Skynsamleg ákvörðun Björns Inga

Björn Ingi glottir Það er skynsamleg ákvörðun hjá Birni Inga Hrafnssyni, borgarfulltrúa, að taka ekki sæti í stýrihóp sem fara á yfir mál OR og REI. Eftir allt sem á undan var gengið í umdeildum hitamálum hefði það talist hvítþvottur meirihlutans á verkum Björns Inga að láta hann setjast í dómarasæti í eigin máli. Það er því eðlilegt að meirihlutinn átti sig á hversu viðkvæm nefndaseta Björns Inga hefði verið, en það væri reyndar fróðlegt að vita hvort ákvörðunin hafi verið hans eða Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.

Varla þarf svosem að fagna því að fólk sér hlutina rökrétt og lætur ekki þá sem tengjast hitamálum beint vera í aðstöðu til að vega og meta stöðu þess - mál sem það stýrði sjálft með umdeildum hætti. Þetta var mál sem stuðaði almenning um allt land og það dugar enginn hvítþvottur í þeim efnum í sannleika sagt. Sjálfstæðisflokkurinn tók þá afstöðu að tilnefna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í stýrihópinn, enda varla eðlilegt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, taki þátt í að fara yfir málið. Það á að gerast án aðkomu leiðtoga fyrrum meirihluta, gildir þar einu hvort talað er um Vilhjálm eða Björn Inga.

Það má reyndar íhuga hvort eðlilegt sé að stjórnmálamenn leiði þessa vinnu. Hvort ekki hafi átt að fá utanaðkomandi aðila til verksins. Það verður eflaust rætt um það. Nú fer þetta starf af stað og verður vissulega fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verður. Það er alveg ljóst að ekki geta allir gengið brosandi frá þessu máli. Innan meirihlutans verður áhugavert að sjá hver muni þurfa að gleypa stóru orðin, hvort að VG muni fallast á alla umdeildustu þætti málsins, sameiningu REI og GGE og aðra lykilþætti, sem það gagnrýndi svo harkalega, eða hvort að Framsóknarflokkurinn verði beygður til að sætta sig við hluti sem það sætti sig ekki við í fyrri meirihluta.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi, opinberaði í Silfri Egils í dag þau merku orð Björns Inga Hrafnssonar á síðasta meirihlutafundi flokkanna að allt þetta mál snerist um sína pólitísku framtíð. Það hefur ekki komið fram áður og setur málið vissulega enn í nýtt samhengi. Það er öllum ljóst að Björn Ingi hefði aldrei stofnað til nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur án þess að hafa samið að fullu um að niðurstaða mála yrði í takt við sínar áherslur, það sem hann steytti á í fyrri meirihluta. Það verður áhugavert að sjá hvort að Svandís gleypi öll hin fyrri stóru orðin.

mbl.is Björn Ingi ekki í stýrihópnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Mér finnst nú einkennilegt ef Þorbjörg er að segja það núna fyrst að Björn Ingi hafi sagt að þetta væri spurning um hans pólitísku framtíð.  Ég held að það hljóti að vera hennar túlkun á orðum hans annars væri hún einfaldlega búin að nota þetta fyrr í umræðunni - þau hafa vissulega gripið til allra þeirra leiða sem þau hafa talið mögulegar til að vaða í Björn Inga og hreint ótrúlegt ef þau hafa ekki notað þetta atriði sem þó hefði hentað þeim mjög vel undanfarna daga.  Þetta hljómar einhvern veginn mjög hæpið.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 21.10.2007 kl. 17:12

2 identicon

Það er satt að nú reyni á hversu mikið traust Svandís ætlar að sýna sínu fólki. Það er í það minnsta ein þekkt persóna í röðum Vinstri Græna sem ekki hefur trú á henni og því fólki sem hún vinnur með. Hún sýndi það táknrænt með því að segja sig úr flokki Svandísar.

Eggert Guðmundsson (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband