Aldarafmæli Gísla á Uppsölum

Gísli á Uppsölum Öld er í dag liðin frá fæðingu einbúans Gísla á Uppsölum í Selárdal. Það var okkur öllum mikil uppgötvun að kynnast honum og lífsaðstæðum hans fyrir rúmum tveim áratugum. Ég horfði um helgina á ógleymanlegt viðtal Ómars Ragnarssonar við Gísla á Uppsölum sem fyrst var sýnt árið 1981 í Stikluþætti á jóladag. Ómar á með því heiðurinn af einni stærstu stund íslenskrar sjónvarpssögu.

Gísli var alþýðumaður er lifði sem á 19. öld væri en í raun uppi á tækniáratugum seinni hluta 20. aldarinnar, tæknialdarinnar miklu. Gísli hafði misst af öllum þeim tækniþægindum sem okkur þótti þá sjálfsögð og þekkti ekki það sem nútíminn hafði innleitt. Ómar færði okkur þennan mann heim í stofu og kynnti okkur fyrir honum, þó með nærgætni og tilfinningu. Þar kom heim í gegnum sjónvarpið til okkar allra maður sem hafði ekki rafmagn, átti ekki nein nýtískuleg tæki og lifði fastur á fornum tímum.

Þessi Stikluþáttur er eftirminnilegur enn í dag og það liggur við að þeir sem sjá hann verði enn kjaftstopp. Gísli þekkti ekki Ómar er hann kom í heimsókn, las enn gömlu blöðin frá fjórða áratugnum, hafði aðeins einu sinni eða tvisvar farið úr Selárdal og lifði í eigin heimi. Samt var hann sáttur við sitt. Merkileg upplifun að sjá þennan þátt. Blessuð sé minning þessa heiðursmanns, sem sannarlega er og verður alla tíð einstakur í huga okkar allra.

mbl.is Öld liðin frá fæðingu Gísla á Uppsölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er nú ekki fullmikil dramatík að segja að Gísli hafi ekki átt nein nýtískuleg tæki og hafi lifað fastur á fornum tímum þegar í fréttinni kemur fram að hann hafi átt útvarp, síma og verið í bókaklúbb?  Að auki stendur að hann hafi verið mikill áhugamaður um framfarir og hafi fylgst vel með tækninýjungum.

Benedikt G. Waage (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 19:39

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér fyrir kommentið Ingólfur.

Benedikt: Tel þessa lýsingu ekki orðum aukna. Það var mikil lífsreynsla fyrir landsmenn að sjá líf Gísla. Hann lifði án alls rafmagns og helstu þæginda lífsins á sjálfum níunda áratugnum. Þetta var mikið skúbb, mikil frétt. Það vita það allir sem sjá þáttinn með Gísla hvernig hann lifði, en eins og ég segi var hann sæll með sitt. Hann kvartaði ekki. En þetta var mjög eftirminnilegur þáttur, mikil upplifun fyrir þá sem horfa á þáttinn. Enda stærsta móment sjónvarpssögunnar hérna heima hiklaust.

Stefán Friðrik Stefánsson, 29.10.2007 kl. 20:23

3 Smámynd: Sandra Dögg Guðmundsdóttir

Það var lagt rafmagn til hans árið 1980..

Sandra Dögg Guðmundsdóttir, 29.10.2007 kl. 21:55

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það getur varla verið. Þátturinn um Gísla á Uppsölum var frumsýndur skv. upplýsingum mínum af merkingum af Stikluþáttunum 25. desember 1981 og tekinn upp fyrr um árið. Þá var ekkert rafmagn á Uppsölum. Þar var ekkert rafmagnstæki. Hann svaf við olíulampa og það var eina ljósið eftir að dimma tók.

En þessi þáttur leiddi til þess að Gísli fékk rafmagn og þau þægindi sem við nútímafólkið teljum mestu skipta. Það er reyndar kominn tími til að Sjónvarpið endursýndi þennan þátt, enda væri hann lærdómsríkur fyrir marga. Þetta er algjörlega einstakur þáttur og merkilegt að fá þessa innsýn í líf manns sem hefur hvorki rafmagn né þau þægindi sem við metum mest.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 29.10.2007 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband