Skuggabaldur minnir á sig eftir langa fjarveru

Osama bin Laden Á þriðjudag eru sex ár liðin frá hryðjuverkaárásunum í New York og Washington. Nú hefur sá sem lagði drögin að þeim minnt á sig enn eina ferðina eins og grýla sem kemur ófrýnileg út úr hellinum sínum til að láta aðra finna fyrir sér og reyna að sýna að enn sé töggur í skepnunni. Skuggabaldur virðist þó óvenjusettlegur í þetta skiptið og ekki jafn herskár og oft áður, virðist meira vera að tala í gríni og kerskni um þann óskunda sem hann gæti mögulega valdið frekar en nú þegar hefur átt sér stað.

Það eru að verða þrjú ár liðin frá því að Osama bin Laden birtist síðast á myndbandi við blálok kosningabaráttunnar fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2004 þar sem George W. Bush og John Kerry áttust við í hnífjafnri baráttu. Þá hafði hann ekki sést í ár og notaði tækifærið þá til að senda boðskapinn út á þeirri stundu sem óákveðnu kjósendurnir í lykilfylkjunum voru að taka afstöðu. Margir hafa fullyrt að tjáning bin Laden á þeirri pólitísku ögurstund hafi tryggt Bush forseta endurkjör á forsetastól, önnur fjögur ár í Hvíta húsinu. Það verður sennilega um það deilt alla tíð en orðrómurinn er afgerandi.

Þegar að bin Laden lét í sér heyra fyrir þrem árum gekk hann mjög langt í orðavali. Þá kom hann reyndar í fyrsta skipti með afdráttarlausa yfirlýsingu þess efnis að hann hefði staðið að hryðjuverkunum í Bandaríkjunum haustið 2001. Sagðist hann þá geta útlistað bestu leiðina fyrir Bandaríkin til að "forðast annað Manhattan". Bin Laden sagði þá einnig að árásin á Bandaríkin hefði verið nauðsynleg til að endurheimta frelsi og kenna Bandaríkjamönnum lexíu, hann hefði unnið að henni allt frá árinu 1982. Sagði hann þá ennfremur að varast skyldi að reita Araba til reiði. Ávarpið þótti stuðningstal fyrir hönd Kerrys en það var ekki beint vel þegið í þeim herbúðum.

Þetta var á föstudeginum fyrir forsetakjörið. Þá sagði Bush í viðbrögðum: "Let me make this very clear to the terrorists! Americans will not be intimidated or influenced by an enemy of our country. I'm sure Senator Kerry agrees with this." Sagðist hann treysta því að bandarískir kjósendur létu hótanir hryðjuverkamanns ekki hafa áhrif á dómgreind sína. Kerry svaraði að bragði: "Let me just make it crystal clear, as Americans we are absolutely united in our determination to hunt down and destroy Osama bin Laden and the terrorists. They are barbarians. I will stop at absolutely nothing to hunt down, capture and kill the terrorists wherever they are and whatever it takes".

Þetta var þá. Nú er tal hryðjuverkamannsins lágstemmdara svo sannarlega. Þrem árum síðar birtist bin Laden með dökkt skegg en var með grátt fyrir þrem árum. Það er ágætt að vita að skuggabaldur sjálfur notar litarefni til að halda sér ferskum. Hann er fjarri því dauður eins og margir töldu eftir þriggja ára fjarveru, enda talar hann um Sarkozy og Brown - hann er greinilega það vel lifandi að vita að Tony Blair og Jacques Chirac eru farnir að gera annað - sá fyrrnefndi er reyndar orðinn friðarins maður í Mið-Austurlöndum.

Eins og flestir vita styttist óðum í að George W. Bush láti af embætti. Eftirmaður hans verður kjörinn eftir aðeins fjórtán mánuði í líflegum forsetakosningum. Þar koma saman tveir nýjir fulltrúar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að hryðjuverkamaðurinn beitir áhrifum sínum og myndbandsspólum þegar að þeim spennandi kosningum kemur og Bush hverfur af hinu pólitíska sjónarsviði.

Hatur bin Laden á vesturveldunum var enda löngu komið til áður en George W. Bush varð forseti, hvað þá ríkisstjóri í Texas og kjör nýs forseta breytir varla miklu í þessum efnum.

mbl.is Al-Jazeera sýndi myndband með bin Laden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband