Verða jafnréttislögin nú ekki lengur barn síns tíma?

Jóhanna SigurðardóttirÞað er ekki langt síðan að sagt var eftirminnilega að jafnréttislögin væru barn síns tíma. Ekki voru allir sáttir við þá túlkun. Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, lagt fram ný jafnréttislög, nýjan grunn í þessum lagabálki fyrir þingið. Jóhanna hefur jafnan verið mikill jafnréttissinni og sýnir það með nýju lagatillögunum. Sagt er að Jóhanna vinni frá morgni til kvölds, mæti fyrst í vinnuna og fari jafnvel síðust heim. Sama orð fór af henni er hún gegndi embættinu hér áður fyrr. Nýlega mældist hún vinsælasti ráðherrann.

Meðal allra helstu baráttumála kvenna í dag er launamunur kynjanna. Það er vissulega ólíðandi á okkar tímum að kynin fái ekki sömu laun fyrir sambærileg störf. Varla þarf að taka það fram nógu oft að mikilvægt er að taka á þessum launamun. Það má hinsvegar deila um það hvort að rétta leiðin sé sú sem felst í nýjum lagatillögunum að afnema launaleyndina. Þetta hefur verið baráttumál femínista árum saman og virðist sigur þeirra vera í sjónmáli nú undir forystu Jóhönnu. Þarna er Jóhanna að vinna eftir stjórnarsáttmálanum frá því í vor, en þar var þetta plan grunnlagt.

Ég hef alltaf verið á móti kynjaskiptingu á vinnustöðum eða reglugerðum þar um. Sum fyrirtæki hafa staðið sig vel í þessum efnum þrátt fyrir enga sérstaka reglugerð og ráða hæft fólk til verka, án þess að hugsa um kynferði. Enda á það ekki að vera úrslitaatriði. Það hefur sést vel af því að til eru konur sem vinna algeng karlastörf með sóma og karlmenn hafa unnið kvennastörf. Karlmenn vinna t.d. við umönnunarstörf af ýmsu tagi; á dvalarheimilum og leikskólum t.d. og konur hafa unnið við að keyra vörubíla og svona mætti lengi telja. Tel ég afleitt að neyða fyrirtæki til að setja vissa kvóta vinnuafls. Það verður hvert fyrirtæki að hafa eigin leikreglur. Vil ég ekki forræðishyggju í þessum efnum.

Það verður áhugavert að sjá hvað gerist reyndar nú í málefnum fyrirtækja. Mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að sett verði lög um að visst hlutfall kvenna verði í stjórnum fyrirtækja, eins og ég hef heyrt suma ráðherra tala fyrir? Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að ráða eigi í stöður eftir hæfni og líka eftir huglægu mati. Það er eitur í mínum beinum þegar farið er að tala um kynjakvóta og staðla þannig tengd. Fólk á að komast áfram á eigin verðleikum en ekki kynjakvótum sem sett eru beinlínis til að breyta mati úr því hver sé hæfastur til starfsins í það hvort um sé að ræða jafnan hlut kynjanna.

Þetta hefur oft birst við val á framboðslistum fyrir kosningar. Þar eru stundum settir kynjakvótar til að velja á listann eftir. Hefur það gerst að kona hafi hækkað um sæti og lækkað um sæti vegna slíkra reglna. Heilt yfir tel ég kynjakvóta fáránlega og tel t.d. að í prófkjörum eigi fólk að standa jafnfætis. Konur hafa t.d. innan Sjálfstæðisflokksins náð góðum árangri í prófkjörum þrátt fyrir enga kynjakvóta. Nægir þar að nefna að í prófkjöri okkar hér í Norðausturkjördæmi í fyrra náðu konur tveim af þrem efstu sætunum. Framboðið okkar var hið eina sem gat státað sig af svo sterkri stöðu kvenna, eftir prófkjör eða forval.

Jafnréttislögin eiga að vera skynsamur grunnur til að vinna eftir en ekki forræðishyggja boða og banna yfir fyrirtækjum. Það er engum til sóma að taka upp forræðishyggju í þessum efnum. Tel ég að flestir séu þeirrar skoðunar að skynsemin sé nógu sterk til að vinna sitt verk ein og sér. Lögin eiga ekki að stuðla að forræðishyggju og því að við lifum í samfélagi boða og banna í þessum efnum.


mbl.is Frumvarpi að nýjum jafnréttislögum dreift á Alþingi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Alveg sammála um þetta, skrifaði grein sama efnis fyrr í kvöld.

"Þetta hefur oft birst við val á framboðslistum fyrir kosningar." þetta er til dæmis það sem gerðist þegar Samfylkingin valdi sér ráðherra og held ég að Ingibjörg Sólrún hafi skýlt sér á bak við þessa "rugl" reglu til að setja vinkonur sínar í ráðherrastóla, en gætti þess ekki að velja hæfasta fólkið. Það var hins vegar gert í Sjálfstæðisflokknum sem leggur áherslu á að velja hæft fólk til ráðherrastarfa. Ég var þó ósáttur við að Sturlu Böðvarsyni var kyppt úr ráðherraembætti, búinn að gera góða hluti sem að við erum að sjá gerast núna.

Auðbergur D. Gíslason

14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 30.10.2007 kl. 22:54

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, það er alveg ljóst að þar fór ISG ekki eftir skilaboðum úr prófkjöri. Hún valdi frambjóðanda í þriðja sæti, sem tapaði í leiðtogakjöri, sem umhverfisráðherra, svo dæmi sé tekið. Vissulega hæfa konu, en þarna er ekki verið að fara eftir vilja flokksmanna þarna.

Var fyrst og fremst ósáttur við að við sjálfstæðismenn misstum samgönguráðuneytið. Sturla hafði fengið nógan tíma. Við áttum að fá þetta ráðuneyti til okkar hér í Norðausturkjördæmi. Það er afleitt að flokkurinn hér eigi ekki ráðherrastól.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.10.2007 kl. 23:04

3 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Spurningin er fyrir hverja þetta jafnrétti á að vera.

Jafnréttisbarátta finnst mér í dag ganga út úr kvenréttindi

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 30.10.2007 kl. 23:23

4 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Sammála Gísla, en það er svo líka þannig að konum finnst þær fá minna en karlar en vilja svo aftur ekki þurfa að gera eins mikið og karlar og skilja gjarnan ekkert í því hví þær fái minna. Þetta er þó alls ekkert alltaf svona.

Auðbergur D. Gíslason

14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 30.10.2007 kl. 23:32

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég er sammála þér um kynjakvótann, hann á ekki að gilda slétt yfir línuna.

Ég gæti samt sem áður hugsað mér hann sem lokaúrræði gagnvart fyrirtæki sem ítrekað væri staðið að því að mismuna kynjunum við ráðningar, og þá meina ég á grundvelli hæfni, það er að segja að karlmaður væri tekinn fram yfir konu, eingöngu á grundvelli kynferðis. Trúlega væri samt vandkvæðum bundið að ætla sér að framkvæma slíka reglu í reynd, það yrði alla vega mikið ströggl í kringum það.

Ég ætla svo að halda áfram þessari fyrstu athugasemd minni eftir að þú varst svo góður að samþykkja mig sem bloggvin þinn með því að bauna aðeins á þig :

Ég hjó eftir því í skrifum þínum að þú skilgreinir störf fólks hikstalaust sem karla- og kvennastörf, umönnunarstörf eru hjá þér kvennastörf, en akstur vörubifreiða karlastörf.

Ég les út úr því sem þú segir að þú ert stoltur af því að viðurkenna að kynin geti sinnt hvoru starfi um sig jafn vel, kven- og karlstarfi samkvæmt hefðinni, skipt um hlutverk, svo að segja. En eru þetta þá ekki þar með úrelt heiti, þar sem ljóst er af þessu að það er frekar komið undir hæfileikum hvers einstaklings um sig heldur en kynferði hans hvernig honum tekst að leysa þessi (og fleiri) störf af hendi?

Greta Björg Úlfsdóttir, 31.10.2007 kl. 01:34

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka gott komment Gréta.

Er eiginlega mun frekar að tala um hefðbundin kynjastörf, eftir gömlu bókinni. Hefði átt að tala um hefðbundin kynjastörf, en það var auðvitað meining mín. Í mínum huga getum við flest gert allt í raun og veru enda er skilgreiningin á svokölluðum kynjastörfum að líða undir lok. Það er mjög gott.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 31.10.2007 kl. 01:38

7 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Ég vona að þingheimur styðji þetta frumvarp ekki enda er þetta hið mesta rugl og algjör þvæla. Ég skrifaði grein um þetta mál.

Auðbergur D. Gíslason

14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 31.10.2007 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband