5.9.2007 | 19:00
Áratugur frá örlagadegi Englandsdrottningar
Á þessu síðdegi er áratugur liðinn frá því að Elísabet II Englandsdrottning flutti hið sögulega ávarp sitt til minningar um fyrrum tengdadóttur sína, Díönu, prinsessu af Wales. Hún stóð á krossgötum það síðdegi; hafði verið allt að því neydd til þess af Tony Blair að koma til London og sýna minningu prinsessunnar virðingu. Fram að því hafði hún og fjölskylda hennar verið í sumarleyfi í Balmoral-kastala á Skotlandi og kallað var á að þau yrðu sýnilegri á sorgarstund landsmanna.
Drottningin hafði fram til þess tíma aldrei mætt andstöðu landsmanna, fjölmiðla og stjórnvalda á þeim 45 árum sem hún hafði verið drottning. Þrátt fyrir að slúðurblöðin og almennir fjölmiðlar hefðu oft sýnt drottningu með umfjöllun um fjölskyldu hennar að tímarnir væru breyttir frá upphafi valdaferils hennar hafði aldrei orðið bein sýnileg andstaða við verk hennar og leiðsögn. Það gerðist svo sannarlega eftir lát Díönu, sem hafði verið yndi fjölmiðlanna og landsmanna allra. Sorgin yfirtók allt annað þessa septemberdaga. Drottningin hafði ekki viljað sýna sorg í verki en viljað að sorgin yrði sýnd úr fjarlægð. Að þeim vatnaskilum kom þessa daga að sorgin varð ekki stöðvuð og kallað var á viðbrögð þjóðhöfðingjans.
Drottningin hafði ekki einu sinni sent frá sér opinbert skriflegt ávarp eftir andlát Díönu eða orð til þjóðar í sorg - sat aðeins þögul á hefðarsetri og sá ólguna byggjast upp stig af stigi meðan að sífellt styttist í útför prinsessunnar. Drottningin og eiginmaður hennar höfðu þó tilkynnt opinberlega um andlát prinsessunnar nóttina sem hún dó, en ekki gert neitt meira í kjölfarið. Sorg landsmanna náði svo sannarlega sögulegum hæðum þessa daga og Díana var kvödd af almenningi sem þjóðhöfðingi væri. Deilt hafði verið um stöðu hennar eftir að hjónabandi hennar og Karls Bretaprins lauk og sitt sýndist hverjum. Öllum vafa var þó hressilega eytt eftir dauða hennar.
Er yfir lauk varð drottningin að snúa af leið sinni, þ.e.a.s. að sýna gamaldags sorgarviðbrögð úr fjarlægð og henni var allt að því skipað af forsætisráðherranum að halda til London og takast á við vandann. Þessa daga stefndi konungsfjölskyldan í sögulega glötun. Kannanir sýndu sögulega lágar mælingar við stuðning við drottningu og blöðin töluðu gegn henni með stríðsletri á forsíðum og gert var gys af drottningu. Er allt stefndi í glötun beygði hún af leið rúmum sólarhring áður en prinsessan var jörðuð. Mörgum fannst það mjög seint en það var samt ekki það seint að skaðinn væri óbætanlegur.
Ekki aðeins varð drottningin að ávarpa þjóðina frá höllu sinni, hún varð að mæta syrgjandi almenningi á götum Lundúna, varð að setja fánann á Buckingham-höll í hálfa stöng og binda enda á sumarleyfið fjarri skarkala fjölmiðlanna og sorg landsmanna, sem samt var orðin undir lokin æpandi í þögninni sem mætti drottningunni. Mikið hefur verið deilt um ávarp drottningarinnar þetta síðdegi, þ.e.a.s. hver hafi samið það. Kjaftasögur hafa árum saman verið á þá leið að hirðritari drottningar hafi samið uppkast sem hafi verið yfirfarið af spunameisturum Tony Blair í Downingstræti sem hafi snúið því við og umturnað.
Frægur kafli ávarpsins þar sem drottningin segist tala frá hjartanu og sem móðir og amma var sérstaklega áberandi og margir töldu óhugsandi að drottningin hefði átt frumkvæði af honum. Alla tíð hafa frægar sögur gengið af fjarlægð drottningar við börn sín og sérstaklega mikið verið talað um hversu mjög prinsinn af Wales og Anna prinsessa hafi verið meira og minna alin upp af fóstrum. Frægt er ennfremur að prinsinn af Wales hefur verið mjög fjarlægur foreldrum sínum en Mountbatten lávarður var helsta föðurímynd hans. Mörgum þótti óhugsandi að drottningin vildi tala með þessum hætti altént.
Ávarpið hafði sín áhrif. Drottningin endurheimti virðingu þorra landsmanna sem höfðu misst tiltrú á henni septemberdagana örlagaríku sem liðið höfðu áður. Henni tókst að koma standandi frá þessu hitamáli sem skók veldi hennar. Það er alveg ljóst að þegar að frá líður og valdaferli drottningar verða gerð skil í sögubókum eftir dauða hennar, reyndar nú þegar auðvitað með vissum hætti, mun þetta mál verða ofarlega á baugi. Þetta voru dimmustu dagar drottningarinnar á valdaferlinum og hún stóð tæpast þá. Annus horribilis, 1992, stóð sannarlega í skugga þessara örfáu daga eftir að Díana dó og þóttu sem hátíð í samanburði.
Enn er drottningin vissulega á krossgötum. Þessir dagar gleymast sannarlega ekki og þeirra er minnst reglulega. Þessu tímabili voru gerð eftirminnileg skil í kvikmyndinni The Queen á síðasta ári. Þar var sýnt frá því sem gerðist bakvið tjöldin og þótti myndin trúverðug og vönduð sýn á þessa dimmustu daga valdaferils hinnar margreyndu drottningar sem rann til á svellinu, mislas skilaboð almennings og átt erfitt með að horfast að lokum í augu við vandann sem hún var komin í. Dame Helen Mirren fékk óskarinn fyrir að túlka drottninguna. Sérstaklega þótti Mirren ná vel svipbrigðum drottningar í ávarpinu sögufræga.
Það er kaldhæðnislegt að ein eftirminnilega ræða drottningar hafi verið samin fyrir hana að stærstum hluta og fjarstýrt að stærstu leyti úr herbúðum stjórnmálanna; minnisvarði um konu sem skók veldi hennar með eftirminnilegum hætti af líkbörum sínum. Merkileg saga. Hljómar eins og hún sé ekki sönn en hún varð svo sannarlega átakanlega sönn fyrir konu sem hafði stýrt heimsveldi áratugum saman og mætti andstöðu fyrsta sinni og varð að beygja sig til að hljóta virðingu almenningsins aftur.
Þetta hljómar vissulega eins og handrit ættað frá Hollywood en varð áþreifanlega raunverulegt fyrir konu áhrifanna á ögurstundu valdaferils hennar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.