Veðramót drottnar yfir Edduverðlaununum

Edduverðlaunin Tilnefningar til Edduverðlaunanna, íslensku sjónvarps- og kvikmyndaverðlaunanna, voru kynntar formlega í dag. Það er ekki hægt að sjá annað en að Veðramót muni drottna yfir verðlaununum þetta árið, ekki aðeins er hún með ellefu tilnefningar heldur er hún klárlega besta íslenska kvikmynd ársins, ber höfuð og herðar yfir allt annað. Það hefur blasað við frá því að hún var frumsýnd að hún hlyti verðlaunin og það er varla neitt annað í kortunum. Reyndar vekur mikla athygli að Astrópía er ekki tilnefnd sem besta mynd ársins.

Annað sem vekur athygli er að Astrópía fær engar tilnefningar fyrir leik, en fyrirfram átti ég von á að Pétur Jóhann Sigfússon eða Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir yrðu tilnefnd, en Pétur Jóhann er aftur á móti tilnefndur fyrir leik sinn í Næturvaktinni, en þar er hann gjörsamlega að brillera í hlutverki bensíntittsins Ólafs Ragnars. Næturvaktin er að sjálfsögðu tilnefnt sem besta leikna efni ársins. Mjög vel gerðir, fyndnir og vel skrifaðir þættir - hiklaust afgerandi sönnun þess að við getum vel gert góða gamanþætti í sjónvarpi og þjóðin er hrifin af svona efni. Það sést vel á viðtökunum sem þættirnir hafa fengið.

Finnst reyndar verulega hallærislegt hjá þeim sem sjá um verðlaunin að hafa saman frammistöður karla og kvenna í leikaraflokkum í aðal- og aukahlutverki. Það er allverulega dapurt að mínu mati og vert mikillar umhugsunar. Þó að lítið sé framleitt af íslensku efni er alveg út í hött að sameina þessa flokka. Það er þá hreinlega best að sleppa þeim. Það er þó mikið af gæðaleikurum tilnefnt til leikaraverðlauna. Hera Hilmarsdóttir og Jörundur Ragnarsson voru virkilega góð í Veðramótum og koma sannarlega sterklega til greina í sínum flokkum.

Heilt yfir er nokkuð ljóst að Veðramót muni verða stór sigurvegari þann 11. nóvember. Það væri líka mjög verðskuldað. Ég skrifaði kvikmyndagagnrýni um hana á film.is og fór þar yfir mitt mat á myndinni. Var mjög ánægður með hana, en hún skildi líka mikið eftir sig. Það er mjög öruggt veðmál allavega að spá Guðnýju Halldórsdóttur og hennar fólki góðs gengis á Edduverðlaununum þetta árið. Guðný var sigursæl á fyrstu Edduverðlaunahátíðinni fyrir um áratug, en þá hlaut Ungfrúin góða og húsið öll helstu verðlaunin og Guðný var valin besti leikstjórinn. Líklega mun hún ná því aftur nú.

Það kemur ekki að óvörum að lista- og menningarþættirnir Kiljan og 07/08 bíó - leikhús hafi fengið tilnefningu. Báðir þættir eru vel gerðir og með því allra besta sem er í kassanum en aftur á móti vekur talsverða athygli að sjá þátt eins og Útsvar tilnefndan. Held að flestir veðji á Syndir feðranna og Kompás í sínum flokkum. Margt fleira er áhugavert í þessum kapal en nú fær þjóðin að velja fimm bestu sjónvarpsþættina sem símakosning er svo um kvöldið sem verðlaunin eru afhent.

Held þó að lítið verði um spennu á Eddunni þetta árið. Þetta verður hátíð Veðramóta fyrst og fremst. Lítill vafi þar á.

Tilnefningar til Edduverðlaunanna 2007

mbl.is Veðramót fékk 11 tilefningar til Edduverðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Ekki séð hana, en sá Köld slóð núna á dögunum.  Fín mynd og góð flétta ...

Verð að drífa mig í að sjá Veðranótt

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 24.10.2007 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband