Er Björn Ingi að ganga erinda auðmanna?

Björn Ingi
Enn hefur Björn Ingi Hrafnsson ekki komið með neinar trúverðugar skýringar á því af hverju hann ákvað að láta REI-málið verða örlagamál meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það hafði blasað við síðustu daga að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins vildi láta reyna á að ná samkomulagi og gekk heill til þess verks. Þess vegna höfðu engar formlegar viðræður hafist við neinn annan flokk og þess vegna biðu sjálfstæðismenn eftir Birni Inga. Heilindin réðu för. Kannski var það vitlaus pólitík en það er heiðarlegra að falla með þeim hætti.

Það eru aðeins lélegar útskýringar sem komu frá fundi framsóknarmanna. Bingi talar um að þreifingar hafi verið í gangi. Var hann ekki sjálfur í formlegum viðræðum við leiðtoga hinna flokkanna áður en meirihlutanum var slitið? Voru mögulegar viðræður einhverra sjálfstæðismanna formlegar samningaviðræður um meirihluta? Ef svo er væri gott að Bingi kæmi fram og segði betur frá því. Staðreyndin er sú að hefði slíkt verið í gangi hefðu sjálfstæðismenn ekki haldið heiðarlega til viðræðna um að leysa mál eins og þeir gerðu.

Ég held að óheilindi Björns Inga Hrafnssonar verði lengi í minnum höfð. Svona eftirminnileg svik vekja athygli, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að ekki höfðu farið fram kosningar og samstarfinu er slitið á mjög undarlegum forsendum á miðju kjörtímabili. Það er mjög óvarlegt að jafna þessu saman við endalok stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í vor, en þar höfðu farið fram kosningar og Framsókn hafði þar misst tæplega helming þingflokks síns og stóð veikur eftir, að vilja kjósenda. Það voru ekki sjálfstæðismenn sem veiktu Framsókn, landsmenn gerðu það með atkvæði sínu.

Í raun má hugleiða hvort að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hafi sterkt umboð. Bingi var úti nær alla kosningabaráttuna en halaðist inn á lokadögunum með miklum auglýsingum kostuðum af auðmönnum sem dældu peningum í framsóknarleiðtogann. Eins og auðmenn voru örlagavaldar í að tryggja kjör Binga má spyrja hvort að auðmenn hafi líka leikið lykilhlutverk í slitum meirihlutans í Reykjavík. Enn vantar alvöru skýringar á slitum meirihlutans og verklaginu. Svör Binga í dag eru loðin og ósannfærandi.

Í 16 mánuði hafa vinstriflokkarnir í Reykjavík barið á Birni Inga Hrafnssyni og Framsóknarflokknum æ ofan í æ, ekki bara í landsmálum heldur líka í borgarmálunum. Það er frekar fyndið að heyra þá mæra upp Binga núna og bjarga honum úr skítnum sem hann var kominn í. Fyrir þá sem standa utan flokkshitanna í borginni verður áhugavert að sjá þá hjónabandssælu sem fylgir meirihluta þessara fjögurra flokka.

Menn tala um hvort að Bingi hafi gengið erinda auðmanna, sérstakra sérhagsmuna. Það er freistandi að halda það í grunninn. En við lok alls þessa sjónarspils er ekki undrunarefni að menn hafi teiknað upp Björn Inga Hrafnsson sem Glanna glæp. Svo mikið er víst.

mbl.is Björn Ingi: Þreifingar fóru fram af hálfu sjálfstæðismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér heyrist þeir hafi nú bara gaman af þessu stríði frammararnir, Bingi orðinn versti óvinur Valhallar eins og hann segir sjálfur og tekur þar við titlinum af Alfreð.  Það hjálpar ekkert að fella tár í eigin hóp, það á ýmislegt eftir að koma upp á borðið, auðmenn eða ekki auðmenn, hér eru ekki heilindi í gangi.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.10.2007 kl. 18:44

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Menn tala um hvort að Bingi hafi gengið erinda auðmanna, sérstakra sérhagsmuna. Það er freistandi að halda það í grunninn", segir þú Stefán. Sjálfstæðismenn tala mikið um þetta.

Hvernig væri að upplýsa okkur um hvaða auðmenn þetta eru?

Og útskýra í leiðinni: Eru það einkaforréttindi sjálfstæðismanna að ganga erinda auðmanna - mega bara þeir!?

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.10.2007 kl. 18:50

3 Smámynd: Auðun Gíslason

Hvað með óheilindin að halda fundinn án Villa með Geir og Þorgerði.  Hvað gekk þeim til, Geir og Þorgerði?

Auðun Gíslason, 12.10.2007 kl. 20:39

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Villi er í slæmum málum, en Glanni er skúrkurinn og vonandi tekst Svandísi að píska hann til....he wants it!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.10.2007 kl. 23:17

5 identicon

Þetta er algjörlega sambærilegt við hvernig sjálfstæðismenn höguðu sér í vor, óheilindin þá snérust ekki um að tala við aðra flokka en Framsókn heldur hvernig var að staðið að því. Þegar formaður flokksins sagðist vera að tala við Framsókn um ríkisstjórnarsamstarf að fullum heilindum en var um leið að semja við annan flokk um ríkisstjórnarsamstarf. Þess vegna er mjög magnað að hlusta á sjálfstæðismenn núna hafa uppi stór orð um svik!!! Það er bara hlægilegt!!

kolbrún Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 07:02

6 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Klaufaskapur Sjalla og ótrúleg pólitísk blinda þeirra er ástæða þessa. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksin sýndi þjóðinni hvað gerist þegar pólitískir skussar reyna að leysa mál

Jón Ingi Cæsarsson, 13.10.2007 kl. 15:55

7 Smámynd: Guðmundur Jóhannsson

Kolbrún, í vor hélt stjórnin með einum manni.  Framsóknarmenn töpuðu stórt og veikur meirihluti Sjalla og frammara nánast fallin.  Eins manns meirihluti  er vonlaus eins og komið hefur margsinnis í ljós.  Eftir kosningar eru allir að tala við alla.  En þegar menn eru komnir í samstarf og búnir að undirrita stefnuskrá til fjögurra ára þá eru svona slit ekkert nema lákúra af grófustu gerð.  Engin heiðvirður pólutíkus mun vinna með svona manni í framtíðinni.  Ég skil því ekki VG í þessu samstarfi, ég hef alltaf talið má með þeim traustustu og áreiðanlegustu.  Þeir hafa bara ekki komist í meirihluta nema í Reykjavík og öðrum sveitarstjórnum.  Altent tel ég þá ábyggilegustu samstarfsaðila fyrir sjálfstæðismenn, auðvitað yrði erfitt að koma saman málefnasamningi VG og Sjalla.  En ég er viss um að þegar sá samningur yrði kominn á þá héldi  hann.  Þess vegana er sorglegt að VG skildu fara í þennan forarpitt og með veikasta stjórnmálamann allra tíma, Björn Inga.  Ég skil heldur ekki "vin" sem talar eins og Bingi um Vilhjálm, því í fjandanum studdi hann ekki vin sinn og mætti til fundar við hann, nei hann laug að honum og mætti freka hjá minnihlutanum, þvílíkur "vinur"

Ganga erinda einhverra er alltaf spurning, gengur ekki allt starf Framsóknarmanna um að sjá um sína.  Mín reynsla er sú. 

Guðmundur Jóhannsson, 13.10.2007 kl. 16:58

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Finnst blasa við að Bingi hafi verið að hygla auðmönnum. Eins og flestir vita leiðir Árni Magnússon fyrrum vonarprins Framsóknarflokksins orkuútrás Glitnis. Það eru sterkir þræðir. Auk þess er ljóst að eignarhaldsfélögin Landvar ehf. og Þeta ehf. eiga saman helmingshlut í VGK-Invest á móti verkfræðistofunni VGK-Hönnun og Rafhönnun, sem fari með um 5,75% hlut í Geysi Green Energy (GGE), en sá hlutur nemi um tveggja prósenta hlut í sameinuðu félagi GGE og REI. Verðmat á hlut VGK-Invest sé á bilinu 1,3-1,5 milljarðar króna. Helgi S. Guðmundsson, fyrrverandi formaður fjármálanefndar Framsóknarflokksins og bankaráðs Seðlabanka Íslands, er skráður stofnandi og forsvarsmaður Landvars ehf., sem fari með um 35% hlut í VGK-Invest.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.10.2007 kl. 19:41

9 identicon

Stebbi, Stebbi, Stebbi....

Þvílíkt yfirklór - það er greinilegt að Gísli Marteinn og Kjartan er svo í mun að finna einhver grunsamleg tengsl að þeir gripu bara eitthvað sem einhverjum datt í hug. 

Þeir fóru hins vegar bent fram hjá augljóstu tengslunum, þ.e. að fyrrverandi verðandi formaður Framsóknarflokksins, Árni Magnússon, starfar hjá Glitni, aðaleiganda Geysis við að stýra "umhverfsvænum" orkuverkefnum - væntanlega Geysi sjálfum.... 

En getur þú sagt okkur hversu margir Sjálfstæðismenn hefðu hagnast ef REI hefði verið selt strax?

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 20:46

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég hef ekki varið einn né neinn í þessu máli. Það verður að opna það algjörlega upp á gátt. Það er samt afleitt að Björn Ingi sem er einn af aðalarkitektum þessa máls, sem er svart í gegn, beri ekki ábyrgð á því. Það kemur að því tel ég með einum hætti eða öðrum. Fólki er stórlega misboðið á öllu þessu máli. Þetta er of svart til að það verði látið kyrrt liggja.

Það þarf enginn að segja mér að hagsmunir Árna Magnússonar, Finns Ingólfssonar og Helga Guðmundssonar hafi ekki skipt lykilmáli í afstöðu Binga að slíta meirihlutanum. Það eru öll merki um það núna og greinilegt að framsóknarmenn þaga frekar en verja þetta. Pétur Gunnarsson stóð sig t.d. mjög illa við að verja það í skrifum í dag.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.10.2007 kl. 00:10

11 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér Mundi fyrir gott innlegg. Sammála hverju einasta orði.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.10.2007 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband