Eru Íslendingar óstundvísir?

Ertu óstundvís? Svo virðist vera sem að óstundvísi tónlistargesta hafi sett stóran svip á tónleika söngkonunnar Noruh Jones um helgina. Hef heyrt þetta úr mörgum áttum allavega að margir hafi komið of seint, sem hlýtur að vera rosalega pirrandi fyrir þá sem hafa fyrir því að vera komnir snemma. Þetta hlýtur að vekja spurningar um það hvort að Íslendingar séu jafnan óstundvísir eður ei.

Persónulega finnst mér fátt meira pirrandi en að fólk komi of seint á leiksýningar eða á bíósýningu, þegar að ljósin hafa verið slökkt og jafnvel kemur slatti eftir byrjun og maður þarf kannski að standa upp fyrir öðrum sem eru að koma og vilja komast í sömu röðina eða eitthvað svoleiðis. Svo er reyndar eitt ömurlegasta pirrelsið að upplifa símhringingar í miðju leikriti eða bíómynd.

En hvað með það, óstundvísi á svona stundum er ekki spennandi og spillir ánægju þeirra sem snemma koma. Persónulega finnst mér við Íslendingar æði oft skiptast í tvo öndverða hópa; annaðhvort mætir fólk tiltölulega snemma og vill hafa svigrúm til að koma sér vel fyrir eða mætir svo seint að jafnvel er sýning eða atburður sem í gangi er hafinn fyrir einhverri stund og skyggir á það sem er að gerast. Þeir sem tilheyra fyrri hópnum verða óendanlega pirraðir yfir þeim seinni held ég.

Ætla svosem ekkert að fella þann dóm að Íslendingar séu yfir höfuð óstundvísir. Sumir eru bara þannig að koma frekar seint en snemma og núningur hópanna er því skiljanlegur. Það er ágætt að velta þessu samt fyrir sér hvort betra sé að vera snemma í mætingu eða of seinn. Get ekki ímyndað mér að þeir sem mættu snemma á rólega tónlist Noruh Jones hafi verið sælir yfir þeim sem mættu of seint.

mbl.is Óstundvísir Íslendingar spilltu tónleikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég held að sumir Íslendingar séu búnir að uppgötva þetta upphitunardæmi og nenna ekki að hlusta á það, vilja bara koma þegar aðalstjarnan  byrjar. Ég  minnist einna hljómleika sem ég fór eitt sinn á með Withney Houston. Upphitun einhverra hljómsveita var 80 prósent af tímanum. Þegar hún loksins birtist var maður búin í báðum rasskinnum. Svo söng hún fáein og lög og var farin.

Þannig að ég tel að þetta sé ekki bara einhver óstundvísi. Vissulega er þetta leiðitamt og truflar þá sem eru að hlusta sér í lagi þegar þeir sem koma seint geta ekki vitað nákvæmlega tímann sem best er að koma og eru að týnast inn. Persónulega vil ég bara að sú eða sá sem maður er að koma að sjá byrji strax á sínu prógrammi.

Kolbrún Baldursdóttir, 4.9.2007 kl. 21:26

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Góðar pælingar Kolbrún. Margt til í þessu. Upphitunarböndin standa oft ekki undir væntingum og ekki alltaf gæðaefni þar á ferð, satt best að segja. Er auðvitað misjafnt. Þetta skiptir vissulega máli í þessu samhengi. En enn er þó eftir pælingar mínar um af hverju sumt fólk er of seint í leikhús eða í bíó. Þetta er allt áhugavert umhugsunarefni. En tek undir þetta með upphitunarböndin og þakka þær pælingar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.9.2007 kl. 23:45

3 Smámynd: Hr. Örlygur

"Svo virðist vera sem að óstundvísi tónlistargesta hafi sett stóran svip á tónleika söngkonunnar Noruh Jones um helgina."

Það er rétt að leiðrétta þetta.  Fólk mætti tímanlega til að sjá Norah Jones. Engin truflun var á tónleikum hennar. Hins vegar kaus hluti tónleikagesta að missa af hluta/öllu upphitunaratriðinu; M. Ward.

Eins og Kolbrún bendir á; Ég held að sumir Íslendingar séu búnir að uppgötva þetta upphitunardæmi og nenna ekki að hlusta á það, vilja bara koma þegar aðalstjarnan  byrjar.

Mikið rétt. Bæði hérlendis sem erlendis fær upphitunaratriðið minni athygli og mætingu en aðalatriðið. Hlutverk upphitunaratriðis er einmitt að fá fólk inn í tónleikasalinn - og koma þeim sem mættir eru í rétta stemmningu.

Ekki voru t.d. margir mættir til að sjá hljómsveitina Rass leika á undan Sykurmolunum á tónleikum þeirra í Laugardalshöll í fyrra. Sömu sögu má segja um tónleika Kate Havnevik á undan Air um daginn. 

M. Ward hefur oft spilað fyrir hálftómum tónleikasölum í tónleikaferð Norah Jones. Það var hins vegar ekki svo farið í Laugardalshöll á sunnudaginn - fjölmargir sáu M. Ward, og fengu í bónus (algerlega óvænt) að sjá og heyra Norah Jones taka nokkur lög með kappanum.

Það að Norah Jones hafi tekið nokkur lög með M. Ward skapar e.t.v. einhvern rugling á upphitunaratriði og aðalatriði tónleikana. 

Hr. Örlygur, 5.9.2007 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband