Jane Wyman látin

Jane Wyman Óskarsverðlaunaleikkonan Jane Wyman, fyrrum eiginkona Ronalds Reagans, 40. forseta Bandaríkjanna, er látin, 93 ára að aldri. Wyman setti sterkan svip á kvikmyndasögu gullaldartímans í Hollywood og lék í fjöldamörgum stórmyndum á sínum leikferli og er ein af síðustu stórleikkonum þessa tíma sem kveður þennan heim. Jane Wyman er, eins og gefur að skilja, eina eiginkona bandarísks þjóðhöfðingja sem hefur unnið leiklistarverðlaun, þó auðvitað hafi hún aldrei sjálf orðið forsetafrú Bandaríkjanna.

Jane Wyman fæddist í Missouri árið 1914 og var skírð Sarah Jane Mayfield. Jane var mjög ung þegar að hún ætlaði sér að verða leikkona. Það gekk illa þó fyrir hana að komast í bransann, eftir að námi lauk. Hún reyndi fyrir sér sem söngkona í útvarpi. Á þeim tíma skipti hún fyrst um nafn og tók upp nafnið Jane Durrell. Hún kom fram í nokkrum myndum (sem væru í dag eflaust kallaðar b-myndir) í kringum 1935, án þess að komast á skráðan leikaralista, og fikraði sig stig af stigi inn í helsta kjarna leikbransans. Það var loksins árið 1936 sem henni tókst, eftir mikla baráttu að komast á samning hjá Warner. Eftir það varð leiðin greið.

Árið 1936 tók hún upp nafnið Jane Wyman, sem fylgdi henni allt til leiðarloka og með því komst hún í fremstu röð leikbransans. Hún kynntist leikaranum Ronald Reagan við gerð einnar af þessum sannkölluðu b-myndum árið 1938, Brother Rat, og þau féllu fyrir hvoru öðru. Þau giftust árið 1940, og léku síðar sama ár í framhaldinu; Brother Rat and Baby. Bæði voru þau að reyna að fikra sig áfram í bransanum með misgóðum árangri. Reagan forseti lék í 50 kvikmyndum á verulega brokkgegnum leikferli, misjöfnum að gæðum. Reagan nefndi sig Errol Flynn B-myndanna. Þekktastar mynda hans urðu This is the Army, Kings Row og Hellcats of the Navy.

Jane lék í upphafi fimmta áratugarins aðallega í gaman- og dramatískum myndum. Best þeirra hlýtur að teljast Larceny, Inc. en hún fór þar sannarlega á kostum í hlutverki Denny Costello. Jane hlaut loks heimsfrægðina sem hana hafði alltaf dreymt um árið 1945. Þá fór hún á kostum í hlutverki Helen, eiginkonu alkóhólistans Dons Birnams, sem leikinn var með bravúr af Ray Milland, í kvikmynd Billy Wilder, Lost Weekend. Myndin sló í gegn og hlaut óskarinn sem besta kvikmynd ársins ásamt því sem að Wilder og Milland hlutu verðlaunin ennfremur. Þrátt fyrir stjörnuleik hlaut Jane ekki tilnefningu fyrir leik sinn.

Jane var óviðjafnanleg í hlutverki Ma Baxter í kvikmyndinni The Yearling árið 1946, ásamt Gregory Peck og Claude Jarman (sem er yndislegur í hlutverki sonarins Jody í hjartnæmri rullu), og hlaut þá loksins sína fyrstu óskarsverðlaunatilnefningu. Leið hennar var greið eftir leiksigrana í þessum tveim kvikmyndum og næst lék Jane í Magic Town og átti þar sannarlega gullna takta í hlutverki Mary, við hlið James Stewart. Það er sannarlega ein af þessum gömlu góðu sem hafa því miður fallið of mikið í skuggann. Þetta var reyndar í eina skiptið sem þau léku saman Wyman og Jimmy Stewart. Þessar myndir allar eiga alltaf vel við.

Það var loksins árið 1948 sem Jane Wyman náði hápunkti sínum í Hollywood, nældi sér í draumahlutverkið sem markaði feril hennar. Túlkun Jane á hinni blindu Belindu MacDonald, sem er nauðgað á hrottafenginn hátt, í kvikmyndinni Johnny Belinda er hiklaust hennar besta á litríkum leikferli og er ein af bestu leiktúlkunum áratugarins. Þetta er ein af þessum myndum með Jane sem aldrei munu falla í gleymskunnar dá og er alltaf viðeigandi til að minna sig á hversu góð leikkona hún var. Túlkunin er sláandi góð og er enn í dag upplifun af þeim skala sem hún var þá, er efnið þótti mikið feimnismál.

Jane hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Belindu árið 1949 og sló þar við leikkonum á borð við Ingrid Bergman, Oliviu de Havilland (sem hafði hlotið verðlaunin er Jane var tilnefnd fyrir The Yearling), Irene Dunne og Barböru Stanwyck (sem aldrei hlutu verðlaunin - margir hafa reyndar sagt með réttu að Barbara hafi verið langbesta leikkona kvikmyndasögunnar sem aldrei hafi hlotið verðlaunin). Eftir að Jane hlaut óskarinn voru henni allir vegir færir og hún lék í kvikmynd Sir Alfred Hitchcock, Stage Fright, skömmu síðar og ennfremur í mynd Frank Capra, Here Comes the Groom, auk myndarinnar um ævi Will Rogers.

Jane Wyman hélt sess sínum sem ein af bestu leikkonunum í Hollywood á sjötta áratugnum og hlaut mun meiri frægð en eiginmaður hennar, Ronald Reagan. Upp úr hjónabandi þeirra slitnaði, að flestra mati vegna þunga frama beggja, sérstaklega Jane, undir lok fimmta áratugarins. Þau eignuðust tvö börn; Michael (sem var ættleiddur) og Maureen (sem lést úr krabbameini árið 2001). Reagan varð síðar forseti SAG-leikarasamtakanna og ríkisstjóri í Kaliforníu. Hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1980. Reagan lést árið 2004 - hann og Wyman héldu sambandi allt þar til Reagan veiktist af Alzheimer á tíunda áratugnum.

Jane fór enn einu sinni á kostum í túlkun sinni á Louise í The Blue Veil árið 1951 og hlaut þriðju óskarsverðlaunatilnefninguna. Sama ár glansaði hún á móti Bing Crosby í söngvamyndinni Just For You. Árið 1954 lék Jane á móti Rock Hudson í kvikmyndinni Magnificent Obsession og hlaut síðustu óskarsverðlaunatilnefningu ferilsins fyrir glæsilega túlkun á Helen Phillips - kvikmynd í anda sápuóperanna og Wyman lék aftur blinda kvenpersónu. Atriðið þar sem Helen fikrar sig eftir herberginu er algjört augnayndi. Síðasta stórmynd ferils Jane var Pollýanna árið 1960. Þar var hún glæsileg sem Polly frænka (yndislega harðneskjuleg.

Jane hætti að mestu kvikmyndaleik á sjöunda áratugnum en kom fram í fjölda sjónvarpsmynda á næstu áratugum. Hún komst aftur í miðpunkt sviðsljóssins á níunda áratugnum þegar að hún túlkaði hina ábyrgu en dómínerandi ættmóður Angelu Channing í sápunni Falcon Crest. Þar eignaðist hún nýja aðdáendur af nýjum kynslóðum, enda um tveir áratugir liðnir frá því að hún hafði leikið í sannkölluðum stórmyndum. Hún endaði leikferil sinn í hlutverki hefðarfrúarinnar Elizabeth, móður Quinn læknis (í túlkun Jane Seymour), í sjónvarpsþáttunum um töfralækninn dr. Quinn í villta vestrinu, á tíunda áratugnum.

Jane Wyman lét sig að mestu hverfa úr sviðsljósinu á tíunda áratugnum og dró sig í hlé frá glansa Hollywood-lífsins. Jane var eins og fyrr segir glæsileg leikkona. Með henni er fallin í valinn ein af þeim leikkonum sem settu mestan svip á gullaldarsögu Hollywood um miðja 20. öldina.


mbl.is Jane Wyman látin 93ja ára að aldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

hélt mikið upp á Jane Wyman, sá margar svarthvítar kvikmyndir með henni upp úr 1969 eftir að sjónvarpið kom í sveitina, einnig hélt ég mikið upp á Grace Kelly, sem lést 1982, var einmitt verið að sýna mynd um hana á RÚV

Hallgrímur Óli Helgason, 10.9.2007 kl. 21:58

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Hallgrímur.

Já, Jane var stórglæsileg leikkona og þessar gömlu góðu myndir klikka aldrei.

Missti því miður af þættinum um Grace, þurfti að fara á tónleika í kvöld en horfi bara á endursýninguna um helgina. Var þetta ekki fínn þáttur?

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.9.2007 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband