Góð byrjun hjá nýjum heilbrigðisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson Það eru rúmir 100 dagar liðnir frá því að Guðlaugur Þór Þórðarson varð heilbrigðisráðherra, fyrstur sjálfstæðismanna í tvo áratugi. Að mínu mati hefur Gulli staðið sig vel sem heilbrigðisráðherra og gert mjög margt gott og tekið farsælar ákvarðanir víða. Sérstaklega finnst mér að hann hafi valið góðan hóp með sér til verka í ráðuneytinu. Valið á Hönnu Katrínu Friðriksson sem aðstoðarmanni var sérstaklega vel heppnað í upphafi og ekki var síðra að dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir væri valin í sérverkefni.

Ennfremur mætti nefna þær ákvarðanir að skipa Benedikt Jóhannesson, stærðfræðing, sem stjórnarformann Tryggingastofnunar ríkisins, Steingrím Ara Arason sem formann samninganefndar heilbrigðisráðherra (hins sama Steingríms Ara sem sagði sig reyndar úr einkavæðingarnefnd með þeim orðum að "hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum"), Þórólf Þórlindsson sem forstjóra Lýðheilsustofnunar og Rúnu Hauksdóttur Hvannberg sem formann lyfjaverðsnefndar í stað Höllustaðabóndans margfræga.

Nú nýlega var Davíð Á. Gunnarsson færður úr starfi ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins og settur í sérverkefni undir utanríkisráðherranum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Ég held að sú tilfærsla sé mjög gott skref, hið rétta í stöðunni, og ekki er verra að til verka í staðinn sé valin Berglind Ásgeirsdóttir, sem er mjög vönduð og hæf kona sem hefur víða unnið gott starf. Ráðherrann er að marka sér sess sem manns með hreint borð sem vill gera hlutina með sínu lagi en ekki annarra og hefur stokkað spilin vel upp.

Guðlaugur Þór Þórðarson hefur því farið vel af stað og fyrstu 100 dagarnir lofa góðu um verk hans. Það sem væri heiðarlegast og best núna fyrir hann væri að stokka upp málefni hátæknisjúkrahússins margfræga, skipta um formann í bygginganefnd þess og velja nýju sjúkrahúsi annan stað en þann sem nú hefur verið rætt um. Það yrði rós í hnappagat ráðherrans. En ég vil semsagt hrósa Gulla fyrir góða byrjun og vona að næstu hundrað dagar verði jafnvel heppnaðir og þeir hinir fyrstu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Aðalsteinsson

Mér finnst Gulli vera að gera góða hluti í heilbrigðisráðuneytinu og ég bind miklar vonir við hann. Það er sérstaklega uppörvandi að hann virðist hafa lag á að velja sér gott fólk til að vinna með sér (eins og þú bendir á Stebbi). Hver veit nema við munum núna sjá raunverulegar breytingar á heilbrigðiskerfinu í fyrsta sinn í áratugi. Gulli er klárlega á réttri leið.

Gísli Aðalsteinsson , 7.9.2007 kl. 09:45

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Á þessum manni hef ég óbilandi trú í hans vandasama starfi.

Ég þekki marga sjálfstæðismenn sem ég trúi til góðra verka þó hinir séu auðvitað margfalt fleiri sem eru að reyna að sanna hið gagnstæða fyrir mér.

Árni Gunnarsson, 7.9.2007 kl. 12:53

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Mér finnst Gulli hafa farið vel af stað. Hann hefur valið fagfólk á alla bása sem hann hefur skipað frá því að hann varð ráðherra og það ber að fagna því.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.9.2007 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband