Gordon Brown missir kjarkinn á örlagastundu

Gordon Brown Það verður ekki um það deilt að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hefur veikst mikið pólitískt við það að renna á rassinn með misheppnað kosningadaður sitt. Hann leit út eins og heigull í viðtali vegna málsins í gær er hann blés af kosningarnar sem allir töldu að yrðu 1. eða 8. nóvember. Brown hafði aldrei neitað kosningaorðrómi beint og fór í gegnum flokksþing Verkamannaflokksins án þess að slútta talinu og ýtti frekar undir það með óbeinum en þó áberandi hætti.

Það blasir við öllum að nánustu samherjar forsætisráðherrans voru að undirbúa kosningar á næstu vikum og strategían var komin á fullt á bakvið tjöldin. Stóra ástæða þess að Brown hættir við allt saman á elleftu stundu er að David Cameron og Íhaldsflokknum tókst að komast vel frá flokksþinginu í Blackpool og náði að byggja upp stemmningu í kringum sig. Það sýna nýjustu kannanir. Annaðhvort eru flokkarnir á pari eða að Íhaldsflokkurinn mælist ívið stærri. Í lykilkjördæmum eru íhaldsmenn að ná nokkru forskoti og þegar að við bætist að íhaldsmenn eru líklegri til að kjósa er skiljanlegt að Brown hafi ekki þorað í slaginn.

Eftir allt sem á undan er gengið lítur mjög illa út fyrir Gordon Brown að hopa af velli. Hann hafði upplifað 100 sæludaga í Downingstræti og hafði á sér ímynd hins ósigrandi keisara í bardaganum yfirvofandi. Á nokkrum dögum hefur forsætisráðherranum og ráðgjöfum hans tekist að snúa taflinu við og klúðra þeirri ímynd með mjög áberandi hætti. Eftir stendur beygður forsætisráðherra sem þorði ekki að fara til þjóðarinnar og biðja um endurnýjað umboð. Það er eðlilegt að horft hafi verið til kosninga. Forsætisráðherrann Tony Blair sem bað um endurnýjað umboð til starfa árið 2005 gat ekki staðið við loforðið um að sitja tímabilið á enda og var sparkað út af Brown og lykilmönnum hans. Brown tekur við embættinu út á umboð Blairs.

Það var líka vandræðalegt hvernig að Brown tilkynnti endalok kosningadaðursins sem stóð of lengi. Hann bauð einum fréttamanni BBC til viðtals sem átti að birtast á sunnudegi. Fréttir af því láku út og íhaldsmenn náðu að komast á snoðir um hvað væri að gerast og skúbbuðu fréttinni miklu. BBC ákvað við svo búið að birta fréttina og allt lak út á laugardeginum, rúmum tólf tímum áður en viðtalið var sýnt í heild sinni. Um leið og BBC birti klippuna með yfirlýsingu forsætisráðherrans var David Cameron kominn í alla fjölmiðla og svaraði lið fyrir lið vandræðagangi Gordons Browns. Hann fékk því sviðsljósið svo um munaði.

Það er skiljanlegt að ólga sé innan Verkamannaflokksins. Þetta er ævintýralegt klúður fyrir forsætisráðherrann eftir draumabyrjun, þetta er heimatilbúið klúður nánustu fylgismanna Gordons Browns - hópsins sem hann valdi til að byggja undir sig sem sterkan leiðtoga sem gæti fært Verkamannaflokknum fjórða kjörtímabilið með kraftmiklum hætti. Strategían mikla sprakk framan í Gordon Brown. Vandræðagangur einkennir þessa ákvörðun og andstæðingarnir standa eftir sem sigurvegarar helgarinnar. Það eru þungir þankar í Downingstræti.

100 dögum eftir brotthvarf Tony Blair af hinu pólitíska sviði lítur eftirmaður hans út sem kjarklaus klúðrari örskömmu eftir að hann var með pálmann í höndunum. Hversu harkalegt áfall fyrir Gordon Brown verður þetta misheppnaða kosningadaður metið og hversu lengi mun skuggi þess elta hann? Það er stóra spurning helgarinnar. Eftir stendur leiðtogi sem hefur á nokkrum sólarhringum séð unnið tafl snúast gegn sér.

mbl.is Brown sakaður um að koma fram við Breta eins og „bjána“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband