Stefnir Ólafur Ragnar á fjórða kjörtímabilið?

Ólafur Ragnar Grímsson Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gaf eins og kunnugt er enga yfirlýsingu um framtíð sína á forsetastóli við þingsetningu. Er ekki við öðru að búast en að þetta gefi sögusögnum um að hann stefni að vist á Bessastöðum fjórða kjörtímabilið í röð byr undir báða vængi. Þar sem að Ólafur Ragnar var alþingismaður til fjölda ára var ekki undarlegt að margir töldu að ræðustóll Alþingis yrði vettvangur yfirlýsingar af einhverju tagi.

Eins og vel er kunnugt er von á ævisögu Ólafs Ragnars á næstu vikum, sem er færð til bókar af Guðjóni Friðrikssyni. Verður áhugavert að sjá hvaða bragur verði á þeirri bók. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins var því velt fyrir sér hvort að Ólafur Ragnar tilkynnti um fyrirætlanir sínar af friðarstóli á Bessastöðum í ávarpi á nýársdag. Það má vissulega vel vera að þar muni Ólafur Ragnar tilkynna að hann ætli að hætta, eða jafnvel gefa kost á sér aftur. Kristján Eldjárn og Ásgeir Ásgeirsson tilkynntu báðir ákvörðun sína um að hætta í nýársávarpinu en Vigdís gerði það í þingsal á þingsetningardegi.

Það má búast við því að ævisaga Ólafs Ragnars verði ein vinsælasta bókin fyrir þessi jól. Stíllinn á bókinni mun vekja athygli; verður þetta settleg yfirferð yfir hæðir og lægðir Ólafs Ragnars á áratugulöngum ferli hans sem umdeilds stjórnmálamanns og þjóðhöfðingjans á Álftanesi, eða bók þar sem engin tæpitunga er töluð um átakamál - uppgjörsmál á það sem gerst hefur á síðustu árum sérstaklega; t.d. fjölmiðlamálið þar sem ÓRG beitti 26. grein stjórnarskrár í beinni útsendingu fjölmiðla? Þetta eru spurningar sem velt verður fyrir sér vissulega.

Framganga Ólafs Ragnars á alþjóðavettvangi síðustu mánuði hefur vakið athygli. Hefur þar frekar virst maður í leit að nýju verkefni í fjarlægri heimsborg heldur en þjóðhöfðingi sem talar með sannfæringu fyrir hönd heillar þjóðar. Sérstaklega vakti ferð hans til Washington nýlega mikla athygli og hann hefur fundað með Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og fleiri aðilum í bandarísku þingstarfi. Það væri ekki undarlegt þó því væri velt fyrir sér að Ólafur Ragnar horfði annað en vildi halda þeim möguleika enn opnum að fara fram.

Það er ekki óeðlilegt að því sé velt fyrir sér hvert hugur Ólafs Ragnars stefndi og víst er að flestir fylgdust vel með ræðunni, enda vel vitað að brátt verði ljóst hvað hann ætlast fyrir. Mér fannst glott vera á andliti hans við lok ræðunnar í þingsal í gær, enda vissi hann vel að með hverju orði væri fylgst. Það varð fljótt ljóst að þetta yrði ekki ræða stórtíðinda á forsetaferli hans, þó að vissulega hafi ÓRG flutt góða ræðu í gær, sérstaklega hvað varðar þann hluta sem tengdist íslenskunni, okkar mesta djásni.

Ólafur Ragnar hefur oft kunnað á tímasetningar á forsetaferli sínum og er vel fókuseraður. Hann er mjög líklegur til að vilja tilkynna ákvörðun sína um framtíðina í þjóðhöfðingjahlutverkinu og vilji ekki feta í fótspor annarra í þeim efnum. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. En hitt er víst að kjaftasagan um fjórða kjörtímabilið lifir betra lífi nú en sú að hann ætli sér að hætta að vori.

Ætli að ævisagan margnefnda verði ekki bara settlegt spjall yfir kaffibolla, frekar en uppgjör manns sem er með sigg á sálinni eftir pólitísk átök fortíðarinnar? Fróðlegt verður að sjá annars.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

Þó ég hafi kosið hann og skilað auðu síðast þá vil ég hann áfram af einni ástæðu. það kostar minna heldur en að fá nýjan og hafa tvo á launum þegar við getum haft einn. 

Fannar frá Rifi, 2.10.2007 kl. 11:35

2 identicon

Ég verð nú að segja að mér líkar bara nokkuð vel við Óla grís í þessu starfi. Hann hefur greitt götu margra í viðskiptum erlendis og fær meira að segja far til útlanda með auðmönnum til að spara ríkinu fé. Sparnaður á almannafé er þó kannski ekki ástæðan en það er góð afleiðing! Auk þess er ágætt að vera ekki með marga á framfæri við það að sinna starfi forseta.

Bestu kveðjur í bæinn,

Stefán Þór (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 18:58

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Fannar: Það er auðvitað alltaf ljóst að við þurfum að hafa fleiri en einn forseta á eftirlaunum. Það breytist varla á næstum fjórum árum. Eru varla rök í sjálfu sér. Það á einfaldlega að festa í stjórnarskrá hámarkstíma í embættinu. Þetta á ekki að verða konungsembætti.

Stefán: Takk fyrir kveðjuna frændi og kommentið.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.10.2007 kl. 00:00

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

Hinsvegar eru alltof margar kosningar. lengd kjörtímabilsins ætti að vera lengt upp í 6 ár hið minnsta. það myndi fyrst spara okkur stórar fúlgur.

Fannar frá Rifi, 3.10.2007 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband