Ringo Starr kemur aftur til Íslands

Ringo Starr kemur til landsins 23 árum eftir að Bítillinn Ringo Starr sló í gegn með Stuðmönnum á útihátíðinni í Atlavík er hann kominn aftur til landsins, nú til að verða viðstaddur er kveikt verður á friðarsúlu til minningar um félaga hans, John Lennon. Það vekur athygli að eiginkona Starrs, Barbara Bach, sem þekktust er fyrir túlkun sína á Anyu í Bond-myndinni The Spy Who Loved Me er ekki með í för.

Ég var staddur í Atlavík á hátíðinni 1984 og man nokkuð vel eftir atriðinu með Stuðmönnum og Starr. Þetta var mikið fjölmiðlashow frá a-ö, enda vissulega stórviðburður að fá Bítil til landsins, en ég held að það sé alveg örugglega rétt að hann er eini Bítillinn sem hefur komið fram á sviði hérlendis. Það getur varla annað verið. Allavega er þetta í minningunni sem mjög eftirminnileg stund. Það var eins og þjóðhöfðingi væri eiginlega kominn til landsins, svei mér þá.

Enn er talað um hvort að Sir Paul McCartney komi til landsins. Það yrði óneitanlega mjög skemmtilegt ef bítlarnir tveir sem enn eru á lífi kæmu báðir til landsins. Það eru 27 ár liðin frá dauða Lennons og George Harrison lést í upphafi aldarinnar. Þó að gullaldardagar Bítlanna séu löngu liðnir er enn mikill ljómi yfir Bítlunum í huga allra sem meta tónlist. Það er stórviðburður að mati allra sem meta þessa miklu tónlist að einhverjir úr hópnum komi hingað.

Það er reyndar mjög dapurt að Bítlarnir komu aldrei til Íslands á ferli sínum sem heild til að halda tónleika. En það er samt mikil bítlastemmning yfir landinu á þessum afmælisdegi Lennons. Minningu hans verður sýndur mikill sómi með því að kveikt verður á friðarljósinu. Hann hefði orðið 67 ára í dag og ánægjulegt að frá þessum degi verði friðarljómi Lennons sýnilegur frá Reykjavík til bæði austurs og vesturs.

mbl.is Ringo kominn til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband