Friður og ró eftir áralöng átök í Heimdalli

Erla Ósk ÁsgeirsdóttirEftir margra ára hjaðningavíg og ólgu milli tveggja þekktra fylkinga virðist friður hafa færst yfir í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Erla Ósk Ásgeirsdóttir er sjálfkjörin sem formaður félagsins og ekki verður kosning í stjórn á aðalfundi nú á sjöunda tímanum. Friður og ró virðast því vera einkunnarorð næsta starfsárs. Vonandi veit þetta á gott og ber þess merki að nú taki fólk úr ólíkum áttum loksins upp það samstarf sem skiptir lykilmáli til að efla starf félagsins og vinna hlutina samhent og vel.

Ekki veitir af eftir öll hörðu átökin sem staðið hafa meira og minna allan þennan fyrsta áratug 21. aldarinnar og verið umfjöllunarefni nær ávallt á þessum tímapunkti ársins. Örlög Heimdallar hafa verið örlög SUS til fjölda ára vegna yfirburða þess í ungliðastarfinu. Af því leiðir að við á landsbyggðinni höfum fylgt með í þeim darraðardansi öllum og það hefur haft sínar hæðir og lægðir. Sennilega var mesti hasarinn í þeim efnum árið 2003, er deilur um aðalfund fóru fyrir miðstjórn, og í átökunum í stjórnarkjöri á aðalfundum 2004 og 2005 þegar að Bolli Thoroddsen var kjörinn formaður og í fyrra er Erla Ósk vann Heiðrúnu Lind. Varla er þörf á að rifja það upp.

Ég held að það hafi ekki gerst í ein sex ár að svona friður hafi ríkt þarna og ég fagna því að fólk hafi náð þeim stað á ferðalaginu að sætta sig við hvort annað. Kannski upp að vissu marki bara, en samt sem áður að geta unnið saman. Það er stór áfangi fyrir vissa aðila þarna. Mér hefur alla tíð fundist þessi fylkingamyndun mjög leiðigjörn og erfið viðfangs, en hún ríkti allan tímann sem ég sat í stjórn SUS og hafði varað mun lengur. Enda eru þetta sögulegar fylkingar sem of langt mál væri að fara yfir hér í stuttri bloggfærslu.

Ég vil óska Erlu Ósk og nýrri stjórn góðs gengis í verkunum á næsta starfsári og vona að þau nái öll góðum takti saman til framtíðar, hvað svo sem fortíðin hefur haft í för með sér fyrir þau og fylkingarnar sem þau tilheyra. Það skiptir Sjálfstæðisflokkinn og Samband ungra sjálfstæðismanna verulega miklu máli í þeim verkefnum sem framundan eru á næstu árum að þetta fólk fari að vinna saman og yfirstíga þær undarlegu deilur sem fortíðin hafði í för með sér.


mbl.is Heimdellingar kjósa nýja stjórn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Algjörlega sammál þarna/þetta mög gott mál/þetta unga fólk er framtíðin!!!!Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 27.9.2007 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband