Dramatísk atburðarás í borgarmálunum

Dagur, Svandís og Bingi Dramatíkin hefur verið í aðalhlutverki í borgarmálum síðasta sólarhringinn. Atburðarásin á bakvið það sem enginn átti von á, en mátti þó jafnvel ljóst vera eftir borgarstjórnarfundinn á miðvikudag, er óðum að skýrast og bitarnir að ná saman. Lykilþáttur Alfreðs Þorsteinssonar í meirihlutasamstarfinu nýja verður líka sífellt skýrari, hann var þar maðurinn sem lék hjúskaparmiðlarann með glott á vör, sá þar tækifæri til hefnda.

Heilt yfir blasir við hversu mjög sjálfstæðismenn voru heiðarlegir við Framsókn, meira að segja eftir mjög loðna ræðu Björns Inga Hrafnssonar í borgarstjórn, þar sem þegar mátti sjá merki þess að hann horfði á önnur mið. Sjálfstæðismenn reyndu að leysa málin með heiðarlegum hætti á meðan að Björn Ingi sat á svikráðum með öðrum aðilum. Það hlýtur að teljast sómi sjálfstæðismanna að falla á sannfæringu sinni en um leið hefur Björn Ingi Hrafnsson styrkt stöðu sína til fullra metorða innan Framsóknarflokksins með ómerkilegum klækjum af áður óþekktri gráðu. Hann fylgir leiðsögn læriföðurins sem leiddi brotin fjögur til sex saman.

Það virðist enginn innan nýs meirihluta geta sagt hvað standa margir flokkar að honum. Þeir eru allt frá því að vera fjórir til sex, eftir því hvað heiðarlegt mat nær langt í sjálfu sér. Það vekur líka athygli að í þessu einstæða andrúmslofti þar sem aldrei hefur verið myndaður meirihluti í Reykjavík án kosninga er slitið á undarlegum forsendum. Það er ekki undrunarefni að sá orðrómur vakni að Björn Ingi Hrafnsson sé að ganga erinda auðmanna og undarlegra sérhagsmuna. Öll atburðarásin kallar á að sá orðrómur vakni og verði eitthvað meira en eiginlega orðrómur í sjálfu sér.

Þegar eru ungliðar vinstri grænna farnir að láta í sér heyra. Þeir spyrja eðlilega tveggja lykilspurninga; hversvegna studdi Dagur B. Eggertsson að völdum aðilum yrðu veittir umdeildir kaupréttarsamningar? - og - muni Björn Ingi gera hreint fyrir sínum dyrum í orkumálunum?. Seinni spurningin vekur mikla athygli. Ég held að margir til vinstri séu með óbragð í munni yfir að taka upp samstarf við Björn Inga. Öllu er þar fórnað fyrir völdin og sérstaka athygli vekur hversu allt er fljótt fallið í ljúfa löð þar. Eftir öll stóru orðin gegn Birni Inga er öllu gleymt.

Ekki aðeins er Bjarni Harðarson orðinn eins og bráðið smjör gagnvart honum heldur líka vinstriöflin. Þar talar enginn lengur um að hann eigi að segja af sér vegna REI-málsins. Þvert á móti, nú ætla vinstriöflin að stjórna með honum. Mjög merkilegt. Reyndar mátti þegar sjá fléttu þess á miðvikudag að vinstrimenn ætluðu að gleypa stóru orðin þar sem aðeins var ráðist að borgarstjóranum en ekki Birna Inga, sem þó sat í stjórn REI og var í miðri atburðarás allra þeirra ákvarðana sem vinstrimenn voru svo ósáttir með. Öll stóru orðin gegn Binga gleymdust til að eygja von um völd.

Hversu heilt verður samstarf þeirra sem leiða öflin fjögur? Það verður stærsta spurning næstu 30 mánaða. Björn Ingi er í mjög undarlegri stöðu. Nú þarf hann að fara að semja við þá sem harðast hafa gagnrýnt hann og leita þess að koma sínum málum á dagskrá þar. Sum þeirra hafa verið hörð átakamál í borgarstjórn. Er pólitískt mannorð Björns Inga ekki stórlega skaddað? Hversu sterkur forystumaður er Margrét Sverrisdóttir? Fornir félagar hennar á meðal frjálslyndra gremjast sárlega yfir vegtyllum hennar. Henni hefur verið bjargað, þeim til sárra vonbrigða.

Þessi meirihluti er skrýtinn grautur í sjálfu sér. Margt í kringum hann orkar tvímælis. Hann er málefnalega tómlegur að sjá, fulltrúar aflanna gátu engum spurningum svarað í gær nema sem snerust um það hvernig gekk að skipta embættum og horfa eitthvað áfram með REI. Öll grunnatriði málanna standa eftir hálfkláruð utan garðs. Þar verða alvöru viðfangsefni og fróðlegt verður að sjá hvernig að Binga gangi að vinna með þrem framboðum, sumum með óljósan grunn, fyrst hann strandaði á samstarfi við einn.


mbl.is Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi féllust í faðma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein mjög!!! en það er svona að þegar um völd er að ræða næsta einvörðungu,þá helst þetta oft lengi bara á þvi/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 12.10.2007 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband