Heimkoma Benazir Bhutto breytist í martröð

Benazir Bhutto Aðeins örfáum klukkustundum eftir að Benazir Bhutto sneri heim til Pakistans með tárin í augunum eftir áratug í útlegð hefur henni verið sýnt banatilræði. Heimkoma þessa eins öflugasta stjórnmálamanns í sögu Pakistans, fyrstu konunnar sem leiddi íslamskt ríki, hefur í einu vetfangi breyst í hreina martröð, enda liggja yfir hundrað manns í valnum á þessum blóðuga degi sem markar endurkomu Bhutto í pakistönsk stjórnmál.

Það mátti auðvitað búast við því að heimkoma Benazir kveikti ófriðarbál víða - hún er vinsæl meðal landsmanna en gríðarlega umdeild. Yfirvofandi þátttaka hennar í þingkosningunum stuðar marga. Strax heyrist orðrómur um að stjórnvöld standi að baki morðtilræðinu og varla er það undrunarefni að það sé álitið enda stóðu þeir sem nú ráða för í Pakistan að hinni grimmdarlegu aftöku á föður hennar, Zulfikar Ali Bhutto, fyrrum forseta og forsætisráðherra Pakistans, fyrir um þrem áratugum. Öll teikn eru því á lofti um að ógn vofi yfir.

Heimkoma Benazir hefur verið skipulögð á þessum degi í yfir mánuð og því hefur andstæðingum hennar gefist færi á að undirbúa tilræðið. Það voru þó eflaust flestir að vona að ekki kæmi til þessa. Þó að talað sé um samninga milli hennar og Musharraf er það meira í orði en á borði. Atburðir dagsins sýna að framundan eru erfiðar vikur í Pakistan og sér ekki enn fyrir endann á þeirri ólgu sem kallast fram með því að Benazir verður aftur sýnileg í pakistönskum stjórnmálum. Það er greinilegt að lykilöfl ætla sér ekki að deila völdum með henni og greinilega hitatímar framundan.

Fjarvera Benazir frá pakistönskum stjórnmálum hefur verið áberandi. Staða mála í dag sýnir hversu mjög fólk er hrætt við stöðu hennar og vill ekki að hún lifi í gegnum kosningabaráttuna sem framundan er. Öll spjót beinast að því að morðtilræðið sé ættað frá stjórnvöldum sem vilja ekki deila sviðsljósinu með Benazir.

Staðan er brothætt - fyrsti dagur hennar í heimalandinu eftir langa fjarveru endar í skugga morðtilræðis og væntanlega lifir hún í skugga þess að það endurtaki sig næstu vikurnar.

mbl.is 125 látnir í sprengjutilræðinu í Karachi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Hannesdóttir

Palestínumenn hafa ekki viljað sáttaumleitanir, það er augljóst. Gott að það kemur fram, en er sorglegt.

Sólveig Hannesdóttir, 19.10.2007 kl. 00:26

2 identicon

Fyrirgefðu Sólveig, en hvernig koma Palestínumenn þessu við?

Dísa (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 00:32

3 identicon

Þú ert of fljótur að draga ályktanir.

Musharraf kæmi ekki til hugar að beita svona aðferðum. Hann hefur verið einn traustasti bandamaður Bandaríkjanna í baráttunni við Al Quiada. Mér sýnist greinilegt að þeir sem skipulögðu þetta tilræði vilji allt í bál og brand. Það kæmi mér ekki á óvart að skipuleggjendur þessa ódæðis séu engir aðrir en öfgasinnaðir múslimar, með öðrum orðum, hreyfing sem bendlar sig við Osama bin Laden. Hvort hann er lífs eða liðinn er hann orðinn eins konar tákngerfingur fyrir þriðja heims byltinguna sem vill sækja að vesturheimi - hefur engu að tapa og þess vegna beitir hún vopnum sem eru í senn ódýr og flestu fólki óhugsandi.

Pervez Musharraf myndi aldrei beita svona brögðum, hann hefur unnið með vesturlöndum og það sem flestir vita er að Bhutto myndi bæta þar enn meira við. Þetta vita gerendur og vilja skapa glundroða með hennar heimkomu.

Þetta gæti markað upphaf af því sem ég hef verið hræddur um að geti orðið - þriðja heimstyrjöldin: vesturlönd vs þriðja heiminum.

Trúarbrögð eru bara yfirskyn í því sem gæti kallast bylting þriðja heimsins.

Benóný Jónsson (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 04:36

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er heiðarlegt mat mitt Benóný á stöðunni. Þó að Musharraf hafi talað vinalega til Benazir Bhutto liggur ekki fyrir neitt samkomulag þeirra á milli. Það eru miklar hitalínur þarna. Hún fór heim án þess að nokkuð væri í raun ljóst um sína stöðu. Enn hefur kjör Musharrafs sem forseta ekki verið staðfest og hann er enn yfirmaður hersins, en það var lykilkrafa Benazir að hann hætti yfirstjórn hersins. Hann leiddi herinn á þeim tíma sem faðir hennar var tekinn af lífi eftir umdeild réttarhöld og það er ólga víða milli fólks. Það er ekki á neitt að treysta. Þetta veit Benazir. Það eru hitatímar framundan í Pakistan. Enn er tiltölulega langt í kosningar. Þrír til fjórir mánuðir geta verið lengi að líða þarna.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.10.2007 kl. 18:38

5 identicon

Grunsemdir Bhutto beinast að því að fylgjendur Muhammad Zia ul Hag séu tilræðismennirnir. Sá maður er upphafsmaður að tilburðum til þess að gera Pakistan að Sharia múslimsku ríki og við vitum söguna af því. Hreyfing þessa gamla hershöfðingja í her Pakistan er náttúrulega ekkert annað en Al Quieda hyski.

Er sammála þér um að það sé tíðinda að vænta frá Pakistan á næstunni. 

Benóný Jónsson (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband