Dorrit og Baugsmiðlarnir takast á af mikilli hörku

Ólafur Ragnar og Dorrit Sú var tíðin að sterkar taugar lágu á milli DV og húsbóndans á Bessastöðum, svo sterkar reyndar að blaðið lék lykilhlutverk í frásögn af dramatískri heimkomu forsetans frá Mexíkó á örlagastundu í fjölmiðlamálinu árið 2004. Nú andar köldu á milli aðila, svo eftir er tekið víða. DV birti frétt í dag þar sem segir að forsetafrúin, Dorrit Moussaieff, hafi borgað verðlaun sem eiginmaðurinn, forsetinn sjálfur, hafi fengið fyrir framlag sitt til umhverfismála.

Þetta vakti nokkra athygli mína í dag, enda hefur DV löngum verið blað sem hefur horft með virðingu og aðdáun til alls þess sem frá Ólafi Ragnari Grímssyni hefur komið, fyrir og eftir fjölmiðlamálið margfræga. Dorrit (eða forsetaembættið sem slíkt með sérfræðinginn og eða forsetaritarann Örnólf Thorsson í broddi fylkingar) beið ekki lengi boðanna og svaraði fyrir sig í beittri yfirlýsingu þar sem segir í nafni Dorritar að fréttin hafi verið röng og særandi fyrir hjónin á Bessastöðum, svona sérstaklega á miðju ferðalagi um heimsins höf. Sú yfirlýsing er mjög hvöss og greinilegt að andar köldu milli aðila eftir þessa frétt.

Flestir muna væntanlega eftir fjölmiðlamálinu, sem fyrr er nefnt. Á örlagastundu fyrir þrem árum í því harki öllu birtust í DV ítarlegar fréttir af því að forsetinn, sem staddur var í Mexíkó og átti að lokinni heimsókn sinni þangað að fara í brúðkaup Friðriks, krónprins Danmerkur, ætti að halda þegar í stað heim og minna á stöðu sína og taka afstöðu með því að sýna nærveru sína meðan á þingumræðunni stæði. Það tók afstöðu með forsetanum og því að hann kæmi heim og sýndi hver réði nú eiginlega, hvort þetta væri bara valdalaus fígúra eður ei. Ólafur beið ekki boðanna og hélt heim á leið undir hvatningarorðum DV.

Flaug hann í 14 tíma frá Mexíkó til Parísar og loks til Keflavíkur. Enginn vafi lék á því að hann vildi með þessu minna á bæði sig og sína nærveru meðan þingið væri að vinna að málinu. Kom forseti heim í kastljósi fjölmiðla og varð heimkoma hans aðalfréttaefni fjölmiðla. Greinilegt var að fréttamönnum hafði verið tilkynnt beint um heimkomu forsetans, þegar fréttamenn fengu upplýsingar um að forsetinn væri farinn úr Leifsstöð, eltu þeir forsetabílinn til Bessastaða í von um að fá viðtal þar. Þegar nálgaðist Bessastaði vék forsetabíllinn út í kant, í þeim tilgangi einum að fréttamennirnir kæmust á undan til Bessastaða.

En þetta er önnur saga. Það eru aðrir andar sem eru sýnilegir nú. Nú lætur DV í sér heyra og þorir að hjóla í forsetann. Það eru breyttir tímar. Er þetta ástæðan fyrir því að forsetinn var svona fúll í kvöldfréttunum? Hann var rauður af reiði og sendi skot í allar áttir. Það er kannski varla furða að karlgreyið verði argur þegar að þeir fjölmiðlar sem þó hafa varið hann út í eitt snúa við blaðinu og láta í sér heyra. Það er greinilegt að menn eru ekkert hræddir lengur við að vaða í Ólaf, ekki einu sinni þeir sem helst hafa horft til hans af virðingu.


mbl.is Dorrit segir frétt DV móðgandi og særandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Nei Stefán. Nú ertu kominn á grátt svæði. Að halda því fram að ritstjóri DV
Reynir Traustason sé handbendi Baugsmanna, er út í hött! Þekki sveitunga
minn það vel og veit því að svo er alls ekki. Hins vegar er forsætisembættið
kannski að uppskera í dag sem það hefur kannski  sáð til á undanförnum
misserum......

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 9.10.2007 kl. 00:39

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það er ótrúlegt hvernig það endar alltaf í vandræðum í kringum þennan Reyni, mikið er ég glöð að leggja það ekki í vana minn að lesa greinar eftir hann.  Kveðja í norðrið fagra.

Ásdís Sigurðardóttir, 9.10.2007 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband