Varabæjarfulltrúi yfirgefur Sjálfstæðisflokkinn

María Egilsdóttir María Egilsdóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og varaformaður félagsmálaráðs Akureyrarbæjar, hefur sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn og beðist lausnar frá trúnaðarstörfum í nafni flokksins. Þóra Ákadóttir, fyrrum forseti bæjarstjórnar, sem sat í bæjarstjórn 2001-2006, hefur aftur pólitíska þátttöku og mun taka sæti Maríu í félagsmálaráði, en hún átti þar sæti árum saman, allt þar til að hún ákvað að hætta þátttöku í stjórnmálum í aðdraganda kosninganna á síðasta ári.

María skipaði sjötta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningunum 2006 og náði því sæti, mörgum að óvörum, í frægu prófkjöri flokksins sem haldið var í febrúar 2006. María segir skilið við flokkinn vegna Sómatúnsmálsins svokallaða, en faðir hennar, Egill Jónsson, tannlæknir, hefur átt í málaferlum við Akureyrarbæ. Það er mál sem snýst um húsbyggingu við Sómatún í Naustahverfi en hús voru þar mishá og deilur hófust vegna þess og munu fara fyrir dómstóla þar sem ekki náðist sátt milli aðila.

María hafði aldrei tekið þátt í stjórnmálum í aðdraganda kosninganna á síðasta ári og hún var ekki þekkt í aðdraganda prófkjörsins fyrir starf innan flokksins. Sumir hafa sagt að það hafi hjálpað henni að eiga ekki að baki mikla sögu innan flokksins og í ljósi þess hafi margir valið hana sem sinn fulltrúa ofarlega á lista. Margar sögur hafa gengið um upphaf stjórnmálaferils hennar og eflaust ekki rétt að fara yfir þær allar hér. Það vekur þó mikla athygli að hún segi skilið við flokkinn og forystumenn hans á þessum tímapunkti, en deilur í þessu máli hafa staðið bakvið tjöldin um skeið.
 
Það hlýtur að teljast áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér á Akureyri að sjá á bak varabæjarfulltrúa á þessum tímapunkti og með þessum hætti. Kannski umfram allt fyrir þá sem töldu mikilvægt að María kæmi ný inn til verka án pólitískrar reynslu ofarlega á lista, framar þeim sem kalla hefði mátt ungliða innan Sjálfstæðisflokksins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Huld S. Ringsted

Æ það er leiðinlegt þegar hlutirnir fara svona en peraónulega finnst mér að maður eigi ekki að láta prívatlífið hafa áhrif á vinnuna, stjórnmál eru jú ekkert annað en vinna.

Huld S. Ringsted, 27.9.2007 kl. 20:28

2 Smámynd: Gísli Aðalsteinsson

Mér þykir það leiðinlegt að María treysti sér ekki til að vinna með forystu sjálfstæðismanna á Akureyri. Það er missir fyrir alla akureyringa þegar hæft fólk hverfur úr stjórnmálum í bænum.

En það er eitt sem ég skil ekki:

Þann 10. mætir María á fund í Félagsmálaráði. Þann 19. er bara annar fulltrúi sjálfstæðismanna og enginn varafulltrúi fyrir hönd Maríu. Þann 24. mætir Þóra Ákadóttir. Hvenær ákvað bæjarstjórn að Þóra tæki við Maríu? Ef Bæjarstjórn tók ekki þá ákvörðun hver tók hana þá? Er einhver annar en Bæjarstjórn sem framselur valdi Bæjarstjórnar til fólks í nefndum? Þetta er örugglega óþarfa smámunarsemi en þetta fær mig allavega til þess að hugsa.

Gísli Aðalsteinsson , 27.9.2007 kl. 22:21

3 Smámynd: HP Foss

sammála

HP Foss, 27.9.2007 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband