26.11.2003 | 23:57
Engin fyrirsögn

Breska þingið var sett í dag við viðhöfn í þinghúsinu við Westminster. Samkvæmt venju flutti Elísabet Englandsdrottning, stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Það er gömul hefð að þjóðhöfðinginn flytji ræðu samda af forsætisráðherranum í þingbyrjun þar sem stefna ríkisstjórnarinnar er kynnt ítarlega. Þingsetningin fer öll fram eftir gömlum hefðum og venjum og hefur lítið breyst seinustu aldir. Í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar kemur fram hvað ríkisstjórn Tony Blairs hyggst fyrir á næstu mánuðum. Eftir 6 og hálft ár við völd vekur athygli að enn er rætt um helstu stefnumál Verkamannaflokksins 1997 í stefnumótuninni. Þegar Michael Howard svaraði stefnuræðunni voru viðbrögð hans þessi: "Þeir eru á vegferð án hugmynda, peninga og eru að renna út á tíma. Eftir 6 og hálft ár hefur Blair misst tökin og stjórn hans vita ekki hver stefnan er. Hún er brunnin upp hugmyndalega séð, þetta vita þeir sjálfir best." Framundan er erfitt ár fyrir forsætisráðherrann.



Í dag birtust á frelsinu tveir mjög góðir pistlar. Sá fyrri er eftir félaga minn, Stefán Einar. Í pistli sínum fjallar hann um ýmsar athyglisverðar staðreyndir um Ísland í samanburði við aðrar þjóðir. Fátt finnst okkur Íslendingum nefnilega skemmtilegra en að bera okkur saman við aðrar þjóðir. Fjallar Stefán Einar ennfremur um bókina "The top 10 of everything 2004" sem hann las nýverið. Að hans mati gefur sú bók harðsoðnar og auðmeltar upplýsingar um allt milli himins og jarðar. Birti Stefán í pistlinum nokkrar mjög skemmtilegar staðreyndir sem þar koma fram. Hvetur hann alla til að lesa bókina. Mun ég lesa hana við tækifæri, enda forvitinn mjög um hana eftir þennan fína pistil. Í dag fjallar María Margrét í pistli sínum um erindi Petru Östergren nýlega, en hún kom hingað til lands til að fjalla um reynslu Svía af lagasetningu um vændi, en svipaðar hugmyndir og þar eru staðreynd koma fyrir í lagafrumvarpi þingkvenna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum, sem liggur fyrir þinginu. Að mati hennar er þörf á mun meiri umræðu og að gera fleiri rannsóknir áður en farið er í að innleiða lög sem geta haft hræðilegar afleiðingar. Tek ég undir með henni.

Eftir kvöldfréttirnar fór ég í það verkefni að setja upp ljós í íbúðinni við Þórunnarstræti. Hafði lengi staðið til að skipta út nokkrum ljósum og það var kominn tími á það. Fór fyrr um daginn í BYKO og keypti ljós. Ýmislegt dútl hefur staðið yfir á heimavelli seinustu daga við að fínisera. Eftir þetta fór ég á MSN og átti gott spjall við Kidda og Helgu, vantaði ekki umræðuefnin í það spjall. Að þessu loknu tók við kvikmyndagláp með tilheyrandi poppi og kóki. Horfði ég á hina sígildu stórmynd Elia Kazan, A Streetcar Named Desire. Mögnuð saga sem segir frá fegurðardísinni Blanche sem kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar, Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir allsstaðar við og það eina sem hægt er að binda vonir við, eru þráin, girndin og ástin. Í aðalhlutverkunum voru Vivien Leigh, Kim Hunter, Karl Malden og nýstirnið Marlon Brando. Hann átti leiksigur í hlutverki Stanley og varð stórstjarna í kvikmyndaheiminum á einni nóttu. Vivien Leigh, Kim Hunter og Karl Malden fengu öll óskarinn fyrir leik sinn og Kazan var tilnefndur fyrir leikstjórn og Brando fyrir magnaðan leik sinn. Mögnuð mynd.

Eins og um hefur verið fjallað hér fyrir skömmu fór stjórn SUS í heimsókn á Alþingi um miðjan nóvember. Var það mjög skemmtilegt og tókst mjög vel upp og allir höfðu gaman af. Á sus.is eru nú komnar inn myndir úr heimsókninni. Lýsa þær vel þessari skemmtilegu og fræðandi heimsókn í löggjafarþingið. Hvet alla til að líta á myndirnar. Eftir ábendingar frá mömmu og fleirum ættingjum fór ég á góðan ljósmyndavef Helga Garðarssonar á Eskifirði. Þar eru myndir frá Eskifirði af heimafólki og frá staðnum. Mamma er frá Eskifirði og þarna fjöldi mynda af ættingjum. Þarna er mynd af Línu ömmu, en amma fæddist í Eyjafirði 1. október 1913 og fluttist austur árið 1923 og bjó til 1974 á Eskifirði. Það ár fluttist hún ásamt mömmu og fjölskyldu minni til Akureyrar (en pabbi er Akureyringur). Hún lést 17. janúar 2000. Einnig er þarna mynd af Friðriki afa. Svo rakst ég á skemmtilega mynd af mömmu, sem tekin var árið 1947, af henni þá ársgamalli. Skemmtilegar myndir, gaman að líta á þennan góða vef.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á kvikmyndavefinn kvikmyndir.com. Þar er fersk kvikmyndagagnrýni, skrif um kvikmyndir frá ýmsum hliðum og margvíslegur fróðleikur. Reglulega skrifa ég þar umfjallanir um meistara kvikmyndasögunnar í leikstjórn.
Snjallyrði dagsins
Til sannrar þekkingar er gott hjartalag nauðsynlegt.
Sveinbjörn Egilsson rektor
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning