22.11.2003 | 08:14
Engin fyrirsögn

Í dag eru fjórir áratugir liðnir frá því að John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Þótt liðinn sé langur tími frá þessum atburðum eru þeir mörgum Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og blandast þar saman sorg, söknuður og tilfinningin um að þjóðin hafi verið svipt ungum og kraftmiklum leiðtoga. Þá er að margra mati sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið. Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt fjórir áratugir séu liðnir frá morðinu á forsetanum.



Í dag birtist á frelsinu ítarlegur pistill minn um stjórnmálaferil og ævi Johns Fitzgerald Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna, en eins og fyrr segir eru fjórir áratugir liðnir í dag frá því að hann var myrtur. Kennedy forseti, fæddist í Brookline í Massachusetts, þann 29. maí 1917, næstelstur í hópi 9 barna hjónanna Joseph og Rose Kennedy. Hann nam í Choate menntaskólanum og Harvard, fór að því loknu í herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, 29 ára gamall árið 1946 er hann var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 1952 var hann kjörinn til setu í öldungadeild þingsins fyrir Massachusetts. Árið 1960 var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna, sigraði Richard M. Nixon naumlega í spennandi kosningum. Hann sat á forsetastóli í rúmlega 1000 daga, var myrtur 22. nóvember 1963 í Dallas í Texas, skömmu eftir að hann kom þangað en hann hafði dagana á undan verið á ferðalagi um fylkið. Kennedy forseti var jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington, 25. nóvember 1963.

Var athyglisvert viðtal við forsætisráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld um mál málanna í gær. Í gærkvöldi voru Gunnar Smári Egilsson ritstjóri og Andrés Magnússon blaðamaður, gestir Jóhönnu og Þórhalls. Aðalumræðuefnið frétt gærdagsins um Kaupþing Búnaðarbanka. Kom verulega á óvart að heyra Gunnar Smára allt að því verja þessa ákvörðun stjórnenda bankans sem um ræðir. Mér fannst undarlegt að fólk reyni að verja þetta, þetta er í senn bæði siðlaust og óverjandi enda hafa stjórnendur bankans dregið ákvörðunina til baka eftir framvindu málsins. Athyglisvert spjall þeirra á milli. Stuðmenn fluttu tvö hressileg lög í þættinum af nýjum diski þeirra, Stuðmenn á Hlíðarenda. Sumarsmellur þeirra, Halló, halló, halló.. var algjört dúndur og þessi fylgja vel á eftir á góðum diski. Er mikill aðdáandi Stuðmanna, alltaf magnað að fara á gott ball með þessari góðu hljómsveit.
Eftir fréttir og dægurmálaþætti hélt ég til vinkonu minnar í gott Idol partý, var gott spjall þar og farið yfir mörg hitamál vikunnar og horft auðvitað á Idol-stjörnuleit. Virkilega fínn og góður þáttur. Eftir þáttinn hélt ég heim og skellti mér í það verkefni að horfa á umdeilda stórmynd leikstjórans Oliver Stone, JFK. Allt frá unglingsárum hafði Oliver Stone fylgst með miklum áhuga með rannsókninni á morðinu á John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, 22. nóvember 1963. Hann ákvað að gera mynd um rannsóknina og þær samsæriskenningar sem fóru um allan heiminn þess efnis að stjórnvöld hefðu átt þátt í morðinu og hann gerði myndina frá sjónarhorni Jim Garrison sem fór fremstur í fylkingu þeirra sem vildu að málið yrði kannað til fulls og allar samsæriskenningarnar kannaðar og málið galopnað. Myndin varð umdeild en mögnuð lýsing á þessu þekkta morðmáli. Hef oft horft á myndina en ákvað í tilefni þess að fjórir áratugir eru liðnir frá morðinu að horfa á myndina.
Vefur dagsins
Bendi öllum í dag á að líta á vandaðan fréttavef New York Times. Ferskar og góðar fréttir þar alla daga.
Snjallyrði dagsins
Spyrjið ekki hvað land þitt geti gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir landið þitt.
John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning