Engin fyrirsögn

Ögurstund hjá R-listanum
Sannkölluð ögurstund er framundan hjá borgarstjórnarmeirihlutanum. Ljóst er af fréttum seinustu dagana að kreppa er þar innanborðs og engin samstaða lengur um borgarstjórann. Hún nýtur ekki lengur trausts meirihluta borgarstjórnar. Í kjölfar þess að hún tilkynnti um þingframboð sitt hafa samstarfsflokkar Samfylkingarinnar innan R-listans lýst því yfir að hún verði að víkja af borgarstjórastóli. Framsóknarflokkurinn hefur þó gengið lengst og vill að hún víki af borgarstjórastóli og ljá ekki máls á því að hún fari í leyfi og Kópavogsbúinn Helga Jónsdóttir yrði borgarstjóri. Þeir vilja skilyrðislaust að hún víki ef hún fari í þingframboð í vor. Ólgan innan Framsóknarflokksins vegna framboðs ISG hefur aukist jafnt og þétt seinustu vikuna og ljóst að þar munu menn ekki bakka með fyrri yfirlýsingar. Málið er því komið í harðan hnút, borgarstjóri ljær ekki máls á að segja af sér borgarstjóraembætti og framsóknarmenn vilja að hún fari. Um helgina munu örlög R-listans ráðast og ljóst að annaðhvort fer borgarstjóri sjálfviljug af stóli og nýr leiðtogi taki við eða nýr borgarstjórnarmeirihluti verði myndaður, væntanlega milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Í gær settu Framsóknarmenn og vinstri grænir fram tilboð sitt til að leysa vandann innan R-listans. Það gerði ráð fyrir því að Árni Þór Sigurðsson tæki við starfi borgarstjóra þann 15. janúar 2003. Jafnframt yrði Steinunn Valdís Óskarsdóttir forseti borgarstjórnar og Alfreð Þorsteinsson formaður borgarráðs. Þessu boði hefur borgarstjóri hafnað. Ljóst virðist orðið að valdaferli núverandi borgarstjóra ljúki bráðlega. Aðeins er spurningin hvernig honum lýkur. 2. janúar er boðaður næsti borgarstjórnarfundur og það liggur í loftinu að þá verði málið útkljáð. Þetta mun því ráðast á næstu dögum.

Stella snýr aftur tvíefld
Fór í dag að sjá nýju myndina um Stellu, framhald Stellu í orlofi. Stella í framboði er virkilega góð mynd, fyndin og vel leikin. Edda Björgvins, Laddi og Gísli Rúnar snúa aftur í gömlu hlutverkin og fara á kostum. Það er óhætt að segja að þeir sem fara á myndina eigi í vændum góða skemmtun og væn hlátrasköll. Hvet alla til að sjá myndina

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband