5.10.2007 | 11:42
No Reservations
Í kvikmyndagagnrýni á film.is skrifa ég um kvikmyndina No Reservations í leikstjórn Ástralans Scott Hicks og með Catherine Zeta-Jones, Aaron Eckhart, Abigail Breslin og Patriciu Clarkson í aðalhlutverkum.
No Reservations
Það er ávallt hressandi í miðri runu hasar- og ævintýramynda að sjá stöku sinnum raunverulegt drama með dassa af rómans og laufléttum undirtón - sanna og góða mynd með traustum kjarna, ekki bara vellublaður út í bláinn. Þannig mynd er hiklaust No Reservations. Gerði mér engar sérstakar væntingar svosem, þó að ég vissi að góðir leikarar væru þar vissulega í frontinum og myndin væri byggð á góðri evrópskri mynd sem ég hef oft séð. Gat því varla klikkað, en það hefur þó stundum klikkað rosalega feitt þegar að evrópskar myndir eru ameríkanseraðar. Það verður ekki í tilfelli No Reservations.
No Reservations er bandarísk endurgerð þýsku kvikmyndarinnar Bella Martha frá árinu 2001. Í stað þess að sögusviðið sé Hamborg erum við nú komin til gömlu góðu New York, sem Sinatra söng svo fallega um og Allen hefur gert ódauðlega á hvíta tjaldinu. Segir frá listakokknum Kate Armstrong, sem haldin er fullkomnunaráráttu um starf sitt. Eftir að hún missir stjórn á skapi sínu við matargest sendir yfirmaðurinn hana í meðferð hjá sálfræðingi til að reyna að vinna úr augljósum vandamálum. Systir Kate, sem hefur verið nánasta tenging hennar við lífið utan vinnunnar, deyr snögglega í bílslysi og hún erfir systurdóttur sína. Í ofanálag eignast Kate nýjan vinnufélaga, kokkinn Nick, sem á eftir að hafa jákvæð áhrif er yfir lýkur.
Í heildina er þetta notaleg og vel gerð mynd. Leikstjórinn Scott Hicks á að baki gloppóttan leikstjóraferil. Hann gerði t.d. hina frábæru Shine (sögu píanósnillingsins David Helfgott sem skartaði Geoffrey Rush í óskarsverðlaunahlutverki), Snow Falling on Cedars og Hearts in Atlantis. No Reservations markar endurkomu hans í bransann eftir að hann tók sér pásu fyrir nokkrum árum og hann heldur vel utan um þræðina að mestu leyti. Leikhópurinn er traustur. Catherine Zeta-Jones glansar í hlutverki Kate, eins og svo oft áður. Er hennar besta mynd frá því að hún fékk óskarinn fyrir að leika skassið Velmu í Chicago að mínu mati.
Aaron Eckhart túlkar karakter ítalska kokksins Nick með tilþrifamiklum hætti. Það er sérstaklega gaman að sjá hann reyna við óperuaríurnar. Eckhart hefur verið þekktur fyrir bæði aðal- og aukahlutverk í myndum, sennilega þekktastur fyrir að leika George, sambýlismann Erin Brockovich, fyrir um áratug, og Nick í Thank You For Smoking. Hann passar vel við hlið Zetu og Breslin í þessari hugljúfu mynd og þau fúnkera öll vel saman, eiga fínan neista sem tríó. Patricia Clarkson passar mjög vel í hlutverk yfirmannsins Paulu. Clarkson hefur lengst af verið í bakgrunni kvikmynda, var fyrst sýnileg í The Untouchables en toppaði seint og um síðir fyrir nokkrum árum í Pieces of April.
Ungstirnið Abigail Breslin, sem heillaði alla með frábærri túlkun sinni á smellnu dúllunni Olive í Little Miss Sunshine og fékk óskarsverðlaunatilnefningu fyrir, er sú rétta í hlutverk systurdótturinnar Zoe, sem Kate erfir sisvona. Breslin sýnir flotta takta og sannar að hún er sannarlega á framabrautinni í bransanum. Zoe kemur Kate sannarlega á jörðina og reynir á mannlegu taugarnar í þeim vinnualka sem hún er orðin. Sérstaklega er alveg magnað að sjá matinn sem listakokkurinn frænkan eldar handa stelpunni, en það er óhætt að segja að hún lifi einum of í gourmet-fæðinu. En Zoe laðast að Nick, sem nær með því til frænkunnar.
New York leikur lykilhlutverk í myndinni. Það er orðið nokkuð langt síðan að þessi yndislega heimsborg hefur verið flottari í kvikmynd en þarna. Myndatakan er vel heppnuð og öll umgjörð myndarinnar er virkilega vönduð. Heildarmyndin er öll hin besta. Handritið er kannski gloppótt að vissu marki, alls ekki fullkomið, en það er freistandi að líta framhjá nokkrum áberandi göllum því að takturinn í myndinni fangar mann. Hún er hvorki of væmin né tapar sér í oftúlkuðum húmor. Þarna mætast andstæður á miðri leið og útkoman er áhugaverð, heldur manni við efnið sannarlega.
Í heildina er No Reservations ágætis yndisauki í haustrokinu og ætti að passa vel við á ágætisbíókvöldi. Leikhópurinn nær vel saman og umgjörðin er vel gerð í heildina. Það er oft sagt að einfaldar myndir geti verið ágætar með þeim stóru. No Reservations passar vel fyrir þá sem leita eftir rólegu og notalegri stund með mannlegu yfirbragði, um kosti og galla hversdagslífsins. Það verður seint sagt að No Reservations toppi þýska forverann yndislega, en það var þó varla tilgangurinn.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Ég væri sko alveg til í að sjá þessa núna, en kemst ekki í bíó helgarkveðja norður
Ásdís Sigurðardóttir, 5.10.2007 kl. 13:07
Já, Ásdís mín, ég mæli hiklaust með þessari mynd. Virkilega góð.
Hafðu það gott um helgina. :)
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 5.10.2007 kl. 16:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.