Er Íslandshreyfingin í oddastöðu í borgarstjórn?

Margrét Sverrisdóttir Það var hlægilegt að sjá Ómar Ragnarsson, formann Íslandshreyfingarinnar, hreykja sér af því í hádegisfréttum Stöðvar 2 að flokkurinn væri kominn í oddastöðu í borgarstjórn er hin sjálfskipaða óháða Margrét Sverrisdóttir verður forseti borgarstjórnar. Það er eiginlega eðlilegt að þessum feluleik með stöðu Margrétar ljúki og fram komi hverjum hún eigi að tilheyra. Það er greinilegt að Ómar telur sig eiga hvert bein í oddamanni hins nýja meirihluta, svosem varla furða enda er hún varaformaður flokksins sem hann leiðir.

Á fimmtudag, er nýji Rei-listinn var myndaður, gat Margrét ekki sagt hverjum hún tilheyrði. Hún sagðist þó vera sem óháð, þrátt fyrir að vera varaformaður í stjórnmálaflokki, og tók sérstaklega fram að Frjálslynda flokknum hefði verið rænt í ársbyrjun. Margrét verður fyrsti forseti borgarstjórnar sem hefur umboð sem enginn skilur. Hún er borgarfulltrúi í nafni flokks, sem hún klauf til að ganga í annan. Það er varla von á að meðaljónar skilji svona pólitík. En Íslandshreyfingin eignar sér Margréti með húð og hár.

Hvaða umboð hefur Íslandshreyfingin annars? Það er ekki nema von að spurt sé. Þeim flokk mistókst að ná þingmanni í Reykjavík (Ómar og Margrét voru allnokkuð frá því að eygja möguleika á þingsæti) en sjá nú fram á oddastöðu í borgarstjórn Reykjavíkur hvorki meira né minna þrátt fyrir að hafa aldrei orðið að nokkru nema fallegu nafni á kosningaskiltum sem höfðu engin áhrif.

Það er ekki nema von að fólk sé gáttað á þessari stórundarlegu stöðu - jú nema kannski Ómar sem glottir vegna áhrifa sinna, án umboðs í kosningum, og Margrét sem að telur eflaust klukkustundirnar í að launaumslagið fitni svo um munar er hún verður einn valdamesti forystumaður Reykjavíkurborgar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hún getur bara ómögulega verið í Íslandshreyfingunni í borgarstjórn, þar sem sá flokkur bauð ekki fram í sveitarstjórnarkosningum. þannig að hann á ekkert í henni í borgarstjórn þó að hann eigi hana í landsmálapólitíkinni. það er nefnilega þannig að þetta eru tveir aðskildir hlutir. svo ég er sammála þér, það er hlægilegt að hann skuli segja þetta.

mbk

Óli 

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 14:50

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Eftir þessi orð verður litið á Margréti sem fulltrúa Íslandshreyfingarinnar í borgarstjórn. Hún er ekki óháð eftir þessi orð.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.10.2007 kl. 14:55

3 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Blessaður Stefán,
hún Margrét Sverris sagði einhversstaðar að hún mundi víkja sæti ef Ólafur F. Magnússon mundi snúa aftur. 

Þá hlýtur maður að telja að hún sé þarna í umboði Frjálslyndra, eða hvað????!!!!

Vilborg G. Hansen, 15.10.2007 kl. 15:10

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fróðlegt væri að sjá hvernig Margrét Sverrisdóttir telst "sjálfskipuð" í borgarstjórn. Ólafur F. Magnússon og hún unnu saman að því að mynda nýjan meirihluta og bæði voru réttkjörin sem 1. og 2. maður á F-listanum til að sitja í borgarstjórn.

Bæði sögðu sig síðar úr Frjálslynda flokknum og því er varla hægt að ætlast til þess að þau telji sig fulltrúa hans í borgarstjórn, eða hvað?

Upphaflega var Ólafur kjörinn sem "óháður" og Margrét hefur sagt að stefna Íslandshreyfingarinnar sé sú stefna sem hún hefði viljað að Frjálslyndi flokkurinn hefði.

Minna má á að fylgi Íslandshreyfingarinnar í síðustu kosningum hefði verið nægilegt til að koma tveimur mönnum á þing, báðum í Reykjavík, ef ekki hefði verið sérstakur þröskuldur settur til að meina 6000 kjósendum að atkvæði þeirra nýttust í hlutfalli við atkvæði annarra kjósenda.

Ég rakti aðeins staðreyndir í viðtalinu í hádeginu, þ. á m. að fimm af sex efstu mönnum á F-lista Frjálslynda flokksins OG ÓHÁÐRA eru nú félagar í Íslandshreyfingunni og háðu harða kosningabaráttu á hennar vegum í vor.

Hitt er líka ljóst að Íslandshreyfingin var ekki til þegar kosið var til borgarstjórnar 2006 og að einn af fulltrúum F-listans í nefndum borgarinnar er í Frjálslynda flokknum.

Meðan F-listinn kennir sig við frjálslynda og óháða sé ég ekki betur en að félagar í Íslandshreyfingunni rúmist vel innan þess hluta listans sem er "óháður."

Þetta fólk hefur unnið saman í borginni þrátt fyrir mismunandi aðstæður og það er eðlilegt hjá lista sem ber helminginn af nafni sínu í orðinu "óháðir."

Allt þetta fólk var réttkjörið og hefur sömu skyldur og alþingismenn að láta einungis sannfæringu sína ráða en ekki flokksbönd. Því er fráleitt að fullyrða að ég "telji mig eiga hvert bein" í þessu fólki.

Ég þekki það hins vegar vel að góðu einu og finnst ekkert athugavert við það þótt ég sé ánægður með að það fái tækifæri til að vinna hugsjónum sínum brautargengi.

Ég skil ekki af hverju það fer svona fyrir brjóstið á sumum að fólk, sem var rétt kjörið sem fulltrúar og varafulltrúar í borgarstjórn komist til áhrifa, bara veegna þess að það var í forystu Íslandshreyfingarinnar.

Það hefur ekkert farið fyrir brjóstið á mér þótt einn fulltrúi F-listans í nefndum borgarinnar hafi verið félagi í Frjálslynda flokknum.

Málefni og áherslur í borgarpólitík geta verið aðrar en í landsmálum og einnig það með hverjum fólk starfar. Ég sé ekkert óeðlilegt við það að fólkið á F-listanum reyni að hafa áhrif og axla ábyrgð í borgarmálum á grundvelli þeirra svæðisbundnu aðstæðna sem eru í borginni.

Ómar Ragnarsson, 15.10.2007 kl. 15:12

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Ómar

Þakka þér fyrir athugasemdina.

Það er ekki hægt að neita því að staða Margrétar er mjög sérstök. Hún er vissulega varafulltrúi í borgarstjórn á framboðslista F-lista frjálslyndra og óháða. Deili ekkert um að hún sé stödd þar. Ólafur F. hefur átt við veikindi að stríða og ég vona að hann nái sér af því.

Hinsvegar er allt þetta mál spurningamerki um stöðu fólks sem segir skilið við annan flokk og heldur áfram störfum sínum. Við erum að kjósa til fjögurra ára og umboðið getur breyst á þeirri vegferð. Hinsvegar væri eðlilegast að það væri enginn vafi á málum. Margrét beindi til umboðsmanns Alþingis á sínum tíma máli Gunnars Örlygssonar er hann skipti um flokk. Hvernig fannst þér sú athugasemd Margrétar?

Heilt yfir eru spennandi tímar framundan í borgarmálunum. Þetta eru sögulegar aðstæður að mjög mörgu leyti og margt hefur breyst frá kosningunum 2006. Skil Margréti vel að vilja ekki vinna með fólki sem hún vantreystir en þá ætti hún bara að segjast vinna af hálfu hins nýja flokks síns, ef það er alveg öruggt að meginþorri hópsins í borgarmálunum sem hún tilheyrði er farinn þangað.

Það er t.d. vandséð hvernig Frjálslyndi flokkurinn tengist orðið F-listanum. Þetta er verulega flókið mál í alla staði og ekki bætir þessi túlkun um óháðan úr skák þegar að ljóst er að Margrét er varaformaður stjórnmálaflokks.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.10.2007 kl. 15:21

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sæll Stefán.

Þakka þér fyrir þessa umræðu og skoðanskipti sem eru nauðsynleg.

Líttu á eftirfarandi og berðu þetta tvennt saman:

Gunnar Örlygsson fór úr stjórnarandstöðuflokki yfir í stjórnarflokk sem var með gerólíka stefnu í höfuðmáli Frjálslynda flokksins, kvótamálunum.

Margrét Sverrisdóttir hefur með Ólafi F. Magnússyni staðið að sterkum málarekstri í borgarstjórn í umhverfismálum bæði fyrir og eftir að þau sögðu sig úr flokknum. Í borgarmálapólitíkinn hefur það eitt breyst hjá þeim og þeirra samherjum í F-listanum að nú eiga þau meiri möguleika en áður á að koma hugsjónum sínum fram.

Ómar Ragnarsson, 15.10.2007 kl. 19:38

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ómar meinti vel en hefur óvart  komið varaformanni sínum í mikla klípu.

Sigurður Þórðarson, 15.10.2007 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband