Veðramót

VeðramótÉg er orðinn kvikmyndagagnrýndandi á kvikmyndavefnum film.is og mun þar ennfremur skrifa um kvikmyndir frá víðu sjónarhorni í vetur. Það er orðið nokkuð um liðið síðan að ég var kvikmyndagagnrýnandi síðast og ánægjulegt að taka það að sér aftur. Fyrsta myndin sem ég skrifa um er Veðramót, kvikmynd Guðnýjar Halldórsdóttur.

Veðramót
Fátt hefur verið meira rætt í samfélaginu undanfarna mánuði en uppljóstranir um misnotkun á börnum og unglingum á heimilum fyrir vandræðaunglinga, og þá sem voru utangarðs í kerfinu, fyrir nokkrum áratugum. Þekktast er Breiðuvíkurmálið. Það er eðlilegt að í kjölfar þeirrar umræðu sé tekið á því viðfangsefni með áberandi hætti í nútímanum með því að sýna hvernig það líf hefur verið sem var á slíkum heimilum forðum daga.

Veðramót er kvikmynd sem sprettur fram sem sterk upplifun, sérstaklega í kjölfar umræðunnar sem skók samfélagið og vekur enn til umhugsunar um fortíðina. Það verður seint sagt að Veðramót sé áferðarfalleg mynd. Þar er sögð nöpur saga, þó með tilfinningu, sem skilar sér í gegnum alla hörkuna sem við blasir. Myndin er fyrst og fremst hrá, en líka hlý og hefur vissan húmorískan undirtón í og með.

Hún er þjóðfélagsádeila að sjálfsögðu, enda er nauðsynlegt að stuða vel með þeim sögum sem sagðar eru og gefa þeim líf. Hún fær enn sterkari grunn vegna þess að við sem sjáum hana vitum að hún er ekki skáldsaga í gegn, heldur á hún sér grunn sannleikans. Þetta er raunveruleiki sem er nístandi sannur. Hann er sár og beiskur í senn og sú tilfinning skilar sér. Við hugsum um myndina langa stund á eftir.

Guðný Halldórsdóttir hefur átt brokkgengan feril sem leikstjóri, bæði gert lélegar myndir og góðar – líka miðlungsmyndir. Veðramót er þó hennar besta verk; greinilega byggð á hugsunum sem hafa fylgt henni lengi, um er að ræða verk ástríðu sem hún vildi koma til skila. Ástríðuverk verða alltaf sannari en önnur verk og það skilar sér sannarlega til áhorfandans sem fær innsýn í raunverulegan heim.

Leikurinn er leiftrandi sannur og varla veikan blett að sjá. Ungir leikarar fá þar góð tækifæri til að sýna kraft sinn. Stjörnur myndarinnar eru fyrst og fremst Hera Hilmarsdóttir, sem túlkar Dísu með miklum krafti – er sönn og leiftrandi í túlkun sinni og Jörundur Ragnarsson sem er stórkostlegur í hlutverki hins seinþroska Samma. Hann túlkar misþroska Samma af mikilli snilld og snertir streng í brjósti áhorfandans svo sannarlega. Bæði vinna þau Hera og Jörundur sannan leiksigur í hlutverkum sínum.

Hilmir Snær Guðnason er rafmagnaður sem Blöffi – það gustar sannarlega af honum í hlutverkinu - og Tinna Hrafnsdóttir sýnir góða takta í hlutverki Selmu. Helgi Björnsson er mjög öflugur í rullu föður Selmu og færir því hlutverki mikla dýpt. Ungu leikararnir eru misjafnlega góðir, en sýna að þau eru flest efnileg og geta túlkað af tilfinningu. Þau greinilega þroskast vel undir verndarvæng Guðnýjar og flest þeirra eiga framtíðina fyrir sér í bransanum.

Kvikmyndatakan er algjörlega óviðjafnanleg – fegurð landslagsins undir jökli, bæði hrikaleg sem og notaleg, kemst til skila með meistarabrag og skapar mikilvægasta rammann utan um heildarmyndina. Tónlist Ragnhildar Gísladóttur er virkilega vel gerð og skapar það andrúmsloft sem mestu skiptir til að skapa þennan löngu liðna tíma blómabarnanna. Lagið Söknuður í flutningi Bryndísar, dóttur Ragnhildar, er þeirra best og situr eftir langa stund á eftir.

Helsti veikleiki myndarinnar er klippingin að mínu mati. Það verður nokkur stór galli í heildarmyndinni. Mér fannst hún hefði getað verið fagmannlegri og skarpari. Sum atriði standa einum of lengi og meiri skerpa hefði mátt vera í þeim lokafrágangi að mínu mati til að gera myndina því sem næst fullkomna. Þessi galli stendur áþreifanlega eftir að lokum.

Myndin sem slík er þó að mestu unnin með næmum hætti og virðingu fyrir söguefninu, því að koma skelfingu liðinna tíma til skila með áhrifaríkum hætti. Veðramót er þess eðlis að hreyfa við áhorfendum og hún segir sögu sem er átakanlega sönn. Það er ekki verið að þykjast neitt í frásögn og það er stærsti kostur myndarinnar.

Heilt yfir er Veðramót með bestu verkum í íslenskri kvikmyndagerð síðustu árin. Þetta er besta mynd Guðnýjar Halldórsdóttur til þessa og greinilegt að hún hefur vandað til verka og segir sögu sem henni er kær. Þess vegna er myndin svo áhrifarík sem raun ber vitni. Þetta er ástríðuverk - sönn upplifun sem situr lengi eftir í huganum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Stefán,

ég er að mestu sammála þér í gagnrýninni þó svo að ég hafi ekki hundsvit á klippingu bíómynda og ég hefði gefið myndinni fullt hús. Fyrirfram hafði ég ekki gert mér neinar væntingar til myndarinnar og átti sannast sagna ekki von á neinu. En myndin uppfyllti allar mínar væntingar, leikurinn í myndinni var frábær hjá öllum leikurunum en sannarlega stóð leikur þeirra Heru og Jörundar uppúr. Þau voru algjörlega frábær í hlutverkum sínum. Stundum fer maður í bíó og fer að upplifa allskonar tilfinningar í garð persónanna í myndinni, þegar það gerist þá hefur persónusköpunin tekis og leikarinn unnið vinnuna sína. Það sem mér var orðið illa við Dísu í lok myndarinnar ... !!!

Frábær mynd að öllu leyti nema því að það er óþolandi að hafa hlé ... 1/2 stjarna í mínus fyrir það!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 18.9.2007 kl. 18:23

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð orð um skrifin og ykkar pælingar um myndina.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.9.2007 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband