar en þau hafa tekist á mjög hatrammlega vegna málsins og t.d. ritaði Pálína langa moggagrein fyrr á árinu gegn Lúðvík og tilraun hans til að fá úr málinu skorið. Talaði hún mjög hvasst um málið í dag á einhverri fréttavefsíðunni.

Hermann JónassonÞað er orðið mjög langt síðan, eða rúmir þrír áratugir, síðan að Hermann Jónasson lést. Skiptum á dánarbúi hans er því löngu lokið og varla um að ræða að Lúðvík fái arf eftir föður sinn. Systkini Lúðvíks hafa þó lengi haldið því fram að hann vilji fá arf eftir föður sinn og hefur það verið eitt deiluefnanna. Eins og flestum er ljóst var Lúðvík skráður sonur Gizurar Bergsteinssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar, en móðir Lúðvíks var lengi ritari Hermanns Jónassonar og með þeim var vinskapur. Má búast við að hann verði bráðlega skráður Hermannsson í ljósi niðurstöðunnar.

Mér finnst eðlilegt að Lúðvík hafi viljað fá skorið úr málinu, fá á það hæfilegan endi og skorið úr faðerninu í eitt skipti fyrir öll. Það var hinn eini raunhæfi endir þessa máls. Það er eðlilegt að hver og einn vilji vita hverjir séu foreldrar sínir og öllum vafamálum eytt. Mér hefur lengi fundist að Steingrímur og Pálína hafi fyrst og fremst viljað standa vörð um minningu föður síns, ekki viljað að hið sanna kæmist upp, sem hefur verið orðrómur árum saman.

Það er vissulega sjónarmið að standa vörð um minningu foreldra sinna og vilja ekki að nýr kafli opnist á ævi þeirra seint og um síðir. Þetta er alltaf viðkvæmt mál, sérstaklega þegar að svo langt er um liðið. En ég skil sjónarmið Lúðvíks og baráttu hans, sem er heiðarleg að því marki að það skiptir máli hvaðan fólk kemur. Þó málið sé gamalt er baráttan skiljanleg að svo mörgu leyti.

Það vakti athygli sumarið 2006 þegar að Lúðvík sendi út frá sér fréttatilkynningu um framboð til formennsku í Framsóknarflokknum. Það var greinilega fyrst og fremst grín af hálfu Lúðvíks að gefa upp þann möguleika og reyna með því að feta í fótspor feðganna Hermanns og Steingríms. Væntanlega var Steingrími ekki hlátur í huga yfir þessu öllu saman.

Það er vonandi að þessu fjölmiðlastríði barna Hermanns Jónassonar sé lokið og sátt geti orðið milli aðila. Það er þó vissulega fátt sem bendir til þess að málinu ljúki með því að öll börn forsætisráðherrans fyrrverandi geti sæst og horft fram á veginn, enda hafa mörg þung orð fallið í gegnum málaferlin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er ekki viss að Lúðvík breyti föðurnafni sínu en það væri fróðlegt ef hann gerði slíkt. Annars á eftir að dæma í málinu með formlegum hætti fyrir báðum dómstigum þó vissulega sé farið eftir DNA rannsókn.

Ef ég kæmist að því að ég ætti hálf-/bróður/systur tæki ég því með stóískri ró. Jafnvel mæta á ættarmóti með þessu venslafólki.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband