Gerry og Kate McCann fara til Bretlands

Gerry og Kate McCann Það kemur sannarlega ekki að óvörum að Gerry og Kate McCann taki þann kostinn að fara heim til Bretlands fyrst að þau geta það, á þeim þáttaskilum að þau verða sakborningar í stað fórnarlamba í hinu fræga máli dóttur þeirra. Þetta mál yfirgnæfir allt annað í fréttaumfjöllun bresku fréttamiðlanna. Beinar útsendingar fram og til baka og það liggur við að maður vorkenni fréttamönnunum fyrir að þurfa að yfirgefa sólskinsríkið Portúgal svo fljótt. Sky t.d. var með eina fjóra fréttamenn þarna á vakt. Ótrúlega öflug umfjöllun vægast sagt.

Kjaftasögurnar sem fjölmiðlarnir segja að komi frá nánum aðstandendum McCann-hjónunum eru á þá leið að portúgalska lögreglan sé að leita að blórabögglum í málinu. Hún hafi, eins og svo margoft hefur verið bent á, klúðrað rannsókninni á hvarfi Madeleine McCann og vilji auðveldari leiðina út. Það má vel vera. En ekkert mál getur staðið fyrir dómi nema að sönnunargögnin séu frekar skotheld. Það þarf meira en bara veik sönnunargögn til að fara með málið þá leið til enda og til að gera sjálfa foreldrana að sakborningum. Hinsvegar hlýtur að verða kallað á að sá hluti verði opinberaður betur en nú hefur verið gert.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst tilgáta portúgölsku lögreglunnar sem lak út í gær mjög langsótt. Foreldrarnir eigi að hafa valdið dauða stelpunnar (fyrir slysni væntanlega) og hafi svo beðið með að losa sig við líkið í um mánuð og þá notað bílaleigubílinn til að standa í því. Ég veit ekki betur en McCann-hjónin hafi verið í kastljósi fjölmiðla nær upp á hvern dag síðan að málið kom upp og fjölmiðlar hafa hundelt þau nær hvert einasta skref sem þau hafa stigið. Það hefði heldur betur þurft öflugt hliðarspor, framhjá fjölmiðlum, til að geta gert slíkt mánuði eftir hvarf stelpunnar.

Það kemur ekki eitthvað allavega þarna heim og saman. Heilt yfir er þetta mál jafnóskiljanlegt og áður. Spurningarnar eru margar og kallað er á raunhæf svör. Þau er þó ekki að fá. Hinsvegar finnst mér það svo fjarlægt að foreldrarnir hafi getað haldið þetta út svo lengi í baráttu sinni hafi þau valdið dauða stelpunnar sjálf. Það þarf sterk bein til að geta haldið handritið út svo lengi og spunnið það stig af stigi og samið jafnóðum. Ráðgátan í málinu virðist ekki enn nærri því að leysast.

Svo virðist vera sem að portúgalska lögreglan hafi gefist upp á að finna Madeleine McCann og þess í stað hafið leitina að morðingjum hennar. Þáttaskil felast sannarlega í því. Það sem vantar áþreifanlega í þá mynd er að leysa ráðgátuna um örlög Madeleine. Á meðan að ekkert lík finnst er málið haldlítið í raun og aðeins byggt á getgátum. Það er fátt afgerandi í þessu og unnið er eftir því sem mögulega hefði getað gerst.

Það sem verst er í málinu er að aldrei verði vitað með vissu hvað gerðist 3. maí 2007 í Praia de Luz í Algarve. Lykilatriði er að rekja slóðina. Stór hluti þess að það hefur ekki tekist er að portúgalska lögreglan klúðraði málinu á frumstigi. Það virðist vera að hún sé því að spinna málið eigin leið til að rekja málið frá eigin afglöpum. Það lítur allavega þannig út og ekki hjálpar veikburða tilgátur þeirra til.

mbl.is Foreldrar Madeleine McCann komnir heim til Bretlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

játning myndir vera pottþétt "sönnunargagn" - fyrst að þeim var leyft að fara frá landinu er alveg augljóst að öll þessi uppsöfnuðu "sönnunargögn" voru einfaldlega ekki til.

halkatla, 9.9.2007 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband