Valgerður ætti að líta sér nær í greiningu

Guðni og ValgerðurÞað vekur athygli að Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, tali um veika stöðu Sjálfstæðisflokksins. Hún ætti að líta sér nær í pólitískri greiningu. Það er ekki hálft ár liðið frá því að þjóðin hafnaði Framsóknarflokknum í þingkosningum - er flokkurinn missti nærri helming þingsæta sinna og missti meðal annars sitjandi ráðherra fyrir borð og formaður flokksins á þeim tíma hlaut ekki stuðning til kjörs á Alþingi.

Sögulegt afhroð Framsóknarflokksins í þingkosningunum í vor ætti að vera henni nær í huga. Það er vissulega alltaf sárt að horfa inn á við og gera upp mál sín en það er uppbyggilegt til lengdar. Það sem er merkilegast reyndar nú er að fylgi Framsóknarflokksins er ekki á uppleið í könnunum. Þar er enn verið að lepja dauðann úr skel í orðsins fyllstu merkingu. Eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar og Jóns Sigurðssonar verður brátt litið í aðrar áttir með skýringar á vondri stöðu flokksins í stjórnarandstöðu. Er þjóðin að hafna leiðsögn hinna reyndu, þeirra Guðna og Valgerðar, í flokknum? Er verið að kalla eftir kynslóðaskiptum í áherslum og uppstokkun forystunnar?

Hvernig ætlar forysta Framsóknarflokksins að dekka það ef kannanir halda áfram að verða svo vondar fyrir flokkinn? Eigum við þá von á greiningu á vefsíðu Valgerðar Sverrisdóttur með þeirri fyrirsögn að staða flokksins sé með eindæmum veik og spilaborgir forystumannanna kunni að hrynja? Held ekki. Stoltið hennar Valgerðar er eflaust stærra en svo. Það er alveg rétt hjá Valgerði að fall meirihlutans í Reykjavík er visst áfall. En þar er atburðarásin flókin og erfið og sögusagnir um óheilindi og fjárhagslega hugsmuni ganga. Það er eðlilegt að endalok samstarfs án kosninga séu sár.

Í vor missti Framsóknarflokkurinn völdin. Það situr enn í Valgerði og hennar fólki. Skiljanlega eflaust. En Framsókn missti ekki völdin vegna ákvarðana flokka - það var þjóðin sem veikti Framsóknarflokkinn og undirstöður hans. Fall flokksins í þær lægðir sem við blasa nú var ekki ákvörðun Geirs Haarde eða annarra forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Umboð flokksins að loknum kosningum var veikt og endalok stjórnarsamstarfs urðu í ljósi veikrar stöðu Framsóknarflokksins út úr kosningum - þar sem landsmenn tóku sjálfir ákvörðun um stöðu mála.

Valgerður ætti að reyna að vera jákvæðari í stjórnarandstöðu og reyna að byggja Framsóknarflokkinn upp en vera ekki að væla yfir öðrum í þessari stöðu. Hafi flokkar og forystumenn ekki það til að bera að byggja upp nánasta umhverfi sitt með jákvæðum áherslumálum og skrifum er varla við því að búast að þeir hækki í verði pólitískt.


mbl.is Valgerður: Staða Sjálfstæðisflokksins með eindæmum veik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég held að Valgerður ætti í stað þess að lýsa yfir veikri stöðu Sjálfstæðisflokkins ættu hún að skoða stöðu síns flokks.
Afhroð í síðustu kosningum, náði ekki inn manni í hvorugu Reykjavíkurkjördæminu sem varð til þess að formaðurinn þurfti að segja af sér.
Ef staða einhvers flokks er veik í dag þá er það staða framsóknarflokksins.
Það hlýtur að vera ömurleg staða fyrir stjórmálaflokk sem telur sig vera á miðjunni að vera minni en öfgasinnaður vinstriflokkur.

Óðinn Þórisson, 19.10.2007 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband