Meirihluti tekur við völdum án málefnasamnings

Leiðtogar nýs meirihluta með rónunum Það var greinilegt í gær að nýr vinstrimeirihluti í Reykjavík var myndaður án málefnagrunns, þar var bitlingum aðeins skipt. Nú er ljóst að sami meirihluti mun taka við völdum án málefnasamnings á þriðjudag. Er það eftir því sem ég best veit einsdæmi í sögu Reykjavíkurborgar að valdaskipti eigi sér stað án þess að sameiginlegur málefnasamningur meirihlutastjórnar, eða heildstæð málefnayfirlýsing, liggi ekki á borðinu við valdaskipti.

Ég hélt í sakleysi mínu að sérstaklega Vinstrihreyfingin - grænt framboð væri að vinna af hugsjónum í stjórnmálum en stundaði ekki bitlingapólitík. Það hefur svo margoft verið sagt nefnilega af þeim sjálfum. Annað er upp á döfinni í Reykjavík. Þeir ætla sér að taka við völdum í borgarstjórn án þess að vera með málefnasamning og heildstæða samninga um lykilmál. Þetta vekur mikla athygli og verður kannski meginstef fyrir fjögurra framboða meirihlutann. Þetta verður kyrrstöðustjórn þar sem allt snýst um veikar málamiðlanir og reynt verður að sigla rólega í gegn, enda geta minnstu átök gengið frá því sem nógu veikt er fyrir.

Það er ekki undrunarefni að spurt sé um hvaða stefnu eigi að samtvinna fyrir þessi fjögur öfl um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, málefni Örfiriseyjar, einkaskólana og svona mætti lengi telja. Það vantar svosem varla hitamálið næstu 30 mánuði. Mér finnst samt skilaboðin sem felast í þeim stórfregnum að setjast eigi að völdum án þess að hafa samið um málefnin segja allt sem segja þarf um hvað sé aflið á bakvið meirihlutann. Þar er öllu fórnað fyrir völdin og svo á að sjá til síðar hvort að þetta reddist ekki. Þetta eru sterk skilaboð, sérstaklega þar sem þau gerast á vakt vinstri grænna sem hafa verið svo miklir hugsjónamenn að eigin sögn.

Svandís Svavarsdóttir er að fara mikinn á fundi félaga sinna við að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn og talar þar um að Valhöll geti ekki tekið á málum. Þetta er fyndinn boðskapur sem hún er að flytja yfir samherjum sínum. Af hverju talar hún ekki um málefnin sín, þau lykilþemu sem hún ætlar að standa vörð um innan REI-listans og þann málefnagrunn sem unnið er að? Vegna þess að málefnavinnan er annaðhvort ekki hafin eða á svo miklu frumstigi að þau geta ekki tekið helgina og mánudaginn í að setja saman málefnagrunn eða samning til verka.

Þetta er fyndin pólitík, en eitthvað segir mér að þetta verði pólitíkin sem REI-listans verður minnst fyrir að leiðarlokum. Þetta er bitlingapólitík sem Svandís er að standa fyrir í sinni raunverulegustu mynd.

mbl.is Svandís: „Valhöll getulaus í erfiðum málum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sælir

Þetta var hröð atburðarrás og þar af leiðandi gafst ekki tími til að vinna málefnasamning. Við skulum ekki örvænta, þessir flokkar eru vanir að vinna saman innan borgarinnar. Reykjarvíkurlistinn nýji mun standa sig.

mbk.

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 20:49

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég hef ekkert við það að athuga að flokkarnir ákveði að vinna saman einfaldlega á grundvelli verkaskiptingu, félagshyggju og þess sem þeir vita hver um annan.

Í raun þurfa hvort sem er öll úrlausnarefni yfirlegu þegar að þeim kemur og stjórnarsáttmálar geta allt eins þvælst fyrir samhentri stjórn eins og hitt. Stjórnarsáttmáli er nauðsynlegur ef ólík öfla ákveð að taka saman höndum og svo líka ef einstaklingarinir flæða illa og eru í raun vanhæfir til félagsþátttöku.

Helgi Jóhann Hauksson, 12.10.2007 kl. 21:07

3 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég vil að fari fram kosningar í Reykjavík. Það kemur í veg fyrir hrossakaup á miðju kjörtímabili. Mitt álit er að þegar búið er að mynda stjórn eftir kosningar verði að halda nýjar kosningar ef hún springur. Það kemur líka í veg fyrir að eins manns flokkur geti tekið þá sem honum sýnist í pólitíska gíslingu. Ég er með skoðanakönnun á minni síðu en þætti vænt um að sem flestir tækju upp á því sama. Lýðræði á ekki að snúast um baktjaldamakk.

Takk fyrir.

Benedikt Halldórsson, 12.10.2007 kl. 22:14

4 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Merkilegt að talsmaður flokks sem hefur aldrei verið með í meiruhlutasamstarfi á Alþing skuli tala svona.  Er þá ekki getuleysi að VG hafi ekki komist með í Ríkisstjórn?

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 12.10.2007 kl. 22:56

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Ólafur: Já, þetta er samt vandræðalegt. Það lítur aldrei vel út að meirihluti taki við án einhvers konar málefnagrunns eða málefnayfirlýsingar.

Helgi Jóhann: Já, þetta verður fróðlegt samkrull. En það er samt fyndið að sjá prinsipp VG gufa upp á einni nóttu. Þau töluðu alltaf um að þau væru ekki valdapólitíkusar en það hafa það sýnt og sannað að þau eru með verklaginu. Nú ætla þau að gleypa samrunann hráan. Blasir við.

Benedikt: Því miður eru kosningar bara á fjögurra ára fresti. En þannig er þetta bara. Það verður fróðlegt að sjá hversu lengi þetta samkrull endist annars.

Viðar: Sannaðu til, Viðar minn. VG mun leggjast flöt fyrir sameiningunni, sem hún gagnrýndi svo mikið. Það eru öll prinsipp gufuð upp svo að þetta verður ekki í veginum. Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi, galopnaði á stefnubreytinguna í Kastljósi í kvöld. Heldurðu að Bingi hafi skipt um meirihluta til að láta samrunann stöðvast? Ónei. Svandís samdi þetta af sér til að geta komist í meirihluta.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.10.2007 kl. 04:17

6 identicon

Stjórnmálamenn hafa rétt til að skipta um skoðun eins og aðrir sem betur fer, og þessi pólitíski rétttrúnaður er tímaskekkja.  Það þarf að leysa málefni fremur en að vera einhverri stefnu trúr fram í rauðan dauðann.  Stjórnmálaflokka ætti að leggja niður í þeirri mynd sem þeir eru í dag.  Og til hvers er verið að eyða peningum í stjórnarandstöðuna á Alþingi.  Við búum þrátt fyrir allt í lýðræðisríki. 

Bryndís Júlíusdóttir (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 11:36

7 identicon

Mér fannst þetta bara svo hlægileg og kjánaleg ummæli sem Svandís kom með, að ég gat ekki einu sinni bloggða um þau. ég bíð ennþá spenntur eftir málefnunum hjá þeim, en eins og kom fram í kastljósi í fyrradag, þá veit enginn hvenær við fáum málefnin á hreint, ég bíð spenntur, og hlæ í millitíðini að þessu fólki sem myndar núna meirihluta

mbk

Óli  

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 11:45

8 identicon

Stebbi, nú man ég ekki svo vel - en hvernig var staðan á málefnasamningi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks þegar það var kynnt að þessir flokkar myndu vinna saman?  Þú ert betur að þér í svona málum, en mig minnir að það hafi verið afskaplega klént þó að það hafi komið meira síðar. 

Og þú getur síðan upplýst okkur hvort þar hafi verið klásúla sem sagði að þegar Sjálfstæðismenn skipta um skoðun þá sé hægt að leysa málið ef Björn Ingi fellst á skoðun Sjálfstæðisflokksins!

Eitt svona að lokum sem kemur þessu ekki beint við.  Værirðu ekki til í að skrifa smá pistil, eins og þér einum er lagið, um það að gömul kenning um það að ekkert samstarf haldist nema þar komi Sjálfstæðisflokkurinn sé nú endanlega fallin.  Nú var tveggja flokka samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að springa, samstarf Sjálfstæðisflokks og - var það ekki líka framsókn - í Árborg sprakk áður en Eyþór fékk prófið aftur og svo man ég ekki betur en að það hafi verið Sjálfstæðisflokkurinn sem hrökklaðist út úr síðustu ríkisstjórn sem sprakk á miðju kjörtímabili!

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 14:42

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Bryndís: Já, það er greinilegt að stjórnmálamenn til vinstri eru fljótir að missa prinsippin sín þegar að völdin eru annarsvegar. Það hefur sannast síðustu dagana.

Óli: Já, það strandar heldur betur á málefnum. Þetta er vandræðalegt eftir öll fögru orð vinstri grænna sérstaklega um hugsjónir í stjórnmálum framar valdapoti.

Steingrímur: Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur náðu samkomulagi um málefnin áður en þeir tóku við. Það hefur aldrei gerst fyrr að meirihluti taki við án málefnagrunns. Málefnagrunnur þarf ekki að vera langt plagg svosem, getur verið upptalning helstu verka og ennfremur framtíðarsýn meirihluta til verka í stuttu eða löngu máli. REI-listinn tekur við völdum án málefna.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.10.2007 kl. 22:56

10 identicon

Stebbi - ég var ekki að tala um það hvernig staðan var þegar þeir tóku við - ég var að tala um þegar samstarfið var ákveðið og kynnt.  Nýji meirihlutinn er nú ekki tekinn við ennþá þannig að þú ættir að sjá til.

Þar fyrir utan þá hefur það heldur aldrei gerst fyrr að meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hafi sprungið.  Því má alveg eins halda því fram að málefnasamningur hafi aldrei verið til staðar þegar nýr meirihluti er kynntur á miðju kjörtímabili!

Það má líka tala um fullt af hlutum sem hafa ekki gerst áður - eins og að borgarstjórnarflokkur hafi farið og talað við formann flokksins án oddvitans, að menn viti ekki hver bað um fundinn og fjarveru oddvitans, að samstarfsflokkar lýsi því yfir að það sé auðvelt að leysa mál bara ef samstarfsaðilinn fallist á þeirra skoðun og margt, margt fleira.

Ég er einfaldlega að benda á að allt þetta sem þú ert að telja hérna upp til foráttu fyrir nýju meirihlutasamstarfi er í besta falli veik sjónarmið og önnur mál eru mun mikilvægari.

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 09:35

11 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég veit ekki betur en að það hafi jafnvel heyrst að meirihlutinn ætti að taka við án málefnagrunns og vinna þannig fram að fjárhagsáætlun. Það er ekki trúverðugt, sama hver í hlut á. Þetta eru fjögur ólík framboð og ef þau geta ekki náð saman um málefnagrunn er illa komið málum.

Það er eðlilegt að nýr meirihluti nái saman um lykilmál. Það þarf að mynda nýjan grunn til verka en ekki bara valda.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.10.2007 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband