Leyndarhjúpnum um kynhneigð Dumbledore aflétt

Richard Harris í hlutverki DumbledoreÞað eru nokkrir mánuðir liðnir frá því að sögulok urðu í ævintýrasögum J.K. Rowling um galdrastrákinn Harry Potter. Það er mjög athyglisvert að Rowling hafi nú, kannski fyrir tilviljun og jafnvel líka til að stuða aðdáendur bókanna um allan heim, upplýst að galdrameistarinn Dumbledore hafi verið samkynhneigður. Þetta er merkileg viðbót á karakterinn og söguna auðvitað, en ég verð að viðurkenna að ég sá ekki karakterinn fyrir mér sem homma í túlkun Michael Gambon og þaðan af síður Richard Harris.

Bækurnar um Harry Potter komu út sjö talsins á tíu ára tímabili og hafa allar notið mikilla vinsælda. Langar biðraðir hafa myndast í hvert skipti eftir þeim. Fyrsta bókin, Harry Potter og viskusteinninn, er ein mest selda bók heims, sú níunda eða tíunda mest selda að mig minnir, naut allavega gríðarlegra vinsælda. Áhuginn fyrir bókunum hefur alltaf verið mikill og hefur æðið sem myndaðist utan um ævintýrabálkinn verið áberandi. Fá ævintýri hafa náð betur til fólks á öllum aldri og eitt er víst að lesendahópurinn er ekki bara börn eða unglingar. Bækurnar hafa enda verið fjölskyldulesning og áhuginn eftir því.

Bækurnar um Harry Potter hafa opnað magnaðan ævintýraheim. Sennilega er J.K. Rowling fjarri því besti rithöfundur sögunnar en henni tókst með ævintýralegum hætti að búa til heim sem lesendur gátu gleymt sér í og fangaði ævintýraþörf fólks. Þetta er ekki ósvipað og Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien. Flestir muna eftir tilhlökkuninni eftir myndunum þrem á hinum gömlu og góðu bókum, sem fæstir höfðu lesið áður en þeir sáu fyrstu myndina. Það varð visst spennufall hjá aðdáendum sagnanna þegar að þriðja og síðasta myndin varð opinber og sama mun eflaust gerast meðal aðdáenda Harry Potter nú, sem geta þó beðið eftir næstu tveim kvikmyndum.

Dumbledore hefur verið ein helsta persónan í sögunni. Nú hefur Rowling komið með þessa uppljóstrun seint og um síðir. Allir sannir aðdáendur eru búnir að lesa söguna og hafa heyrt um endalokin. Írski leikarinn Richard Harris skapaði karakterinn í upphafi og birtist í tveim fyrstu myndunum; Harry Potter og viskusteinninn og Harry Potter og leyniklefinn. Hann þrælpassaði í karakterinn. Seinni myndin varð hans síðasta á litríkum leikferli, en hann lést árið 2002 úr Hodgkins sjúkdómnum. Við hlutverkinu tók Michael Gambon, sem hefur leikið Dumbledore vel en fjarri því náð að toppa Harris.

Richard Harris var jafnan táknmynd karlmennskunnar á leikferli sínum, enda mikið hörkutól og jafnan í hlutverki slíkra kappa, og verður áhugavert að sjá hann í hlutverki Dumbledore eftir þessa uppljóstrun um karakterinn frá höfundi bókanna. Það verður eflaust stúderað karakterinn betur eftir þetta og reynt að horfa undir skelina hans. Heilt yfir er merkilegt að Rowling færi heim bókanna í þessa átt og fróðlegt væri að vita hvort fleiri leyndardómar séu þar undir niðri.

Kannski er þetta auglýsingatrix til að undirbúa okkur fyrir framhald um Potter. Rowling hefur neitað árum saman að bækurnar verði fleiri en sjö. En það er oft erfitt að segja aldrei í þessum efnum þegar að peningar eru annars vegar. J.K. Rowling varð ein ríkasta kona heims á þessum bókum - þarf svosem varla að skrifa nema að hún kæri sig um. En kannski er verið að horfa til þess að bæta við. Hver veit.


mbl.is Rowling: "Dumbledore er samkynhneigður"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Björnsson

Ég vona að þessi uppljóstrun hafi ekki stuðað þig of mikið.  Kannski hjálpar þetta einhverjum að losna við hugmyndir sínar um staðalímyndir og sumir gætu etv. komist að þeirri merku niðurstöðu að ekki eru allir hommar "hommalegir" og að þeir fyrirfinnast raunar í öllum stærðum og gerðum og eru sumir ekki síðri hörkutól en hverjir aðrir.

Róbert Björnsson, 20.10.2007 kl. 23:25

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég einfaldlega sá ekki þetta twist fyrir. Það er nú bara þannig. Ég á vini sem eru samkynhneigðir og hef ekkert vont um það fólk að segja. Hver verður að finna sér sína braut í lífinu og lifa sínu lífi. Það er bara lykilatriði.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.10.2007 kl. 00:02

3 identicon

Richard Harris skapaði ekki karakterinn, síður en svo. Rowling á allan heiður að karakternum Dumbledore. Harris hins vegar túlkaði hann á mjög sannfærandi hátt; Dumbledore er hæfileikaríkur, ástúðlegur og gríðarlega vitur maður og Harris túlkaði hann nákvæmlega þannig. Ég vona að hann hefði ekki farið að bæta inn einhverjum "töktum" þó að hann hefði vitað það sem marga grunaði reyndar, að Dumbledore var hommi.

Sjálfri finnst mér þetta frábær uppljóstrun hjá Rowling, einmitt vegna þess að það fær fólk eins og þig sem "sá ekki karakterinn fyrir [sér] sem homma í túlkun Michael Gambon og þaðan af síður Richard Harris" til þess að velta því fyrir sér hvort samkynhneigð sjáist alltaf utan á fólki og hvort það hvern manneskja elskar skipti yfirhöfuð nokkru máli - aðalatriðið er það hver hún er.

Kristjana Hrönn Ásbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 02:36

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Kristjana.

Ég meinti fyrst og fremst að Harris skapaði karakterinn á hvíta tjaldinu, allavega í huga mínum. Fannst túlkun hans mun betri. En auðvitað er þetta ævintýraheimur J.K. Rowling og hún hefur sannarlega unnið mjög gott verk sem hún getur verið stolt af.

Það er algjör óþarfi að leggja skrif mín út á versta veg eða sem tal gegn samkynhneigðum eins og mér finnst þú gera. Það var fjarri því meint þannig. Í mínum huga hefur ást alltaf skipt máli og ég met ást annars fólks jafnmikið eftir því hvort að fólk er gagnkynhneigt eða samkynhneigt. Það sést ekki alltaf utan á fólki hver kynhneigð þess er. En þetta voru hugleiðingar mínar bara á þessari uppljóstrun. Því fer víðsfjarri að ég sé með þeim að tala gegn samkynhneigðum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.10.2007 kl. 02:42

5 identicon

Ég er ekki að gefa það í skyn að þú sért að tala gegn samkynhneigðum, en það breytir því ekki að það fyrsta sem þú og margir aðrir gerðuð var að fara að velta því fyrir sér hvort þetta hefði sést einhvers staðar. Ég held að svo sé ekki. Mig grunar að þessu sé ljóstrað upp svona seint einmitt vegna þess að þetta átti aldrei að sjást eða vera meginfókus karaktersins. Bara hluti af því hver hann var.

Kristjana Hrönn Ásbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 02:48

6 identicon

Kannski hljómar þetta barnalega, en ég bara skil ekki þessar pælingar um það hvort persónur í bókum eða bíómyndum séu samkynhveigðar eða ekki!  Í mínum huga allavega skiptir það bara nákvæmlega engu máli og eins í HP bókunum þá kemur það sögunni bara ekkert við.

Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 05:18

7 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Sérhver góður rithöfundur hefur í huga sér heildarmynd af persónum sínum sem hann horfir til við skriftir sínar. Það er alls ekki nauðsynlegt að öll atriði í sögu persónunnar komi fram í hinum ritaða texta, en hin ósögðu atriði hjálpa til að veita persónunum dýpt.

Hafandi sjálfur stundað skóla í Bretlandi þar sem flestir kennarar mínir voru í public school á unglingsárum sínum verð ég að segja að þetta kom mér nákvæmlega ekkert á óvart, enda hafði mér sýnst þetta vera augljóst við lestur The Deathly Hallows.

Elías Halldór Ágústsson, 21.10.2007 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband